Vel heppnað vorþing

Á heimleiðinni áðu Mý og Betakonur við Litla Bæ í Skötufirði
Á heimleiðinni áðu Mý og Betakonur við Litla Bæ í Skötufirði
Vorþing landssambands DKG var að þessu sinni haldið á Ísafirði laugardaginn 10. maí. 13 konur úr Beta og Mý deild sóttu þingið en alls sóttu um 60 konur víðs vegar af landinu þingið.  Yfirskrift þingsins var Skóli á nýjum tímum,lýðræði, sköpun, tækni. Erindin sem haldin voru í Edinborgarhúsinu fjölluðu öll á einn eða annan hátt um þetta efni og öllum skólastigum voru gerð skil. Til viðbótar voru tónlistaratriði sem báru fjölbreyttu menningarlífi Ísfirðinga gott vitni. 

Dr. Svava Pétursdóttir fjallaði um uppýsingatækni í skólastarfi frá ýmsum hliðum. Fróðlegt var að heyra hvernig samfélagsmiðlar geta nýst í skólastarfi og að kynnast því hvernig miðill eins og Facebook getur verið vettvangur þar sem kennarar styðja hvern annan í starfi. Á þessari slóð eru glærur Svövu. 

Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir kennari sem báðar starfa við Grunnskólann á Ísafirði sögðu frá nemendaþingi sem haldið var við skólann. Áhugavert var að heyra hvernig staðið var að þinginu, því fylgt eftir og síðan unnið úr því. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessa verkefnis í framtíðinni. 

Albertína F. Elíasdóttir verkefnisstjóri FabLab á Ísafirði sagði frá möguleikum FabLab smiðjunnar til að skapa og hanna hluti frá upphafi til enda. Í erindinu sýndi hún einnig hluti sem hafa orðið til í smiðjunni. Ljóst er að FabLab eru engin takmörk sett. 

Síðasta erindi dagsins hélt Elsa María Thompson skólastjóri heilsuleikskólans Laufáss á Þingeyri. Hún sagði frá skólastarfinu og fjölbreyttu samstarfi hans við grunnskólann á Þingeyri og aðra leikskóla í Ísafjarðarbæ. 

Í lok dagsins var svo boðið uppá tvenns konar sögugöngur sem báðar enduðu í Safnahúsinu á Ísafirði þar sem Iota konur voru með stutta móttöku. Í lok dagsins borðuðu konur saman í Tjöruhúsinu, hlýddu á söng og sungu saman.

Mý- og Betakonur þakka bæði Iotakonum og menntamálanefnd landssambandsins fyrir fræðandi og skemmtilegt vorþing.

Myndir frá vorþinginu er hægt að skoða á vef Betadeildar