Fundargerð september 2020.

Fyrsti fundur í Z-deild DKG veturinn 2020 – 2021 var haldinn 28.09. 2020 í Seyðisfjarðarskóla. Fundurinn var í umsjá Sigríðar Herdísar Pálsdóttir, Ólafíu Stefánsdóttur og Unnar Óskarsdóttur. Sigríður Herdís forfallaðist á síðustu stundu og mætti því ekki á fundinn.

Mættar voru Steinunn Aðalsteinsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Ólafía Stefánsdóttir, Unnur Óskarsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Margret Björk Björgvinsdóttir, Harpa Höskuldsdóttir og Guðmunda Vala Jónasdóttir.

Vala setti fund og bauð konur velkomnar. Unnur kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og las markmið félagsins.

Gestur fundarins var Diljá Jónsdóttir, hún sagði frá kínverskum nálastungum sem hún hefur verið að læra og stunda. Diljá segir að það séu margar ólíkar aðferðir og skoðanir í gangi um óhefðbundnar læknisaðferðir eins og nálastungur. Spannar nám í þeim frá því að geta tekið helgarnámskeið upp í margra ára nám. Hún telur sig rétt aðeins vera komin af stað í sínu námið og er ekki enn þá farin að stinga sjálf en hún hefur verið að læra hjá Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur nálastungu- og grasalækni undanfarin 3 ár. Áhugann á aðferðinni kom til Diljár í gegnum hennar eigin veikindi og leit að einhverju sem gæti hjálpað henni til að líða betur.

Markmið með kínverskum nálastungum er að vekja upp eigið heilunarferli sjúklings svo það fari að vinna með einstaklingum, náttúruöflin eru tekin með inn í fræðin og rík áhersla er á jafnvægi þ.e. á milli jin og jang sem eru andstæðir pólar. Það þarf að trúa til að geta tekið á móti, sál og líkami tengjast órjúfanlegum böndum. Búdda boðar að ekki megi skera upp eða eiga við líkamann í lækningaskyni því urðu kínverjar að finna aðrar leiðir, þannig kom það til að þeir fóru að beita nálastungum þar sem nálum er stungið í punkta sem tengjast hinum ýmsu brautum að líkamsstöðum og líffærum. Ástæða þess að kínverskar læknisaðferðir hafi ekki náð til vesturlandi er fyrst og fremst sú að kínverjar hleyptu ekki hverjum sem er í ritin sín og alls ekki ókunnugum. Seinna lét Maó brenna mikið af þessum ritum en þær aðferðir sem verið er að nota í dag byggja mest á þeim fræðum sem tekin eru úr ritum sem sluppu úr þeirri útrýmingarherferð sem Maó stóð fyrir. Í dag hafa vestrænar og kínverskar læknisaðferðir nálgast hvor aðra og t.d. eru nálastungur notaðar til að hjálpa covid sjúklingum t.d. til að slaka á svo þeir geti náð betur að anda að sér súrefni.

Ólafía var með orð til umhugsunar. Hún sagði okkur frá Vilborgu Dagbjartsdóttur en hún var fædd á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 1930, hún var níunda í röðinni af tólf systkinum. Á þeim tíma sem hún er að alast upp geisuðu berklar og 1941 dóu þrjár systur hennar úr þessum skæða sjúkdómi. Skólinn á Vestdalseyri var lagður niður sama ár og þurfti Vilborg því að búa sig undir að ganga í skólann inn í þorpi. Um haustið gekk hún af stað í skólann, full tilhlökkunar í nýjum kjól en þegar hún kom á skólatröppurnar tók skólastjórinn á móti henni og meinaði henni inngöngu, í skólann kæmi engin frá hennar heimili þar sem farsóttin hafði tekið sinn toll. Í kjölfarið var Vilborg send á Norðfjörð til vandalausra ellefu ára gömul til þessa að  hún gæti gengið í skóla. Vilborg hefur alla tíð síðan verið bitur út í Seyðfirðinga og hefur t.d. aldrei komið og lesið úr verkum sínum í Seyðisfjarðaskóla líkt og hún gerði um allt land. Ólafía segist vera oft hugsað til Vilborgar og hennar örlaga sem barns, ekki síst upp á síðkastið þegar við tökumst á við nýja farsótt, Covid19.

Guðmunda Vala segir frá því að stjórn hafi fundað og sett upp skipulag funda fyrir veturinn. Næsti fundur sem er áætlaður í október er hugsaður sem kynningarfundur þar sem hver og ein geti boðið með sér konu með það í huga að bjóða í félagsskapinn. Stjórn mun í samvinnu við Guðrúnu og Helgu Magneu skipuleggja fundinn. Guðmunda Vala sagði einnig frá því að búið sé að fresta fundi framkvæmdanefndar DKG en líklega verði hann haldinn á netinu.

Harpa Höskuldsdóttir gjaldkeri Z deildar sagði frá því að gjöld hefðu verið greitt á tilsettum tíma og að reikningurinn standi í 22.740.-. Hún viðraði þá hugmynd að hver félagsmaður myndi leggja um 1000 kr. inn um fram félagsgjöldin á hverju ári til þess að Z deild geti átt peningasjóð. Þessi hugmynd verður rædd betur seinna.

Ólafía slökkti á kertunum þremur fundi var slitið kl.19:00.

Á eftir var farið á Skaftfell þar sem fundarmenn borðuðu saman rauðrófusúpu með fisk, brauði og grænmeti.

Fundarritari

Margret Björk Björgvinsdóttir

 


Síðast uppfært 03. nóv 2020