Skýrsla stjórnar 2006-2008.

Skýrsla stjórnar Zetadeildar fyrir starfsárin 2006-2008 flutt á aðalfundi
deildarinnar á Kaffi Nielsen á Egilsstöðum 31. maí 2008.

Við vorum sammála um það stjórnarkonur á síðasta stjórnarfundi deildarinnar nú fyrr í vikunni, að þessi tvö fyrstu starfsár í endurvakinni Zeta-deild hafa liðið hratt . Ef við rifjum þau upp saman við þetta tækifæri þá má fyrst minna á, að svo virðist sem Zetadeildin hafi lagst í fullkominn dvala árið 2002 og deildin sofið þungum Þyrnirósarsvefni í um 4ár, eða þar til Ingibjörg Einarsdóttir, þáverandi landssambandsformaður og Stefanía Arnórsdóttir, sem ekki voru sáttar viðstöðu mála, drifu starfsemina af stað á ný í maí 2006. Auk Ingibjargar og Stefaníu kom Sigrún Klara Hannesdóttir einnig að málum við endurreisn deildarinnar. Ég hef fundið fyrir einstökum hlýhug, áhuga og umhyggju fyrir starfinu í deildinni okkar af hálfu þessara þriggja kvenna sem segja má að hafi verið n.k. guðmæður deildarinnar. Áhugi þeirra og kraftur var svo smitandi að ekki var hægt annað en hrífast með, enda vakti málefnið, starfsemi Delta Kappa Gamma samtakanna í sjálfu sér áhuga flestra okkar sem þær höfðu samband við.

Það var svo á hátíðlegum fundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum, 13. maí 2006, að 15 konur gengu í deildina og kusu sér nýja stjórn, sem hefur reynt eftir mætti að halda starfseminni virkri síðan. Í stjórn hafa verið undirrituð, sem hefur gengt starfi
formanns, Ólöf Ragnarsdóttir, varaformaður, Halldóra Baldursdóttir, ritari og Halla Höskuldsdóttir, meðstjórnandi. Stjórnin fékk Ólöfu Guðmundsdóttur í lið með sér til að gegna starfi gjaldkera en það reyndist afar farsæl ákvörðun og hefur Ólöf verið virk
í starfi með stjórninni allt tímabilið. 2. september 2006 fékk formaður tækifæri til að taka þátt í framkvæmdaráðsfundi í Hafnarfirði, þar sem hún hitti fulltrúa allra deilda og lærði mikið af.

Stjórnin hélt 6 formlega stjórnarfundi á fyrsta starfsári sínu og spjallaði mikið og oft saman þess á milli. Félagsfundirnir urðu 4 og voru 2 haldnir á Reyðarfirði sem liggur miðsvæðis fyrir stærstan hóp félagskvenna, 1 á Norðfirði og einn á Eiðum í Eiðaþinghá á Héraði. Á fyrri fundinum á Reyðarfirði, sem haldinn var 4. október 2006 heimsóttum við Skólaskrifstofu Austurlands og forstöðumaður hennar, Sigurbjörn Marinósson, kynnti starfsemi skrifstofunnar fyrir okkur. 11. desember hélt deildin fund í Nesskóla á Neskaupstað. Ruth Magnúsdóttir flutti þar Orð til umhugsunar og gerði að umtalsefni sínu náttúruna og tengsl okkar við hana. Sunna Björk Guðnadóttir kynnti síðan fyrir okkur vef um útikennslu sem var lokaverkefni hennar frá KHÍ. Lára Oddsdóttir flutti að lokum hugvekju í tilefni af aðventu og jólum.
28. mars var haldinn fundur í Barnaskólanum á Eiðum og Helga Hreinsdóttir fjallaði þar í Orðum til umhugsunar um ýmislegt eftirminnilegt úr starfi Zetadeildar, en síðan var myndasýning frá starfi deildarinnar frá fyrri tíð og umræður um starfsemina.
Síðasti fundur starfsársins var síðan 21. apríl í Grunnskólanum á Reyðarfirði þar sem Ólöf Guðmundsdóttir flutti Orð til umhugsunar og gerði náms- og starfsráðgjöf að umræðuefni sínu, einkum það hversu mikilvægt það er í persónubundinni ráðgjöf að mæta fólki þar sem það er og vinna með sterkar hliðar þess. Ásta Ásgeirsdóttir sýndi okkur síðan skólann, sem nýlega hafði verið stækkaður og endurbyggður og kynnti fyrir okkur kennsluhætti sem skólinn hefur verið að þróa með áherslu á vinnu í smiðjum.

Mæting var yfirleitt nokkuð góð, frá 9 - 14 konur mættu á fundina. 2 af fundunum lentu í Delta Kappa Gamma veðrinu víðfræga. Báða fundi héldum við þó, enda er það einlægur ásetningur stjórnar að láta aldrei fundi falla niður, en annan tókst að halda í 3. tilraun og hinn í 4. tilraun og það er e.t.v. svolítil staðfesting á tilefni þess að tala um Delta Kappa Gamma veður á Austurlandi! Þetta eru þær aðstæður sem Zetadeildin býr við.

