Skýrslur formanna Gammadeildar

Skýrsla stjórnar Gammdeildar 2018-2020

 

Skýrsla stjórnar Gammadeildar

Tímabilið 2016-2018

 

Kjörtímabil núverandi stjórnar hófst 1. júlí 2016.  Í stjórn voru kosnar Ingibjörg Einarsdóttir, María Pálmadóttir, Edda Pétursdóttir og  Helga Thorlacius.  Björg Eiríksdóttir tók að sér gjaldkerastarfið að ósk stjórnar.

Í framkvæmdaráði deildarinnar sat Kristín Bjarnadóttir, fv. formaður.

 

Stjórnin ákvað strax í upphafi að koma á skipulagi fyrir allan veturinn og helst að geta lagt það fyrir á fyrsta fundi deildarinnar að hausti.

Vetrarstarfið hófst með heimsókn til listakonunnar Steinunnar Marteinsdóttur að Hulduhólum í Mosfellsbæ og að lokinni þeirri heimsókn var keyrt yfir í Álfafosskvosina og þar var settur formlegur fundur og dagskrá vetrarins kynnt en þemað var:  Hvað vitum við um móttöku fólks af erlendu bergi og hvernig viljum við að staðið sé að þessum málaflokki?

 

Í október lögðum við leið okkar vestur í Landskotsskóla en þar ræður ríkjum okkar kona, Ingibjörg Jóhannsdóttir.  Það var þröngt setið í einni skólastofunni því Gammasystur voru 30 og við höfðum líka boðið Lambdadeildinni til fundar.  Það var mikill aldursmunur á þessum deildum, Lambdadeildin sex ára en Gammdeildin alveg að verða 40 ára.

Á fundinum fengum við góða kynningu á þróunarverkefninu Lifandi gagnasafn í íslensku sem öðru máli og þá fengum við líka kynningu á alþjóðlegri deild skólans.  Eins og ávallt nutum við góðra veitinga og gengum syngjandi út í náttmyrkrið.

 

Nóvemberfundurinn  var haldinn á heimili Eddu Pétursdóttur í Álftamýrinni.

Gestur fundarins var Þórunn Ólafsdóttir, sjálfboðaliði og formaður Akkeris.  Hún fræddi okkur um stöðu flóttafólks í heiminum og í hverju sjálfboðastarfið væri fólgið.  Hún sagðist hvergi vera hætt að leggja sitt af mörkum og lauk orðum sínum á þann veg að við ættum ekki að spyrja hvort við gætum hjálpað eða orðið að liði heldur ættum við að spyrja:

 Hvernig get ég hjálpað?

Eygló Björnsdóttir, forseti landssambandsins kom í heimsókn og ávarpaði fundinn og Björg gjaldkeri sagði skemmtilega frá því hvernig hefði gengið að skipta um prókúru á reikningi deildarinnar.  Það má með sanni segja og gott til þess að vita að það er ekki hver sem er sem getur orðið umboðsmaður félagsreikninga í landinu.

 

Desemberfundurinn var haldinn í jólahúsinu hennar Gerðar og tekið var á móti félagskonum með kampavínsglasi sem markaði hátíðleikann.

Það hefur skapast sú hefð að bjóða rithöfundi á fundinn, gjarnan til að kynna nýútkomna bók og að þessu sinni var gesturinn Bjartmar Guðlaugsson, tónlistarmaður og rithöfundur.  Það var sérlega skemmtilegt að líta yfir hópinn þegar Bjartmar gekk til stofu með sitt síða hár og mjög skeggjaður, svolítið hippalegur og maður fann spurninguna í loftinu:  „af hverju hann“, eða hver er nú þetta“. Hann kynnti bókina „Þannig týnist tíminn“ sem var rétt að koma úr prentsmiðjunni og las kaflann um hvernig var að alast upp í þorpi austur á fjörðum.  Að lestri loknum tók Bjartmar fram gítarinn og söng nokkur lög við góðar undirtektir. 

Að venju svignaði stofuborðið undan kræsingum félagskvenna.  Í lok fundar var undirbúinn janúarfundurinn en hann bar heitið „Jólabókaflóðið“.

Á þeim fundi hafði verið ákveðið að fjallað yrði um tvær nýjar bækur  Þær sem urðu fyrir valinu voru:  Villisumar eftir Guðmund Óskarsson og Hestvík eftir Gerði Kristnýju.  Var því gengið um með box til að draga um hvor bókin skyldi lesin.

Þórunn okkar Björnsdóttir settist svo við píanóið og stjórnaði jólalagasöng af sinni alkunnu snilld og við fundum fyrir nálægð  jólanna.

 

Við hittumst snemma ársins 2017 eða þann 10. janúar á heimili Ingibjargar Jónasdóttur í Stapaseli.  Árið 2017 var merkisár hjá Gammadeildinni því við áttum fertugsafmæli.  Þarna á fundinum var strax lagður grunnur að afmælishátíðinni og skipuð afmælisnefnd sem í voru Guðný Helgadóttir, Helga Halldórsdóttir og Edda Vikar Guðmundsdóttir.

Eins og ákveðið hafði verið á jólafundinum þá skiptist hópurinn í tvennt.  Þær sem höfðu dregið bókina Hestvík settust saman og  svo hinar sem lásu bókina Villisumar .  Umræður voru mjög líflegar og að loknu kaffihléi gerðu hópar stuttlega grein fyrir umræðunum.  Gerður var góður rómur að þessu nýmæli og lagt til að þetta yrði endurtekið.

Minnt var á Evrópuþing og landssambandsþing og að lokum flutti stór talkór Dýraþulu eftir Kristján Hreinsson  um mikilvægi vináttunnar.

 

Þann 8. febrúar lá leiðin suður í Setbergsskóla, eða heim til hennar Maríu eins og við segjum stundum!!  Gestur fundarins var hún Renata Emilsson Peskova frá Tékklandi en hún er formaður Móðurmáls, samtaka um tvítyngi. Fyrirlestur hennar vakti upp margar spurningar og opnaði augu okkar fyrir mikilvægi þess að einstaklingur nái valdi á virku tvítyngi.  Hennar ósk er að sjá móðurmálskennslu meira innan skólanna á skólatíma.  Um 100 kennarar eru virkir innansamtakanna og mjög mikilvægt er að geta boðið þeim upp á ráðgjöf og fræðslu.

Að loknu kaffi og umræðum gekk listi til að skrifa sig í rútuna á landssambandsþingið á Akureyri og svo sungum við lagið Einu sinni var eftir Kristján frá Djúpalæk.

 

Þann 1. mars vorum við enn mættar í Setbergsskóla og að þessu sinni var fyrirlesari kvöldsins hún Fríða Bjarney Jónsdóttir, verkefnisstjóri og ráðgjafi fjölmenningar við Skóla-og frístundasvið Reykjavíkur.  Hún lagði áherslu hvað samfélagið hefði breyst og mun halda áfram að breytast.  Fjölmenningarlegt leikskólastarf er ekki aukaverkefni í skólakerfinu heldur leið til að hugsa gagnrýnið og meðvitað og er ekki fyrir hluta barna heldur öll börn.

Eftir fyrirlesturinn var gengið um skólann og upp á kennarstofuna og notið veitinga í boði skólans.  Færðar fréttir frá landssambandinu og minnt á næsta fund sem væri í Félagsmiðstöðinni Árseli.  Að lokum sunginn bragur frá 20 ára afmæli Alfadeildar með texta Áslaugar Brynjólfsdóttur.

 

8. fundur vetrarins var haldinn í Frístundamiðstöðinni Árseli í Árbænum í Reykjavík.  Þar tók á móti okkur Bjarni Þórðarson, forstöðumaður og með honum nokkur ungmenni.  Aðalstarfið að undanförnu hefur verið að móta móttökuáætlun fyrir innflytjendur í Árbæjarhverfi og mynda móttökuteymi.  Mikil áhersla er lögð á að virkja nemendur og sótti hópur um ungmennaskipti á vegum Erasmus+  og fengu þær gleðifréttir á fundinum að þátttaka þeirra  hefði verið samþykkt. Þetta þýddi að ítalskur hópur kæmi til þeirra næsta sumar og þau færu síðan út þegar liðið á sumarið. Við fengum fréttir af stofnun nýrrar deildar á Norð-Vesturlandi sem ber nafnið Nu-deild.  Stofnfélagar væru 17 ungar konur, fullar af áhuga og tilbúnar að henda sér af stað í starfið.

