Helga Hauksdóttir heiðruð á 45 ára afmæli deildarinnar

Sú hefð hefur skapast í Betadeild að heiðra konu á starfssvæði deildarinnar fyrir framúrskarandi og markverð störf að mennta- eða menningarmálum. Sú fyrsta var heiðruð á 20. ára afmæli deildarinnar 1997 og síðan á fimm ára fresti eftir það. Með þessu vill Betadeild vekja athygli á konum sem vinna að mikilvægum störfum í þágu menningar og menntunar.

Föstudaginn 26. maí hélt Betadeild upp á 45 ára afmæli sitt (ári of seint út af "dottlu" :-)). Á þeim tímamótum var tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum. Að þessu sinni varð Helga Hauksdóttir fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum í mennta- og fræðslustörfum og unnið afar óeigingjarnt starf sem kennari, skólastjóri og kennsluráðgjafi erlendra nemenda.

Þegar Helga var skólastjóri í Oddeyrarskóla var þar móttökudeild fyrir nýbúa en árið 2012 var deildin lögð niður og nemendurnir fóru í sína heimaskóla. Helga tók þá við nýju starfi hjá Akureyrarbæ, starfi kennsluráðgjafa erlendra nemenda. Það starf mótaði hún og þróaði áfram af mikilli elju og ástríðu. Hún fór m.a. á milli grunnskóla bæjarins til að kenna nemendum og vinna með kennurunum auk þess að vera í góðu sambandi við fjölskyldur nemenda. Þörfin fyrir ráðgjöf til kennara, námsefni, stuðning við nemendur og kennara, upplýsingar til fjölskyldna um ýmis mál og fleira var mikil. Meðfram þessari vinnu bjó Helga til heimasíðuna erlendir.akmennt.is þar sem hún kom miklu efni inn sem hún taldi að gæti nýst öllum aðilum. Frá árinu 2012 hefur erlendum nemendum fjölgað svo um munar í grunnskólum Akureyrar og er brautryðjendastarf Helgu í þessum málaflokki afar mikilvægt og hefur án efa komið öllum til góða. Helga veitti viðurkenningu deildarinnar viðtöku við hátíðlega athöfn að Brúnum í Eyjafjarðarsveit föstudaginn 26. maí sl.

Önnur hefð hefur einnig skapast í deildinni, en á hverju vori styrkir Betadeild stúlkur til menntunar undir merkjum UNICEF  (sjá umfjöllun á vef deildarinnar). Þessa dagana erum við að leggja inn fjárframlag til UNICEF í fimmtánda sinn.