Blómlegt starf í Betadeild

Starfið í Betadeild hefur verið blómlegt núna eftir áramótin eins og endranær :-) Í janúar var bókafundurinn góði á sínum stað og kynntu Betakonur margar áhugaverðar bækur sem þær höfðu lesið. Listinn yfir bækurnar er kominn á vefinn.

Á febrúarfundi skiptum við okkur í fjóra hópa og hugleiddum og ræddum starf samtakanna. Bæði veltum við fyrir okkur hvað við gætum gert fyrir samtökin en einnig hvaða ávinning við hefðum sjálfar af því að vera í samtökunum. Var þetta nokkurs konar framhald á umræðum sem verið höfðu á októberfundinum um starf samtakanna. Þetta voru þarfar og áhugaverðar vangaveltur og voru allar hugmyndirnar skráðar á veggspjöld sem formanni deildarinnar var svo falið að vinna úr og kynna á fundi.

Á fundinum kom upp umræða um þann niðurskurð sem víða blasir við í skólum landsins og lýstu konur yfir áhyggjum af því að þessi niðurskurður gæti hugsanlega komið niður á faglegu starfi skólanna og hvað væri til ráða? Var stjórn Betadeildar falið að semja tilmæli til annarra deilda samtakanna um að taka þessi mál til umræðu á fundum og til stjórnar landsambandsins um að send verði áskorun frá landssambandsþinginu í vor til stjórnvalda um að niðurskurðurinn verði ekki látinn bitna á fagmennskunni. Á þennan fund heimsótti okkur góður gestur sem var  Ingibjörg Jónasdóttir landssambandsforseti.

Marsfundurinn var svo leshringsfundur en þá ræddum við þær tvær bækur sem valdar höfðu verið á janúarfundinum til frekari umfjöllunar. Þetta voru bækurnar Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur og Morgnar í Jenin eftir Susan Abulhawa. Voru Betasystur á einu máli um ágæti þessara bóka en þó má segja að Ljósa hafi haft vinninginn. Var það almennt álit að sú bók léti engann ósnortinn.