 

40 ára afmælisfagnaður Gammadeildarinnar  var haldinn í skála Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar þ. 1. júní 2017.  Boðið var upp á afmælisdrykk og hafði afmælisnefndin í samráði við stjórnina undirbúið glæsilega hátíð.  Við hvern disk var lagt fagurlega útbúið bókamerki og söngvar Eyglóar Eyjólfsdóttur settir fallega upprúllaðir á borðin.  Hildur okkar Jóhannesdóttir sá um tónlistana og voru sönghefti á borðum og mikið sungið allt kvöldið.

Nýjar, verðandi Gammasystur voru sérstakir gestir kvöldsins og einnig var forseti landssambandsins Eygló Björnsdóttir gestur deildarinnar.

Formaður flutti ágrip af sögu deildarinnar og má finna þá samantekt inni á heimasíðunni.

Veittar voru viðurkenningar og stofnfélagar voru heiðraðir.  Happdrættið sló algerlega í gegn og söfnuðust 58 þúsund krónur.  Ingibjörg formaður gaf deildinni frumortan texta eftir Kristján Hreinsson, óð til Gammadeildar í tilefni af 40 ára afmælinu.  Var óðurinn lokalag afmæliskvöldsins.

 

 

Gammasystur hófu hauststarfið með heimsókn í Veröld – hús Vigdísar, miðvikudaginn 6. september 2017.  Þar tók á móti okkur Ólöf  Ingólfsdóttir og fræddi okkur um húsið, lýsti arkitektúrnum og starfseminni í húsi tungumálanna. Í sýningarsal hússins sáum við  sýningu um líf og störf Vigdísar.   Það var sterk upplifun að sjá hvernig arkitektunum hefur tekist að sameina fjölbreytt hugtök í fallega byggingu með mikilvæga starfsemi.

Að þessari heimsókn lokinni var haldið á veitingastaðinn Nauthól og þar var snæddur dýrindis kjúklingaréttur.  Sagt var frá landssambandsþinginu á Akureyri og Evrópuþinginu sem haldið var í Tallin í Eistlandi.

Kynnt var síðan dagskrá vetrarins sem bar yfirskriftina:  KENNARINN, menntun, menning, fagvitund.  Gert var ráð fyrir níu fundum yfir veturinn eins og venjulega.

 

Þann 4. október lá leiðin heim til Kristínar Bjarnadóttur og hápunktur þess fundar var inntaka nýrra félagskvenna.  Þær eru:  Bryndís Jóna Jónsdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Hanna Halldóra Leifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Renata Emilsson Peskova.  Hátíðleikinn sveif yfir fundargestum og þessar nýju félagskonur boðnar innilega velkomnar í deildina.

Þar sem þema vetrarins hófst á menntun kennara  þótti stjórninni vel við hæfi að fá Jóhönnu Einarsdóttur, okkar konu í Gammadeild og forseta Menntavísindasviðs HÍ til að segja okkur frá nýjungum og hvaða breytingar á menntuninni væru í nánd.  Ýmsar hugmyndir eru í umræðu og verður tækifæri til að fylgjast með síðar í vetur.

 

Nóvemberfundurinn var haldinn í hlíðum Breiðholts eða heima hjá Hildi Jóhannesdóttur í Vesturbergi.  Þar hlýddum við á Eddu Pétursdóttur, barnakennara og ritara stjórnarinnar flytja erindi um fjölbreytileika og mikilvægi starfstengdrar leiðsagnar og þess að hún sé veitt á faglegan hátt kennararnemum og nýliðum í kennslu.  Hún gerði líka grein fyrir mismunandi leiðsagnarkenningum og síðan var félagskonum skipt í hópa til að ræða hvernig leiðsagnarkennarar þær vildu vera ásamt því að hugsa til baka og velta fyrir sér hverjar voru þeirra áhrifaríkustu fyrirmyndir í upphafi síns kennsluferils.  Þá má geta þess að Svana gegndi mjög mikilvægu hlutverki við flutnings þessa erindis en hún stjórnaði frumstæðri flettitöflu.

Húsráðandi settist í lokin við flygilinn og félagskonur sungu nokkur lög áður en þær svifu út í náttmyrkrið.

 

Jólafundurinn var haldinn 4. desember í jólahúsinu hennar Gerðar.  Lítill leynigestur mætti einnig á fundinn en það var hún Vigdís Anna, aðeins rúmlega tveggja mánaða dóttir hennar Soffíu og fengu þær mæðgur viðeigandi bókagjöf og rós í tilefni lífsins.  Hartnær öld eða 97 ár voru á milli elstu og yngstu snótar fundarins.

Renata tók fyrir hönd samtakanna Móðurmál á móti rós og viðurkenningu upp á 100 þúsund krónur sem safnaðist í happdrættinu á afmælisfundinum okkar í vor en deildin bætti aðeins við upphæðina.

Einar Már Guðmundsson mætti og sagði frá nýju bókinni sinni Passamyndir og las valda kafla. Góður rómur var gerður að lestri Einars Más og nokkrar konur nýttu sér að festa áritað eintak af bókinni.

Undir lok fundarins voru tvær bækur kynntar sem lesa átti fyrir janúarfundinn.  Það voru bækurnar Undirferli eftir Oddnýju Ævarsdóttur og Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur.  Að þessu sinni var tölvan látin sjá um útdráttinn.  Að venju svignaði borðið af veitingum og þar birtust sýnishorn af ýmsu jólagóðgæti.

Hildur settist við píanóið og jólasöngvar voru sungnir þíðum  rómi áður en fundi var slitið og það var óhætt að segja að það logaði glatt á kertum sálarinnar þegar við kvöddum gestgjafann Gerði með rós og þakklæti fyrir notalegt kvöld og gott upphaf aðventunnar.

 

Fyrsti fundur ársins 2018 var haldinn 9. janúar í fallegum og björtum húsakynnum Ingibjargar Jónasdóttur.  Hún sagði að kliðurinn væri besti hljómurinn og bauð með þeim orðum félagskonur  velkomnar og áréttaði jafnframt að nú væri komin hefð á bókafundinn í Stapaselinu og jafnframt janúartilhlökkun sem hún vildi að yrði árviss.

Tölvustýrt val hafði séð um að afhenda félagskonum bókatitil á jólafundinum og hóparnir urðu þrír og áhugaverð umræða fór þar fram.

Í kaffihléi hélt svo umræðan áfram og hóparnir gerðu síðan grein fyrir því sem kom fram í hópvinnunni.

Helga, okkar kona í landssambandsstjórninni hvatti konur til að mæta á vorþingið á Egilsstöðum og Ingibjörg J. gerði stuttlega grein fyrir störfum nefndarkvenna í Golden gift nefndinni en hún var einmitt á leið til Austin í Texas daginn eftir.

Að lokum fluttu félagskonur ljóðið Halla eftir Stein Steinarr í kröftugum talkór.  Síðan haldið út í náttmyrkrið á köldu janúarkvöldi.

 

Á snjóþungu febrúarkvöldi, fimmtudaginn þann áttunda lá leiðin í Setbergsskóla en nú var von á gestum úr öðrum deildum.  Stjórnin hafði lagt til þá nýbreytni um áramótin að hver félagskona gæti tekið með sér tvo gesti á tvo næstu fundi í stað þess að bjóða heilli deild á fund.  Þessu var afar vel tekið og að þessu sinni voru mættir sex gestir úr fimm deildum.

Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga flutti fyrirlestur sem hún kallaði „Hvað er svona merkilegt við það...að vera kennari?“   Sjálf er Svandís menntaður kennari og starfs-og námsráðgjafi og eftir nokkur ár við ráðgjöf og nám í opinberri stjórnsýslu lá leiðin til Sambandsins.  Hún er jafnframt nýr meðlimur í Alfadeild.

Svandís sagði alla hafa áhyggjur af lítilli nýliðun í kennarstéttinni og taldi hún nauðsynlegt að allir sem vinna að skólamálum þurfi að vera samstíga í aðgerðum en líka í orðræðu.  Starfið hefur breyst og verkefnum fjölgað. Hún ræddi um ímynd kennarastarfsins og sagði að snúa yrði við blaðinu hvernig talað væri um kennarastarfið.  Taldi hún að umræða um faglega uppbyggingu ímyndar hverrar stéttar ætti upptök hjá henni sjálfri því þar sé grunnurinn lagður.  Hún lauk erindi sínu með því að segja að forsenda framfara væri öflugt menntakerfi.  Hún sagðist vera fremur bjarsýn þar sem að ríkisstjórnin boði stórsókn í menntamálum í sínum nýja stjórnarsáttmála.

