Vel heppnaður bókafundur

Í gær hélt Mý deild DKG sinn fyrsta bókafund og má með sanni segja að hann hafi verið vel heppnaður. Hann var bæði skemmtilegur og fræðandi og ljóst að með honum var settur tónninn fyrir hefðir komandi bókafunda deildarinnar.  Skipulag fundarins og stjórnun hans voru í höndum Bryndísar Björnsdóttur, Erlu Bjargar Guðmundsdóttur og Dagnýjar Birnisdóttur. Fundurinn var haldinn í Naustaskóla. 

Fundurinn hófst á lestri fundargerða og molum frá stjórn. Þar kom helst fram að fundaáætlunin hefur lítillega breyst og einnig var rætt um hvort konur sæju sér fært að mæta á vorþing landssambandsins sem haldið verður á Ísafirði 10. maí n.k. Nokkrar fundarkonur sýndu áhuga á að fara á þingið. 

Því næst tók Bryndís við fundarstjórninni og stjórnaði bókaleik. Hann fór þannig fram að fundarkonum var skipt í þriggja manna hópa sem kepptu sín á milli um að giska á bókatitla eftir teikningum liðsmanna. Af leikgleði fundarkvenna má ætla að bókaleikurinn verður hér eftir fastur liður á bókafundum deildarinnar. 

Eftir leikinn voru veitingar í anda Guðrúnar frá Lundi, upprúllaðar pönnukökur, flatbrauð með hangikjöti og heitt kakó með þeyttum rjóma. Á meðan fundarkonur gæddu sér á veitingunum ræddu konur saman um bækurnar sem þær höfðu lesið á síðustu mánuðum og vildu segja frá. Ritari deildarinnar tók saman lista yfir bækurnar sem minnst var á og verður hann birtur hér á heimsíðunni. Smelltu hér til að skoða listann. 

Jenný formaður deildarinnar sleit svo fundinum með því að slökkva á kertunum og fundarkonur héldu heim vonandi glaðar og mettar eftir góða samveru.