Fjölmenni og nýir félagar

Anna, Ásdís, Bryndís og Jenný
Anna, Ásdís, Bryndís og Jenný
Það var fjölmennt á fundi Mý deilar sem haldinn var í sérdeild Giljaskóla í gærkvöldi. Tvær nýjar konur voru teknar inn í Mýdeild á þessum fundi, fjórar konur komu og kynntu sér starfið, borin var fram graskerssúpa, starfið í sérdeild Giljaskóla var kynnt, spilað var á flautu og flutt hugvekja um sjálfbærni. 

Bryndís Björnsdóttir, deildarstjóri í Naustaskóla og Ásdís Arnardóttir sellókennari í Tónlistarskóla Akureyrar og Tónlistarskóla Eyjafjarðar voru teknar inn í deildina á þessum fundi. Einnig komu fjórar konur á fundinn til að kynna sér starfsemina. 

Dagskráin var að öllu í höndum félagskvenna Mý deildar. 

Ragnheiður Þórsdóttir veflistakona og kennari við VMA flutti erindi um sjálfbærni þar sem hún lagði út frá vefnaði og vaðmáli sem var helsti gjaldmiðilinn áður fyrr. Í máli hennar kom meðal annars fram hve margar álnir vaðmáls það kostaði fyrr á árum að kenna barni að lesa og að undirbúa ungmenni fyrir fermingu. Um þessar mundir skrifar Ragnheiður kennslubók í vefnaði. Bókina segir Ragnheiður muni geta höfðað til margra þar sem hún snerti mörg svið. Það verður eflaust gaman að kynna sér bókina þegar hún kemur út. 

Ragnheiður Júlíusdóttir þroskaþjálfi og deildarstjóri sérdeildar Giljaskóla kynnti starf deildarinnar. Af kynningu hennar og húsakynnum deildarinnar er óhætt að segja að þar sé framúrskarandi starf sem vert er að fylgjast með og læra af. 

Petrea Óskarsdóttir þverflautuleikari og kennari við Tónlistarskóla Akureyrar spilaði á flautuna sína Ástarsögu eftir Debuzzi. Lagið er eitt af hennar uppáhaldslögum og flutningur Petreu sýndi að svo er. 

Eftir að Jenný formaður hafði slökkt á kertunum og slitið fundi sátu konur aðeins lengur og spjölluðu saman. 

Næsti fundur deildarinnar verður jólafundurinn. Hann verður haldinn 3. desember n.k. og er haldinn í samstarfi við Betadeildina. 

Fundargerð í heild sinni má lesa með því að smella hér