Þá biðu okkar kaffiveitingar á kennarstofunni í Setbergsskóla og að loknum umræðum var sunginn Þorraþræll og haldið heim á leið á frostköldu vetrarkvöldi.

 

Þann 12. marslá leiðin suður í Hafnarfjörð í Setbergsskóla og nú fjölgaði heldur betur gestunum og voru 17 gestir mættir úr 5 mismunandi deildum. 

Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Menntavísindadeild HÍ og félagskona í Kappadeild flutti okkur fyrirlestur er bar yfirskriftina:  Kennarinn sem þáttakandi í lærdómssamfélagi.  Sérsvið hennar er stjórnun og forysta og var doktorsverkefni hennar um lærdómssamfélagið.  Hún nefndi að það væri margt sem stuðlaði að árangri nemenda.  Margir hlekkir sem saman mynduðu öfluga keðju.  Það er ekki bara kennarinn sem kann og getur, heldur margir þættir innan skólans sem þurfa að spila saman.

Líflegar umræður sköpuðust og héldu áfram yfir kaffibollum.

Minnt var á vorþingið en yfirskriftin er einmitt „sköpun – gróska- gleði.“

Sungið var kvæðið um fuglana og fundi slitið með hefðbundnum hætti og á meðan reykur kertanna þriggja liðaðist í loft upp þá fóru félagskonur að gestir þeirra að tygja sig til heimferðar.

 

Í apríl var komið að áttunda fundi vetrarins og komið að heimsókn í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.  Gammadeildin hafði einmitt fengið kynningu á þeim skóla fyrir níu árum síðan og þá í gamla húsinu en nú er skólinn kominn í nýtt og glæsilegt húnæði.  Veður var frekar leiðinlegt, rok og rigning en margt var í gangi í skólanum þetta kvöldið, m.a. vortónleikar karlakórsins Stefnis í Mosfellsbæ.

Í upphafi fundar fengum við góða gesti en það voru tveir nemendur úr Varmárskóla sem voru verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni þetta vorið en keppnin varð 20 ára í Mosfellsbæ.  Þau voru glæsilegir fulltrúar skólans og þau fengu sem þakklætisvott Delta Kappa Gamma spilin.

Auður Hrólfsdóttir, deildarstjóri tók á móti okkur og sagði okkur frá sérnámsbraut skólans sem er einstaklega vel upp byggð.

Nemendur vinna  mjög mikið í hópum og verkefnaskil eru aðallega á tölvutæku formi.  Ekki eru venjuleg próf en námsmat fer reglulega fram.

Eftir notalega kaffistund bauð Auður okkur að skoða skólann og er óhætt að segja að allur aðbúnaður er til mikillar fyrirmyndar og mjög nútímaleg hönnun.

Aðalfundur verður haldinn 24. maí í sumarhúsi Herthu og birtist fundargerð þess fundar síðar.

------------------

Þessi samantekt á starfi Gammadeildar á kjörtímabili þessarar stjórnar er ekki tæmandi en gefur samt yfirlit yfir verkefnin sem valin voru í tengslum við yfirskrift tveggja ára.  Fyrra árið reyndum við að ná yfirsýn yfir hvað væri verið að gera í málefnum innflytjenda í skólun og seinna árið að kynna okkur málefni kennarans, menntun hans, skólamenningu og fagvitund.

Hér er ekki minnst á liðinn „orð til umhugsunar“ sem er fastur liður á öllum fundum og ég hvet ykkur til að lesa fundargerðirnar á heimasíðunni því þar er t.d. þeim hluta fundanna gerð góð skil.  Fundargerðirnar eru alveg einstaklega vel skrifaðar og það var mjög ánægjulegt að lesa þær allar og upplifa fundina í baksýnisspeglinum.  Við settum okkur líka þá stefnu að fá alla fyrirlesara úr öðrum deildum samtakanna og það tókst. 

 

Stjórnin ákvað í upphafi að hafa dagskrána tilbúna strax í upphafi vetrar svo allir gætu gengið að dagsetningum og sett í forgang að mæta á fundina.  Það gekk nokkuð vel en eins og gengur þá kom það sumum félagskonum stundum á óvart að nú væri komið að fundi!!

Mæting á fundi var yfirleitt mjög góð og er meðaltalsmæting 29 konur á fund.  Að vísu datt mæting alveg niður í 18, sem er næstum ekki verjandi en svo stundum líka næstum full mæting.  Verum minnugar þess að þó svo ekki sé skyldumæting þá er virkni í deild forsenda þess að starfið blómstri.

Við í stjórninni erum mjög sælar með hvernig til hefur tekist þessi tvö ár og vonum að þið séuð það líka.  Fundirnir hafa alltaf verið skemmtilegir og erindin öll fræðandi.  Sú nýbreytni að taka með sér gesti tvisvar á vetri finnst okkur að megi endurtaka því það vakti gleði og var svolítið eins og lítið kvennaþing.

Ég vil að lokum þakka öllum félagskonum sem opnað hafa heimili sín fyrir fundi og öllum sem hafa flutt orð til umhugsunar.  Við erum stoltar af Gammasystrum sem gefa kost á sér til ábyrgðarstarfa í nefndum á vegum Delta Kappa Gamma.

Að lokum þakka ég stjórnarkonum mínum fyrir gefandi og skemmtilegt samstarf.  Ykkur öllum þakka ég hjálpsemi og vinsemd sem ávallt eru í anda einkunnarorða samtakanna.

Bestu þakkir og njótið sumarsins.

 Ingibjörg Einarsdóttir

 

Skýrsla formanns Kristínar Jónsdóttur árin 2010-2012. Flutt 22. maí 2012

Stjórn Gammadeildar síðastliðin tvö ár skipuðu Kristín Jónsdóttir formaður, Helga Halldórsdóttir varaformaður, Gerður G. Óskarsdóttir ritari, Kristjana Stefánsdóttir og Árný Elíasdóttir gjaldkeri.

Við upphaf stjórnartíðar stjórnarinnar var Gammadeild skipuð 37 konum. Í dag erum við 35 - tvær konur féllu frá haustið 2010.

Eygló Eyjólfsdóttir lést hinn 26. september og var jarðsungin 8. október. Þann sama dag barst sú sorgarfrétt að María Kjeld væri fallin frá. Báðar þessar konur höfðu verið ákveðin kjölfesta í Gammadeild og mikill missir af þeim. Báðar höfðu þær verið formenn í deildinni. Báðar höfðu verið stjórnendur á sviði menntamála, ríkar hugsjónakonur, ósérhlífnar, duglegar og yndislegar í samstarfi.

Haldin var minningarstund um Eygló á októberfundinum þar sem Gerður vinkona hennar flutti minningaorð um hana og Vilborg flutti minningarorð um Maríu á desemberfundinum.Við minningarathafnirnar var kveikt á hvítu kerti og borðið skreytt með hvítri rós ásamt hinum hefðbundnu rauðu rósum. Þetta voru fallegar og dýrmætar athafnirnar sem juku samkenndina og styrkti okkur sem hóp.

Minningargreinar voru ritaðar fyrir hönd Gammadeildar og við jarðarfarir þeirra var fána Delta Kappa Gamma stillt upp við kisturnar. Hlýnaði félagskonum um hjartarætur við þá sýn og áttu þar með táknræna hlutdeild í athöfnunum. Við minnumst þessara merku kvenna með mikilli virðingu.

Að venju voru haldnir átta fundir hvorn vetur og voru fundirnir afskaplega vel sóttir.

Skipulag fundanna var að öllu jöfnu hefðbundið. Þeir hefjast með því að kveikt er á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Eftir nafnakall, les ritari fundargerð síðasta fundar, vil ég nota tækifærið og þakka Gerði fyrir sérlega góðar fundargerðir. Að lestrinum loknum gerir formaður grein fyrir því sem efst er á baugi og tengist starfinu. Farið er með orð til umhugsunar sem félagskonur skiptast á að flytja og er oftar en ekki mjög svo umhugsunarvert. Nær alltaf mætir gestur á fundinn, flytur fyrirlestur og svarar fyrirspurnum. Við í Gammadeild eigum því einstaka láni að fagna að Þórunn Björnsdóttir er í deildinni og stýrir hún og spilar undir fjöldasöng í lok fundar. Að söngnum loknum göngum við fullar af orku og glaðar af fundum.