5.-6. maí 2007 tóku formaður og Steinunn Aðalsteinsdóttir þátt í aðalfundi landssambandsins í Reykholti í Borgarfirði, en þetta var sérstakur og eftirminnilegur fundur, þar sem samtökin voru að halda upp á 30 ára afmæli sitt og ýmislegt sérstakt
gert á þessu þingi af því tilefni. Ég hef ítrekað sagt frá því, að þetta þing hafi öðru fremur vakið skilning minn á hversu öflug og víðtæk samtök Delta Kappa Gamma eru, en þarna var m.a. fulltrúi alheimssamtakanna kominn frá Bandaríkjunum til að taka
þátt í þessum hátíðarfundi auk fjölmargra fullorðinna félagskvenna sem bæði deildu með okkur langri sögu úr félagsstarfinu en ekki síður úr störfum sínum í þágu menntunar og fræðslu hér á landi.

25. ágúst 2007 tók formaður aftur þátt í framkvæmdaráðsfundi í Hafnarfirði og var það gagnleg hvatning við upphaf nýs starfsárs. Á síðara starfsári fráfarandi stjórnar hafa verið haldnir 4 formlegir stjórnarfundir auk símafunda og ýmiss konar samráðs á milli eiginlegra stjórnarfunda. Í ljósi erfiðra aðstæðna við að halda fundina á settum tíma ákvað stjórnin að haga
félagsstarfinu nokkuð öðru vísi á öðru starfsári sínu og ákvað strax í upphafi að halda 3 fundi nokkuð þétt í upphafi hausts og taka síðan fundarhlé yfir erfiðasta vetrartímann, en ljúka síðan starfsárinu með 3 fundum þegar veður ættu að vera orðin
nokkuð ferðavænni.

Formaður hafði hitt fulltrúa Beta deildar á Akureyri við nokkur tilefni og í kjölfar góðs spjalls við eitt að þeim tækifærum var ákveðið að þessar deildir hittust og hefðu einn sameiginlegan fund í upphafi hausts. Fundurinn var ákveðinn á Mývatni 6. október 2007, en þrátt fyrir blíðskaparveður dagana í kringum sameiginlegan fundardag fór svo, að einmitt þennan dag stríddu veðurguðir íbúum á Norðausturlandi, svo fundurinn var blásinn af á síðustu stundu og nú býður nýrrar stjórnar að taka ákvörðun um hvort ekki eigi að gera aðra tilraun til slíks sameiginlegs fundar næsta haust.

Annars voru félagsfundirnir 2 í haust, sá fyrri 10. september á Kaffi Valný á Egilsstöðum, þar sem Steinunn Aðalsteinsdóttir hafði Orð til umhugsunar og fjallaði um starfslok og umskipti í lífi sínu og gestur fundarins var Ragnhildur Rós
Indriðadóttir, hjúkrunarfræðingur, sem sagði frá dvöl sinni í Malaví. Síðari fundur haustsins var haldinn í Grunnskólanum á Eskifirði þann 15. nóvember og þar las Halla Höskuldsdóttir ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, undir liðnum Orð til umhugsunar í
tilefni af degi íslenskrar tungu. Sóley Valdimarsdóttir, leikskólastjóri á Eskifirði flutti erindi á fundinum og sagði frá sérstöku verkefni á Eskifirði sem gerir samvinnu leikskóla og grunnskóla að viðfangsefni og hefur að markmiði um að brúa bilið milli
skólastiganna.

Að þessum fundi loknum fór deildin í vetrarveðurshvíld og næsti fundur var ekki haldinn fyrr en 31. mars 2008 og var hann haldinn á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Helga Magnúsdóttir hafði Orð til umhugsunar og gerði sköpunarsögu Maora frá Nýja
Sjálandi að umfjöllunarefni sínu. Jarþrúður Ólafsdóttir sagði síðan frá framkvæmd Olweusarverkefnisins gegn einelti í skólum á Austurlandi. Næsti fundur var haldinn 6. maí á Reyðarfirði á kaffihúsinu Hjá Marleen . Helga Guðmundsdóttir hafði Orð til
umhugsunar og ræddi félagsþátttöku og félagslega ábyrgð og velti sérstaklega fyrir sér þátttöku og virkni félagskvenna í Zeta deild fyrr og síðar. Helga Steinsson fjallaði síða um verkefni hjá Fjölmenningarsetri og nýtt starf sem hún er tekin við sem
verkefnastjóri þar.

Þátttaka félagskvenna á fundum vetrarins hefur verið frá 8-13 konur. Síðast fundur á þessu starfstímabili er síðan í dag , 31. maí og er haldinn á Kaffi Nielsen á Egilsstöðum. Með þessum fundi lýkur núverandi stjórn sínu starfstímabili og felur nýjum konum forystu í deildinni með bestu óskum um að starfið megi vaxa og dafna á komandi árum.


Fyrir hönd stjórnarinnar
Helga Guðmundsdóttir, formaður.


Síðast uppfært 22. maí 2018