Notalegur og innihaldsríkur fundur

Nóg var til af gómsætri súpu
Nóg var til af gómsætri súpu
Í gær, miðvikudaginn 14. janúar, var fyrsti fundur Mý deildar á árinu. Hann var bókafundur deildarinnar.  Fundurinn var haldinn í Glerárskóla á Akureyri. Undirbúningsnefndin hafði sett saman dagskrá þar sem gert var ráð fyrir bæði umræðum um bækur og bókaleiknum góða. Einnig voru liðirnir orð til umhugsunar og fréttir frá stjórn á dagskrá. 

Eftir að fundurinn hafði verið settur sagði Ingibjörg formaður deildarinnar fréttir frá stjórn. Þar kom fram að flytja þarf fundinn í febrúar til. Hann hefur verið settur á 11. febrúar. Einnig sagði Ingibjörg frá því að á vorönninni verður ekki lagt upp með eitt ákveðið þema á fundum deildarinnar. Lögð verður áhersla á að þétta hópinn og að finna staði til að halda fundina þar sem hægt verður að spjalla saman og leitast verður við að nýta konur innan hópsins til að halda erindi á fundum deildarinnar. Svo sagði Dagbjört Ásgeirsdóttir frá því að hún starfar í nefnd á vegum alþjóðasamtakanna sem verðlaunar bækur sem konur hafa skrifað. Dagbjört er fulltrúi Evrópu í nefndinni. Henni hafa borist margar bækur og sagði hún okkur frá innihaldi þeirra sem hún hefur þegar lesið. Með vorinu hittir Dagbjört svo aðrar konur í nefndinni í Houston í Texas þar sem verlaunabækurnar verða kynntar. 

Næst var borin fram dýrindis fiskisúpa ættuð frá Dalvík og á meðan konur snæddu hráköku í eftirrétt flutti Petrea Óskarsdóttir orð til umhugsunar. Hún tileinkaði orðin ömmu sinni og afa sem bjuggu í Þýskalandi stríðsáranna, bæði í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Petrea rakti sögu þeirra og hvernig það kom til að örlögin báru þau til Íslands. Frásögnin var hrífandi og er saga fjölkyldunnar ævintýraleg og á köflum ótrúleg. 

Þvínæst sögðu fundarkonur frá þeim bókum sem þær höfðu lesið undanfarið. Bókatiltlarnir voru skráðir niður og með því að smella hér er hægt að skoða listann. Á honum kemur fram að bækurnar Náðarstund og Englaryk verða til umfjöllunar á óformlegum fundi deildarinnar á þessu misseri. 

Þegar hér var komið við sögu var kominn tími til að slíta fundi og var ákveðið að bókaleikurinn biði til næsta fundar.

Það voru vel nærðar konur, bæði á sál og líkama, sem héldu svo út í veturinn að fundi loknum í gærkvöldi.