Á fyrsta fundi haustsins 2010 var farið á myndlistarýninguna Með viljann að vopni. Endurlit 1970-1980. Á henni voru verk 26 listakvenna frá áttunda áratugnum. Gerður leiddi hópinn um sýninguna og sagði frá listakonunum og verkum þeirra, en hún þekkti margar listakvennanna sem gaf kynningunni persónulegan blæ. Frá Kjarvalsstöðum hélt hópurinn á Nemaforumsem er menningarhús í Slippsalnum við gömlu höfnina.

Þar kynnti formaður þema næstu tveggja ára sem hefur verið 7. markmið Alþjóðasamtakanna „að fræða konur um það sem efst er á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum og stuðla með því að vaxandi skilningi og virkri þátttöku þeirra í samfélagi þjóðanna.“

Undir þessu þema hefur verið komið víða við og umræðan fókuseruð á konur.

Á októberfundinum flutti Valgerður Bjarnadóttir, þingkona erindi um ESB. Hún fjallaði um sögu þess og stöðu samningaviðræðna Íslendinga við bandalagið ogsagði að í samninganefndunum væri valinn maður í hverju rúmi. Var erindið einkar fræðandi og upplýsandi um stofnun ESB, sögu þess og helstu stofnanir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingkona og fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra kom á nóvemberfundinn og flutti erindið Staðan í samfélaginu–horft til kvenna. Hún sér fyrir sér að konur geti breytt orðræðunni í stjórnmálum ef þær taki höndum saman. Þær þurfi að byrja í eigin flokkum og umfram allt – ekki láta strákana alltaf skrifa handritið. Sagði hún að vandinn væri sá að ef unnið væri í sátt og samlyndi hefðu fjölmiðlar ekki áhuga, þeir drægju fremur fram átök og ósamlyndi.

Á jólafundinn mætti Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir rithöfundur og sagnfræðingur og fjallaði um tvær bækur sem hún gaf út fyrir jólin, Dagur kvennanna sem hún skrifaði í samvinnu við Megas og spennusöguna Mörg eru ljónsins eyru. En efni hennar -sem er afbrýðisemi, ástarþríhyrningur og heitar tilfinningar - sækir hún í Laxdælu og færir atburðarásina til nútímans.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi borgarstjóri og utanríkisráðherra mætti á janúarfundinn og fjallaði um Gildru ferðaveldisins. Hún sagði mikilvægt að þekkja karlveldið og einkum gildrur þess. Taldi að við stæðum á tímamótum í kerfi sem riði til falls. Það sé spurning hvort við ætlum að finna nýjar leiðir, eða gera allt áfram eins og áður. Konur verði að byggja á eigin styrk og flytja góð fjölskyldugildi inn í stjórnmálin, samvinnu, frið, tilfinningavit og siðvit.Hún segist sjálf hafa festst um tíma í gildru feðraveldisins en segist nú vera að sækja aftur í hugmyndaheim kvenlegra gilda eins og hún lagði upp með í kvennaframboði og kvennalista.

Ragna Árnadóttir fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði á febrúarfundinum frá reynslu sinni af því að vera kvenráðherra utan þings. Sem ung kona sagðist hún hafa trúað því að jafnrétti ríkti milli kynjanna og umræðan höfðaði ekki til hennar. Henni fannst hún beinast of mikið að því að konur væru fórnarlömb. Hún vildi ekki tilheyra hópi sem ætti bágt. En svo kom hrunið og þá fór hún fyrir alvöru að velta fyrir sér af hverju konur hefðu ekki haft meiri áhrif.Þegar Ragna var orðin ráðherra var hún oft spurð hvort það væri öðru vísi að vera kona í ríkisstjórn en karl. Svarið væri já. Þegar ríkisstjórnin var saman komin fann hún að þarna var mikið vald. Karlarnir gátu alltaf gantast í byrjun funda, talað um fótboltann og góða leikinn í gær. Þá var hún fyrir utan. Verst þótti Rögnu þegar talað var um ráðherrana tvo utan flokka og sagt var að Gylfi væri gáfaður en Ragna smart!

Steinunn Guðbjartsdóttir,formaður slitastjórnar Glitnis mætti á marsfundinn og fjallaði um það sem er að gerast hjá hinum föllnu bönkum.Sagði hún að þeir væru vinsælir vinnustaðir, þar væri ekki hörgull á vel menntuðu fólki en enginn hjá þeim sé úr efstu lögum bankanna.Aðspurð um stærsta sigurinn sagði hún að það hafi verið að „Ná stjórn á ástandinu í byrjun, geta slökkt elda og haldið málinu áfram, svo og góð samskipti við kröfuhafana.“ Stærstu vonbrigðin væru niðurstöður málaferlanna í N.Y.

Maífundurinn var haldinn í Grunnskólanum í Hveragerði í boði Epsilondeildar.Formaður deildarinnar Boletta tók á móti hópnum og bauð konur velkomnar. FyrirlesarinnGuðrún Þóranna Jónsdóttir sérkennari kynnti einkar áhugavert mastersverkefni sitt „Víst vil ég lesa“.

Á septemberfundinum 2011 fóru fram umræður í hópum um fyrirlestrana frá liðnum vetri. Dreift var tilvitnunum í fyrirlesarana. Í hópunum var annars vegar fjallað um konur og völd; hvort karlar eigi auðveldara með að komast í valdastöður en konur, kynjakvóta, fordóma og ólík vinnubrögð kynjanna. Hins vegar um stöðu kynjanna; hvort kvennasamstaða skipti máli, stöðu jafnréttis og ólík gildi kynjanna. Fjörugar umræður spunnust í hópunum og góður rómur gerður að þessum dagskrárlið.

Á fundinum bar formaður upp tillögu um að kvöldfundir hæfust kl. 19:30 í stað 20:00 með hliðsjón af þeirri þróun sem er í samfélaginu að farið sé að flýta ýmsum kvöldviðburðum. Var tillagan samþykkt.

Á októberfundinum var umræðuefnið konur og atvinnulíf. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff sagði frá Félagi kvenna í atvinnurekstri en hún er fyrrverandi formaður þess. Þær hafa beitt sér fyrir kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og vilja að annað kynið eigi að minnsta kosti 40% sæta í stjórnum. Félagið gerði samstarfssamning við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka studdu með undirskrift sinni. Núverandi ríkisstjórn tók málið upp og samkvæmt lögum á kynjakvóti í stjórnum að verða að veruleika árið 2013.

Á nóvemberfundinum fjallaði Helga Jónsdóttir, ráðuneytisstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um konur og stjórnsýslu en Helga hefur nær eingöngu starfað í stjórnsýslunni og beitt sér fyrir umbótum þar. Hún sagði stjórnsýslu hafa þróast hægt hér á landi og framfarir væru hægar. Helga var m.a. spurð um reynslu sína af því að vinna þar sem er hátt hlutfall kvenna í stjórnun. Hún sagði að þegar konur verði nægilega stór hópur, eins og var um tíma hjá Reykjavíkurborg, tali þær á eigin forsendum í stað þess að tala eins og karlaheimurinn geri. Það veiti konum sjálfstraust þegar þær eru margar saman í stjórnun.

Á desemberfundinum kynnti Sólveig Eggerz rithöfundur nýútkoma bók sína Selkonan en bókin kom út í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum undir titlinum Seal Woman og hefur fengið þar tvenn virt verðlaun. Með henni var þýðandi bókarinnar, Hólmfríður Gunnarsdóttir. Sólveig hefur dvalið mestan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum og sagðist sjálf vera selkona. Hún bæri alltaf Ísland í hjarta sér, sbr. selkonuna sem átti sjö börn á landi og sjö börn í sjó.

Á janúarfundinum var Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ heimsóttur þar sem skólameistarinn Guðbjörg Aðalbergsdóttir, bauð gesti velkomna og kynnti skólann og skólastarfið. Um helmingur nemenda er eldri en 20 ára, þar á meðal margar ungar mæður. Hópur nemenda er lesblindur og nokkrir greindir með ADHD. Lögð er áhersla á að bjóða upp á metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins, þar sem ríkir gagnkvæm virðing í samskiptum.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir fréttakona ætlaði að mæta á febrúarfundinn og fjalla um konur og fjölmiðla. Hún forfallaðist daginn áður. Formaður hafði samband við Sigríði Lillý Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og bað hana að hlaupa í skarðið.

