Samræðuþing – Nýi kennarinn í starfi

DKG hefur í starfi sínu og rannsóknum beint sjónum að nýjum kennurum í starfi. Nú hafa Beta- og Mýdeild á Norðurlandi tekið höndum samanog ákveðið að gera tilraun til að halda upp á alþjóðadag kennara 5. október næstkomandi með því að efna til samræðuþings á Akureyri sem fengið hefur heitið: „Nýi kennarinn í starfi“. Þetta er gert í samráði við Kennarasamband Íslands.

Á þinginu verður í erindum og umræðu greint frá rannsóknum er lúta að viðfangsefninu og eins munu kennarar sem eru að hefja sitt annað starfsár ræða reynslu sína af því hvað var skemmtilegast og hver var mesta áskorunin við að hefja kennslu, hvað þeir lærðu og hvers konar stuðningur gagnast þeim helst. Fjallað verður um reynslu kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Þingið verður haldið í SÍMEY við Þórsstíg 4 á Akureyri og hefst dagskráin kl. 15:30 (sjá  auglýsingu). Það er von norðankvenna að í tilefni dagsins fái áhugasamir kennarar svigrúm til að losa sig fyrr úr vinnu þennan dag og taka þátt í dagskránni og eiga þannig aðild að því að efla faglega umræðu um kennarastarfið og þróun þess – að vekja athygli á og halda á lofti mikilvægu og margþættu starfi kennara.

Vonandi láta DKG konur þessa frétt berast sem víðast svo allir sem staddir eru hér norðan heiða þennan dag hafi tækifæri til að mæta en aðgangur er ókeypis og öllum opinn án skráningar.