Fundargerð 30. apríl 2024

Fundur z deildar haldinn í Múlanum samvinnuhúsi í Neskaupstað þriðjudaginn 30. apríl kl. 18:00-20:00

Mættar: Unnur, Guðrún, Steinunn, Jórunn, Brynja, Björg, Halldóra og Rut.

Gestir: Eydís Ásbjörnsdóttir og Inga Jóna Óskarsdóttir. 

Við komum okkur fyrir í opnu rými í sameiginlegri kaffistofu fyrirtækja sem eiga aðsetur í Múlanum, steinsteypt viðbygging sem þó er sérlega hlýleg með fallegum blómum og sérlega skemmtilegum hringlóttum glugga.

Steinunn Aðalsteinsdóttir setur fund og býður gesti velkomna, og þakkar starfsfólki í Múlanum fyrir að lána okkur aðstöðu til fundarhalds í dag.

Rut kveikir á kertum, og svo tekur Steinunn við og les markmið félagsins ásamt því að fræða gestina okkar, þær Eydísi Ásbjörnsdóttur, Ingu Jónu Óskarsdóttur og Hrönn Grímsdóttur aðeins um Delta Kappa Gamma á Íslandi.

Brynja Garðarsdóttir er með orð til umhugsunar, fróðlegt erindi sem hún tengir Múlanum þar sem mörg störf og starfsheiti koma saman. Hún hafði haldið til haga í um 40 ár ummæli nemenda sinna úr 1. bekk í grunnskóla um hvað þau ætla að verða þegar þau verða stór og í erindi sínu bara hún væntingar barnanna saman við það sem þau ætla sér að verða í dag, er hún sat og hlustaði á nemendur Nesskóla segja frá því hvað þau ætla að verða. Draumur barnanna um framtíðarstörf eru fjölbreytt bæði þá og nú, en það sem hún tekur út úr samanburði er að enn í dag eru starfshugmyndir barna mjög kynjaskiptar. Og í dagsnúast hugmyndir þeirra um framtíðarstörf um að þau verði rík. 

Þá fékk Hrönn Grímsdóttir formaður fræðsluteymis Austurbrúar orðið og fræddi okkur um störf fræðsluteymis Austurbrúar. Í Múlanum starfa þrír af þeim fjórum starfsmönnum sem tilheyra fræðsluteyminu. Einn starfsmaður er á Egilsstöðum og vinnur með teyminu gegnum netið. Hrönn fór með okkur í gegnum það sem teymið vinnur mikið með sem er raunfærnimat. Siðan gengum við með henni um húsið og fengum kynningu á þeim fjölda fyrirtækja sem vinna í húsinu ásamt því að koma við í kennslustund sem var að ljúka í íslensku fyrir fólk af erlendu bergi brotið sem starfar í Neskaupstað.

Eftir að Steinunn sleit fundi færðum við okkur yfir á Hótel Capitano þar sem við keyptum okkur dýrindis kjúklingasúpu og áttum gott spjall.

Fleira ekki tekið fyrir fundinn ritaði Unnur Óskarsdóttir

 


Síðast uppfært 07. maí 2024