Sigríður Lillý flutti fyrirlestur um takt tilverunnar, tímaskort, tæknina og áhrif hennar á heilsuna . Hún talaði um miklar kröfur um hraða og aukna framleiðni, samfélagsbreytingar og kvunndagstækni sem á að spara tíma en samt sé stöðugt tímaleysi. Hún tók dæmi af því hvernig fjarstýring fyrir sjónvarp hefði haft allt önnur áhrif en til stóð þegar hún var fundin upp. Hún var markaðssett fyrir fólk svo það þyrfti ekki að standa upp úr stólnum til að skipta um stöð. Fjarstýringin hafði þau áhrif að fólk fór að vafra á milli rása þegar eitthvað rólegt var í sjónvarpinu. Þetta varð svo til þess að sjónvarpsþættir urðu hraðari og hraðari. Þessi mögnun hraðans er mælanleg eins og sjá má þegar gamlar myndir eru skoðaðar. Þessi hraði hefur svo flust yfir á kvikmyndir og barnaefni.Hún tengdi tækniþróunina við aukna örorku sem eykst frá ári til árs. Andleg örorka vegna andlegra sjúkdóma hefur tekið yfirhöndina yfir stoðkerfaörorku og konur eru mun fjölmennari í þessum hópi en karlar.

Marsfundurinn var haldinn íMyndlistarskólanum í Reykjavík þar sem Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri kynnti sögu og starfsemi þessa merka skóla sem stöðugt er að stækka og þróast svo ekkert lát virðist á. Nemendur eru um 1.500 á aldrinum 3ja til 85 ára, ýmist í fullu námi, hlutanámi eða á námskeiðum. Að lokinni kynningu sinni bauð Ingibjörg okkur í kynnisferð um húsakynni skólans og sýndi þeim afrakstur starfseminnar, bæði verk fullorðinna og barna.

Að lokum ætla ég að nefna nokkra viðburði innanlands og í alþjóðlegu samstarfi þessi tvö ár þar sem Gammakonur hafa átt hlut að máli.

Landssambandsþingið var haldið á Suðurnesjum í byrjun maí 2011 undir yfirskriftinni „Fagvitund í fyrirrúmi“. Tókst það vel í alla staði. Ingibjörg Jónasdóttir sem hafði verið var forseti DKG á Íslandi árin 2009-2011 lauk störfum og nýr forseti Sigríður Ragna Sigurðardóttir, tók við. Tel ég að það hafi verið mikill styrkur fyrir deildina að hafa sterkan forseta úr okkar röðum. Vil ég fyrir hönd Gammadeildar þakka henni fyrir sitt góða starf. Á þinginu var Pálína heiðruð sérstaklega.

Vorþingið er nýbúið að halda og var það haldið í Þjóðmenningarhúsinu í lok apríl þangað sem Gammakonur fjölmenntu að vanda og voru um 1/3 þátttakenda. Yfirskrift þingsins var „Frá orðum til athafna“.

Vegur íslenskra DKG kvenna er alltaf að aukast í alþjóðlegu samstarfi og geta Gammakonur verið stoltar af sínum konum sem hafa sett mark sitt á það starf.

Nú síðast var Ingibjörg Jónasdóttir kjörin næsti formaður European Forum nefndar til næstu tveggja ára.

Evrópuþingið var haldið í Baden-Baden. Á forráðstefnu um læsi var framlag Íslands umfjöllun um stóru upplestrarkeppnina. Fimm íslenskar konur eru í alþjóðanefndum á vegum samtakanna. Úr Gammadeild eru þaðHerta sem er í Membership-nefndinni og Jóhanna Einarsdóttir í Educators Award-nefndinni.

Ein kona úr Gammadeild Anh Dao Tran hlaut árið 2010 hinn veglega styrk International Scholarship Award til doktorsnáms, að upphæð $ 6.000.

Á maífundinum er þemað konur og kvennahreyfingar. Fjallað er um Rauðsokkahreyfinguna, Kvennaframboð og Kvennalista. Lilja Ólafsdóttir mætir á fundinn og fjallar um bókina Á rauðum sokkumbaráttukonur segja frásem kom út fyrir síðustu jól. Í henni segja tólf konur frá starfi sínu með Rauðsokkahreyfingunni en meðal höfunda er Lilja og Gerður G. Óskarsdóttir í Gammadeild.Vilborg Dagbjartsdóttir á tólf ljóð í bókinni og flytur hún nokkur þeirra á fundinum.Kristín Jónsdóttir formaður í Gammadeild fjallar um bók sína Hlustaðu á þína innri rödd – Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982-1987. Segir hún frá tilurð framboðanna og að frumkvöðlarnir ákváðu að far inn í borgarstjórn og inn á þing til að breyta því innan frá.

Að síðustu vil ég þakka stjórninni fyrir afskaplega ánægjulegt samstarf þessi tvö ár sem við höfum unnið saman.

Kristín Jónsdóttir formaður Gammadeildar árin 2011-2012

Skýrsla formanns Gammadeildar á aðalfundi 31. maí 2010

 

Stjórn Gammadeildar 2008–2010
Björg Eiríksdóttir formaður
Hrefna Þórarinsdóttir varaformaður
Helga Halldórsdóttir ritari
Jóhanna Einarsdóttir meðstjórnandi

Árný Elíasdóttir gjaldkeri

Fráfarandi formaður
Ingibjörg Jónasdóttir

Endurskoðandi reikninga
Ragnhildur Þórarinsdóttir

Uppstillingarnefnd
Pálína Jónsdóttir
Ingibjörg Einarsdóttir
Svana Friðriksdóttir

Landsambandsforseti seinna árið var Ingibjörg Jónasdóttir.
Hún var stjórninni til halds og trausts ásamt ótal öðrum Gammakonum

 Haldnir voru 8 fundir bæði starfsárin, auk þess voru Gammakonur duglegar að sækja sameiginleg vor- og landsambandsþing. Einnig sóttu gammakonur Evrópuþing í Osló og munu sækja alþjóðaþingið í Bandaríkjunum í sumar. Nokkrar Gammakonur hafa einnig átt stórafmæli og boðið til veislu.

Veturinn 2008–2009

Ný stjórn Gammadeildar tók til starfa sumarið 2008. Starfsáætlunin var fyrst ákveðin fram að áramótum 2008-9. Jaðarhópar í þjóðfélaginu í víðu samhengi var yfirskriftin auk menningar.

Fyrsti fundur haustsins var á Sjóminjasafninu í Reykjavík. Okkur fannst safnið áhugavert og höfðu fæstar sótt það heim áður. Margt rifjaðist upp úr reynslubanka hópsins þegar litið var yfir hina fjölmörgu muni sem minntu á gamla tíma til sjós og lands.

 Undanfarin ár hefur vetrarstarfið hafist á safni í borginni og er það skemmtilegt. Staðreyndin er sú að margir þurfa einhverja hvatningu til að skoða áhugaverð söfn.

 Guðný Helgadóttir sagði síðan frá þingi Delta Kappa Gamma í Ameríku sumarið 2008.

 Í október heimsóttum við Lyngás, dagvistun fatlaðra barna og ungmenna og Safamýraskóla, sérskóla á grunnskólastigi fyrir nemendur með mikla fötlun. Auk Hrefnu Þórarinsdóttur Gammasystur tóku Birna Björnsdóttir forstöðukona á Lyngási og Erla Gunnarsdóttir skólastjóri Safamýrarskóla á móti hópnum. Gammasystur áttu varla orð yfir hve starfsemin er frábær, fagleg í skipulagningu og stjórnun. Lyngás er rekið af styrktarfélaginu Ás en Safamýraskóli á vegum Reykjavíkurborgar.

Á þriðji fundinum var umfjöllunarefnið, hælisleitendur og flóttamenn á Íslandi. Helga G. Halldórsdóttir Gammakona flutti erindi um aðkomu Rauða krossins. Anna Lára Steindal mannfræðingur og verkefnisstjóri RKÍ í Flóttamannaverkefninu á Akranesi greindi frá framgangi þess í máli og myndum. Orð til umhugsunar flutti flóttakona búsett hér á landi, Jyna Caicedo flóttamaður frá Kólumbíu sem kom til Íslands árið 2005. Fundurinn var mjög fróðlegur og gaman að heyra um hversu vel er staðið að þessu starfi að hálfu Rauða Krossins.

Jólafundurinn var með hefðbundnu sniði. Rithöfundurinn Álfrún Gunnlaugsdóttir kom í heimsókn og las úr nýútkominni bók sinni Rán. Orð til umhugsunar flutti Bryndís Steinþórsdóttir og fjallaði um matarsiði á jólum fyrr og nú og var það mjög skemmtilegt. Allir koma með eitthvað gott á kaffiborðið sem var glæsilegt. Að lokum sungum við jólalögin.

