Sameiginlegur fundur Beta- og Zetadeildar

Það er lengi búið að vera á stefnuskrá Betadeildar að reyna að koma á vinatengslum við Zetadeildina á Austurlandi. Í fyrrahaust (2007) var það næstum orðið að veruleika þegar til stóð að halda sameiginlegan fund í  Mývatnssveit laugardaginn 6. október.
Því miður brast á þann morgun með fyrsta áhlaup vetrarins veðurfarslega séð, þannig að ákveðið var að leggja ekki í tvísýnu og hætta frekar við.
Næsta tilraun var dagsett núna laugardaginn 4. október 2008. Það var þó ekki laust við að færi um okkur á föstudeginum 3. okt því þá brast á með snjókomu og hitastig fór undir frostmark. Héldum við að nú þyrfti að fresta fundi annað árið í röð. Sem betur fer hafði þó birt til þegar vaknað var á laugardagsmorgninum og eftir samráð á milli landshluta var ákveðið að halda áætlun og leggja í hann.
Fundur var svo settur í Sel-hóteli í Mývatnssveit um 12:30 á laugardeginum og áttum við þar notalegan og skemmtilegan hádegisverðarfund saman. Að formlegum fundi loknum var farið í stutta gönguferð um Skútustaðagíga og að henni lokinni var keyrt í Fuglasafn Sigurgeirs í Ytri-Neslöndum. Við skoðuðum safnið sem er alveg frábærlega skemmtilegt og nutum þar góðra veitinga saman áður en haldið var heim klukkan að verða 16:30 eftir skemmtilegan og viðburðaríkan dag. Óhætt er að segja að við höfum allar verið sammála um að þetta yrði í fyrsta en ekki síðasta skipti sem við myndum funda saman og kom upp sú tilllaga að í framtíðinni myndum við ef til vill gera það að árlegri hefð að hafa t.d. lokafund deildanna sameiginlegan.

Myndir frá fundinum má skoða í myndasafninu