Í janúar var umfjöllunarefni jafnréttislög og nýjar áherslur í þeim. Árný Elíasdóttir Gammakona var með framsögu og sagði frá helstu nýjungum í lögunum. Eftir það var hópavinna þar sem lögin voru rædd frá ýmsum sjónarhornum og hverjar væru framtíðarhorfurnar fyrir jafnrétti á Íslandi, ekki bara í lögum heldur líka í reynd.

 Í lok fundar skiluðu hópar niðurstöðum og málin voru rædd. Okkur finnst gaman að hafa stundum fundi þar sem rætt er í hópum um ákveðið málefni. Það gefur fleirum tækifæri til að tjá sig og skoðanaskipti verða mikil.

 Febrúarfundurinn var í Háskólanum í Reykjavík. Svafa Grönfeldt rektor skólans ræddi við okkur um sig og starfsferil sinn í stuttu máli. Aðalinntak erindis hennar var um hvernig góður stjórnandi er hvort sem hann er karl eða kona. Orð til umhugsunar flutti Kristín Jónsdóttir kennslukona og ræddi hún um hvernig kennarar geta hjálpað nemendum sínum við að læra og vitnaði í skemmtilega ritgerð eftir nemanda sinn.

 Í mars fengum við góðan gest til okkar til að fjalla áfram um konur og stjórnun en það var áhersluatriði seinni part vetrar í deildinni.

Þóranna Jónsdóttir yfirmaður samskipsviðs Auðar Capital sagði frá sér og sínum ferli en talaði mest um fyrirtækið sem hún starfar hjá, Auður Capital, og hver er hugmyndafræðin sem þær stöllur sem eru þar í forsvari leggja til grundvallar í sínum rekstri. Sigríður Jónsdóttir var með orð til umhugsunar og fjallaði um hvort við værum að verja tímanum í grunnskólanum viturlega með nemendum okkar.

 Á vorfundurinn fórum við í fræðslu og skemmtiferð Suður með sjó. Fyrst var Kálfatjarnarkirkja skoðuð með góðri leiðsögn Símonar Kristjánssonar. Í þeirri kirkju fermdist Rannveig Löve. Síðan var haldið í Naustakot sem er lítið býli í Brunnastaðahverfi en þar var faðir undirritaðar alinn. Tvær Gammakonur auk mín þ.e. Hrefna og Rannveig Löve eiga tengsl við þetta svæði upp. Rannveigu og mér var tíðrætt um Viktoríu kennslukonu sem kenndi m.a. Rannveigu og systkinunum í Naustakoti. Viktoría var vel menntaður kennari sem öllum sem til þekktu var minnisstæð og hafði augljóslega einstaklega góð áhrif á nemendur sína.  Kvöldverður var síðan í Duushúsi í Keflavík.

Veturinn 2009–2010

 Stjórn Gammadeildar hittist í ágúst til að undirbúa vetrarstarfið. Rannsóknir í kennslu í víðu samhengi var yfirskrift vetrarins ásamt menningu. Einnig vildum við fjalla um félagið okkar Delta Kappa Gamma, möguleikana sem felast í því að vera félagi og hvernig við viljum starfa í Gammadeild í nánustu framtíð.

 Við byrjuðum að vanda á því að heimsækja safn á Reykjavíkursvæðinu í september. Fyrir valinu varð að þessu sinni Hönnunarsafn Íslands. Við fengum góða leiðsögn um safnið og höfðum gaman af m.a. að skoða húsgögn sem leiddu huga okkar til unglingsáranna t.d. svefnsófa og skatthol. Árný Elíasdóttir sagði frá Evrópuþingi Delta Kappa Gamma í Osló.

 Í október fræddumst við um starfendarannsóknir. Hafdís Ingvarsdóttir dósent við Háskóla Íslands flutti fræðandi fyrirlestur um hvernig starfendarannsóknir fara fram, nefndi dæmi og svaraði mörgum fyrirspurnum. Ekki voru allir sáttir við orðið starfendarannsóknir. Komu aðrar tillögur um nafn og enn er sú umræða í gangi.

 Kristrún Ísaksdóttir var með orð til umhugsunar og ræddi um brottfall nemenda úr framhaldsskólum og hugsanlegar úrbætur.

 Nóvemberfundurinn var helgaður félaginu okkar Delta Kappa Gamma. Sigrún Hannesdóttir kom í heimsókn og fræddi okkur um félagið. Þetta var mjög góð upprifjun og nýr fróðleikur fyrir fjóra nýja félaga í deildinni sem var boðið á þennan fund. Þessir tilvonandi félagar kynntu sig á fundinum. Að erindi og fyrirspurnum loknum var fjallað um starf deildarinnar í nánustu framtíð. Meginniðurstaðan var að haldið skyldi áfram í sama dúr og undanfarin ár og reynt að hafa ávallt eitthvað áhugavert á dagskrá en gleyma ekki að hafa gaman saman.

Á jólafundinum las Vilborg Dagbjartsdóttir upp ljóð til að móta stemminguna. Rithöfundurinn í þetta sinn var Kristín Marja Baldursdóttir. Hún las úr nýútkominni bók sinni og spjallaði um starf sitt. Hápunktur fundarins var þó inntaka nýrra félaga. Þær eru: Ingibjörg Jóhannsdóttir, Björk Einisdóttir og Hildur Skarphéðinsdóttir. Á eftir gæddu konur sér á kræsingum af sameiginlegu hlaðborði spjölluðu og sungu síðan saman jólalög og voru þá allar komnar í jólaskap.

Janúarfundurinn var aftur helgaður rannsóknum í kennslu. Í þetta sinn var það Gammakonan Jóhanna Einarsdóttir sem sagði frá starfendarannsókn sem er í gangi um tengsl leik- og grunnskóla. Gaman verður að heyra um framhaldið. Á fundinn buðum við konum í Epsilondeildinni á Suðurlandi. Ein úr þeirra hópi Erna Ingvarsdóttir var með orð til umhugsunar og fjallaði m.a. um hversu vel yngstu börnin í grunnskólanum geta komist að orði. Mjög gaman var að fá Epsilonkonur í heimsókn.

Febrúarfundurinn var sérstakur og ákaflega minnisstæður en þá var umfjöllunarefnið Rauðsokkahreyfingin frá ýmsum hliðum. Tilefni þessarar umfjöllunar var mynd um Rauðsokkur sem sýnd var í ríkissjónvarpinu. Í myndinni kom í ljós að nokkrar konur í Gammadeild voru stofnendur og virkir félagar í Rauðsokkahreyfingunni. Stjórninni fannst því upplagt að fá þær stöllur Vilborgu Dagbjartsdóttur, Kristínu Jónsdóttur og Gerði Óskarsdóttur til að fjalla um starfið í hreyfingunni á þann hátt sem hver um sig óskaði. Vilborg sagði frá tilurð og fyrstu skrefum hreyfingarinnar, Kristín frá fjölbreyttu starfi og hugmyndaflugi kvenna í hreyfingunni og Gerður velti m.a. fyrir sér hvað hún hefði lært af því að starfa með Rauðsokkum og hvernig sú reynsla hefði reynst henni notadrjúg í ýmsum störfum síðar. Óhætt er að segja að þessar konur fóru á kostum og við hinar sátum hugfangnar og hlustuðum. Jóhanna Einarsdóttir var með orð til umhugsunar og las upp ljóð um hina „fullkomnu” húsmóður.

 Í mars snérum við okkur aftur að rannsóknum og fengum Gammakonuna Sigrúnu Aðalbjarnardóttur til að segja frá.  Nefndi hún fyrirlesturinn „Hvernig tengist upplifun ungmenna á bekkjarbrag lýðræðishugmyndum þeirra ?“ Sigrún sagði einnig frá fleiri rannsóknum sem hún vinnur að.

 Stefanía Arnórsdóttir var með orð til umhugsunar og las hluta úr ferðalýsingu frá Íran þar sem fjallað var um mismunandi siði í landi hverju og hversu oft getur verið flókið að vita hvernig á að haga sér í framandi landi.

 Vorfundurinn í dag er aðalfundur auk þess sem nýr félagi María Pálmadóttir hefur verið formlega tekin inn. Þessi stjórn lýkur sínu tímabili 1. júlí næstkomandi.

 Starfið í Gammadeild er gefandi og skemmtilegt og ekki síst fróðlegt. Mjög góð mæting er á fundina sem ýmist hafa verið haldnir á þeim stofnunum sem verið er að fræðast um eða í heimahúsum. Við höfum fengið góða gesti til að fræða okkur en einnig nýtt okkur mannauð deildarinnar og frætt hver aðra.

 Hefðir hafa myndast í félaginu sem ber að virða t.d. jólafundurinn en jafnframt er mikilvægt að brydda upp á nýjum hlutum. Stjórnin ákvað umfjöllunarefnið í samræmi við stefnu alþjóðasamtakanna og í samráði við félagskonur og hafa félagskonur eins og áður kom fram rætt um og mótað starfið í nánustu framtíð.

 Stjórnin hefur haft þann hátt á að hittast mánaðarlega á fyrirframákveðnum tíma í Perlunni til að skipuleggja starfið framundan. Vel hefur reynst að ákveða þessa fundi með góðum fyrirvara.

 Fyrir tveimur árum þegar þið fóluð mér að gegna þessu mikilvæga embætti að vera formaður Gammadeildar þá varð ég mjög undrandi en jafnframt þakklát fyrir það mikla traust sem þið sýnduð mér. Mér hefur þótt það gefandi og fróðlegt að gegna þessu starfi og ekki of erfitt þar sem ég er með frábærar konur með mér í stjórn þær Hrefnu, Jóhönnu og Helgu auk Árnýjar. Þá má ekki gleyma Ingibjörgu Jónasar fráfarandi formanni og landsambandsforseta sem hefur verið óþreytandi við að leiðbeina mér og gefa góð ráð. Auk þeirra sem hér hafa verið nefndar hafa allar Gammakonur sem ég hef leitað til með einhver verkefni verið jákvæðar og hjálplegar og tekið öllum bónum mínum vel. Í stuttu máli þá eru Gammakonur alveg einstakar að mínu mati. Hlýjan og jákvæðnin eru ómetanleg. Að auki hef ég oft hugað um það undanfarið að ef við stofnuðum reynslubanka allar í deildinni þá yrði stofnfé þess banka ekki lítið því sameiginleg reynsla og þekking þessa hóps fyllir marga sekki.

 Kæru Gammasystur!
Ég þakka ykkur hjartanlega fyrir traustið, hjálpsemina, samveruna og hvatninguna á undanförnum árum.
Ég vildi að lokum að skólakór Kársness syngi fyrir ykkur fallegt lag. Þar sem ekki var hægt að fá þau í eigin persónu ætla ég að nota tæknina.

Maí 2010
Björg Eiríksdóttir
Formaður Gammadeildar

Skýrsla formanns Gammadeildar á aðalfundi Gammadeildar 22.maí 2008

Stjórn Gammadeildar 2006–2008

Ingibjörg Jónasdóttir formaður
Hrefna Þórarinsdóttir varaformaður
Björg Eiríksdóttir ritari
Vilborg Dagbjartsdóttir meðstjórnandi

Árný Elíasdóttir gjaldkeri

Fráfarnandi formaður
Kristrún Ísaksdóttir

Endurskoðandi reikninga
Ragnhildur Þórarinsdóttir

 

Afmælisnefnd

Hertha W. Jónsdóttir
Pálína Jónsdóttir
Ragnhildur Þórarinsdóttir

Uppstillingarnefnd

Hertha W. Jónsdóttir
Pálína Jónsdóttir
Svana Friðriksdóttir

Forseti samtakana fyrra árið var Ingibjörg Einarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir var í afmælisnefnd. Þær voru stjórninni einnig til halds og trausts.

Haldnir voru 8 fundir hvort ár, en auk þess voru Gammasystur duglegar að sækja sameiginlegt vor- og landssambandsþing. Einnig fjölmenntu Gammasystur á Evrópuþingið og tvær fóru á alþjóðaþingið í Bandaríkjunum.

Veturinn 2006–2007

Fyrra ár stjórnarinnar var afmælisár og litaðist starfið mikið af því. Stjórnin fékk til liðs við sig reynslumiklar konur til að aðstoða við undirbúning afmælis bæði deildar okkar og landssambandsins. Í afmælisnefndinni voru Hertha, Pálína og Ragnhildur.

Þó nokkur fundarhöld urðu vegna þessa máls og í febrúar var haldinn vinnufundur með allri deildinni þar sem við fórum yfir fundargerðir liðinna 30 ára. Upp úr þeirri vinnu unnum við efni sem við notuðum á landssambandsþinginu í Reykholti meðal annars í sýningarbás okkar.

Fyrsti fundur haustið 2006 var í september og hófst með heimsókn í Landnámsbæinn. Við færðum okkur um set í miðbænum yfir í fræðsludeild Kaupþings, vinnustað formanns. Þar var haldinn stefnumótunarfundur og fékk stjórnin gott efni til að moða úr, fjölda góðra tillagna, en ekki síður staðfestingu á að félagskonur voru yfirleitt sáttar við þann farveg sem starf deildarinnar hafði mótast í. Var þessi fundur mikill styrkur nýrri stjórn og er enn fjársjóð þar að finna fyrir nýja stjórn kýs hún að nýta sér það.

Þema vetrarins var Frumkvöðlar í grasrótinni og var fundarefni októberfundar Valdefling fólks með þroskahömlun þar sem Valdís Erlendsdóttir og Hrefna Þórarinsdóttir kynntu verkefni í Föltlunarfræði við KHÍ. Fundurinn var haldinn í Ási, vinnustofu í Brautarholtinu, sem við skoðuðum á eftir. María Kjeld flutti okkur orð til umhugsunar.

Í nóvember heimsóttum við Ingunnarskóla í Grafarholti, skóla fyrir 21.öldina.
Gerður Óskarsdóttir sagði frá undirbúningi að stofnun skólans og Guðlaug Sturlaugsdóttir skólastjóri fræddi okkur um skólastarfið og sýndi okkur skólann.

Jólafundurinn var haldinn heima hjá Björgu. Boðið var upp á jólaglögg og konur komu með jólabakstur að vanda. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona var gestur okkar. Anhdao sagði frá hátíð í sínu heimalandi sem samsvarar okkar jólum, Guðný og Sigrún Aðilbjarnar eldri lásu valin ljóð. Guðný ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum og Sigrún var með hugleiðingu um Freystein Gunnarsson. Þórunn stýrði jólasöng og við héldum heim með frið í hjarta tilbúnar í jólaundibúning.

Ingibjörg Einarsdóttir varð sextug í desember og bauð til glæsilegrar veislu á afmælisdaginn sem okkur var öllum boðið í. Fleiri konur áttu stórafmæli á tímabilinu og óskum við þeim enn og aftur alls góðs. Hertha var ein þeirra, varð 70 ára í desember og byrjaði afmælisárið, 2007, með glæsilegum fundi í janúar í boði Herthu á heimili hennar.
Þar vorum við í góðu yfirlæti og var gott að fá að spjalla saman. Ragnhildur var með orð til umhugsunar.

Febrúarfundurinn var vinnufundur fyrir afmælisþingið eins og áður sagði. Hann var í Pósthúsinu hjá Ragnhildi. Höfðu allir gaman af að gramsa í gömlum funargerðum og rifja upp hve öflugt starf deildarinnar hefur verið í 30 ár. Pálína var með orð til umhugsunar og fjallaði um stofnun deildarinnar.

Í mars var farið í heimsókn íFjölbrautaskólann við Ármúla.Elín Vilhelmsdóttir kennslustjóri lesblindumála tók á móti okkur og heillaði okkur svo yfir því öfluga starfi sem fram fer í skólanum að ákveðið var að færa þeim gjöf í tilefni afmælis Gammadeildar. Afhentum við gjöfina í nóvember 2007 og fékk það heilmikla umfjöllun.

28. mars var afmæli landssamtakanna fagnað með opnum fundi að Fríkirkjuvegi 1 með stofnun nýrrar deildar, Kappadeildar. Nokkar Gammakonur mættu að sjálfsögðu á þann fund, en Ingibjörg Einarsdóttir forseti stjórnaði fundinum.

Í apríl lá leiðin í Listsafn Íslands og fengum við leiðsögn um sýningu á verkum eftir Jóhann Briem og Jón Engilberts. Fundur var síðan haldinn á Litla ljóta andarunganum eftir kóræfingu í Dómkirkjunni hjá Þórunni. Margrét Jónsdóttir var með orð til um hugsunar.

Þó nokkur undirbúningur var fyrir afmælisþingið. Afmælisnefndin hittist nokkrum sinnum og fleiri kóræfingar voru hjá Þórunni bæði heima hjá henni og í Dómkirkjunni.

Afmælisþing landssambandsins var svo haldið í Reykholti í Borgarfirði dagana 5.-6.maí. Það var mjög vel heppnað og verður lengi í minnum haft.

 Vetrarstarfinu lauk síðan 5.júní með afmælisfundi Gammadeildar. Farið var í rútu austur í sumarbúsað til Ingibjargar Einarsdóttur með viðkomu í bústað Sirrýjar.
Eftir stuttan formlegan fund, þar sem við minntumst stofnunar deildarinnar, heiðruðum stofnendur hennar, gerðum Pálínu að heiðursfélaga. Jóhanna sagði okkur frá afmælisþinginu, myndaalbúm voru skoðuð, sungið, spjallað og setið út á verönd í sveitarsælunni. Ingibjörgu og Júlíusi er þakkað fyrir veitingar og glæsilegar móttökur. 

Vetrarstarfið 2007–20008

Á septemberfundi haustið 2007 var Þjóðminjasafnið heimsótt. Þar skoðuðum við ljósmyndasýningu um margbreytileika mannlífsins, Undrabörn, eftir bandaríska  ljósmyndarann Mary Ellen Mark. Við færðum okkur yfir götuna og Stefanía tók á móti okkur í Þjóðarbókhlöðunni og sýndi okkur vinnustað sinn eftir fyrsta fund vetrarins, þar sem Kristrún var með orð til umhugsunar.

 Yfirskrift þessa vetrar var Samfelld starfsmenntun. Við höfðum verið að fikra okkur yfir í umfjöllun um framhaldsskólann og yfir í starfsmenntunina í samfélaginu.Októberfundurinn var því haldinn í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Jóhannes Einarsson skólastjóri tók á móti okkur og fræddi okkur um skólann og þróun iðnmenntunar. Það var mjög fróðlegt að koma í skólann og voru fjörugar umræður, sem héldu áfram á A. Hansen við kertaljós, súpu og notalegheit.

Í nóvember tók Árný á móti okkur og fræddi okkurumsímenntun í þjóðfélaginu. Gaf hún okkur mjög gott yfirlit yfir hve margþætt símenntun er orðin hér á landi og alveg ótrúlegt hve þetta hefur vaxið á síðustu árum. Sigrún Aðalbjarnar yngri var með orð til umhugsunar og sagði okkur frá bók sinni, Virðing og umhyggja. Það hefði verið umfjöllun í heilan fund svo miklar umræður sköpuðust um hana, enda bókin mjög merkileg og afrakstur margra ára vinnu.

Jólafundurinn var að þessu sinni haldinn hjá Gerði. Gerður bauð upp á jóladrykk og var búin að kveikja á kertum um allt hús. Borðið varð síðan hlaðið dýrindis kræsingum frá Gammasystrum að venju. Gestur okkar var Vigdís Grímsdóttir og einnig fengum við yndislega frásögn af jólum í gamla daga frá Rannveigu Löve. Að sjálfsögðu voru jólasöngvarnir sungnir. Jólafundirnir skipa alltaf sérstakan sess í starfi deildarinnar.
Umfjöllunin um ný lagafrumvörp á öllum skólastigum fékk okkur til að breyta áætlaðri dagskrá að dálitlu leyti. Á janúarfundinum sem haldinn var á nýju heimili Sirrýjar, tókum við tvö frumvörp fyrir. Ingibjörg Einarsdóttir kynnti leikskólafrumvarpið og Gerður Óskarsdóttir grunnskólafrumvarpið, en þær höfðu báðar tekið þátt í nefndarstörfum um þau. Við skiptum okkur upp í hópa og fjölluðum um frumvörpin  og fjörugar umræður um þau héldu áfram þegar hóparnir komu saman að nýju. Við hefðum getað setið langt fram á nótt.    Jóhanna var með orð tilumhugsunar og fjallaði um nýutkomna bók sína, Lítil born með skólatöskur.

Á febrúarfundinum, sem haldinn var heima hjá Björgu, var haldið áfram að kynna lagafrumvörpin. Að þessu sinni var það frumvarp um framhaldskólann og frumvarp um kennaramenntun. Framsögu áttu Kristín Jónsdóttir og Kristín Bjarnadóttir. Svana var með orð til umhugsunar og fjallaði um kennarann og hvað er að vera ég. Mjög þörf og góð áminning um mikilvægi þessa kjarnastarfs sem unnið er í skólum landsins.

Enn og aftur hefðum við getað talað saman inn í nóttina. Það er mjög áhugavert að fjalla um þessi frumvörp á þennan hátt með konum sem allar hafa mikla innsýn í fræðslumál og miklar skoðanir. 

Marsfundurinn var haldinn íFræðslumiðstöð atvinnulífsins með Kappadeildinni.
Ingibjörg Guðmundsdóttir framkvæmdastjórikynnti starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar og hélt erindi um raunfærnimat.Verið er að vinna mjög merkilegt þróunarstarf um leiðir til að meta raunverulega þekkingu og færni einstaklinga sem þeir hafa aflað sér með lífs- og starfsreynslu. Spennandi verður að fylgjast með hvernig hægt verður að fá þessa óformlegu þekkingu og færni metna til eininga í formlegri menntun (m.a. á framhaldskólastigi). Orð til umhugsunar var í höndum Kappasystra og xxxxx

Apríl fundurinn bar yfirskriftina Konur í listum og rekstri. Við byrjuðum á því að hittast í hönnunarsetrinu Kraumi í Austurstræti. Halla Bogadóttirtók á móti okkur og sagði okkur frá hugmyndinni sem liggur að baki setrinu. Við færðuum okkur um set og heimsóttumPikknikk. Þar tók Áslaug Snorradóttur ljósmyndari á móti okkur, en hún rekur þennan stað með vinkonu sinni Önnu Elínborgu. Við nutum matar og spjölluðum saman fram eftir kvöldi í þessu sérkennilega húsnæði horfðum út á höfnina og Kristín Jóns las fyrir okkur ljóð xxxxxx, þannig að þetta var bæði næring á sál og líkama.

Í dag er aðalfundur og lýkur þessi stjórn sínu tímabili 1.júlí næstkomandi.

Á þessu tveggja ára tímabili höfum við reynt að gefa svigrúm til skoðanaskipta, umræðna, spjalls, upplifunar, að kynnast list og kjarnakonum, kynnast starfi hverrar annarrar en umfram allt að skrattast svolítið eins og hún Pálína okkar segir. Þetta koma allt fram á stefnumótunar-fundinum fyrir nær tveimur árum og vona ég að okkur hafi tekist að hlusta eftir vilja ykkar til að gera gott starf betra.

Þið eruð svo öflugar konur og það er svo spennandi að að kynnast bókum og ritgerðum sem eru í smíðum, kynnast því fjölbreytilega sem þið eruð að fást við. Rökræða um stefnur og strauma.

Mæting á fundi segir nokkuð til um hve við höfum allar gaman af að hittast, fræðast,  tala saman og rækta vinskapinn. Að okkur takist að halda fundina svona oft og alltaf vel sótta – oftar en ekki í heimahúsi, sem gerir félagskapinn enn persónulegri og notalegri.

Þessi ár eru búin að vera fljót að líða og hefur staðið upp úr hve gaman hefur verið að kynnast ykkur. Það verður að segjast, að sem formaður kemst maður í nánari snertingu við ykkur og er það líklega það sem mér er kærast úr þessu starfi. Ég þakka ykkur fyrir að hafa leyft mér að njóta þessa með ykkur og vona að þetta hafi verið gefandi fyrir ykkur líka. Fráfarandi stjórn þakka ég kæralega fyrir samstarfið. Þið hafið verið boðnar og búnar að taka að ykkur verkefni þannig að ég hef ekki geta kvartað. Árnýju þakka ég gjaldkerastarfið, en það er heilmikið starf að vera gjaldkeri og hún hefur auk þess starfað með okkur af fullum krafti. Henni er ekki síst að þakka hve mikla umfjöllun styrkur okkar til FÁ fékk í fjölmiðlum – þakka þér Árný. Fundargerðir Bjargar hafa náttúrulega verið algjör snilld og varaformaðurinn, Hrefna verið dugleg að finna til það sem er á döfinni á listasviðinu, auk þess að vera alltaf boðin og búin að rétta hjálparhönd. Vilborgu er einnig þakkað stjórnarsamstarfið, en oft hefur verið gott að fá hennar sjónarhorn. Þeim fjölmörgu konum sem hafa stutt mig og okkur með ráðum og dáðum, vil ég þakka kærlega alla hjálpina, stuðninginn og hvatninguna.

Maí 2008
Ingibjörg Jónasdóttir
Formaður Gammadeildar

 


Síðast uppfært 16. maí 2022