Fundargerð 22. maí 2019.

Vorfundur Z-deildar DKG veturinn 2018 -2019.

Haldinn 22. maí 2019 í Seyðisfjarðaskóla.

Fundurinn var í umsjá Guðrúnar Ásgeirsdóttur og Margretar Bjarkar Björgvinsdóttur.

Mættar voru: Brynja Garðarsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Helga Steinsson, Margret Björk Björgvinsdóttir, Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, Ruth Magnúsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir og Unnur Óskarsdóttir. Gestur á fundinum var Katrín Reynisdóttir.

Guðrún setti fundinn og bauð konur velkomnar. Halldóra kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og las markmið félagsins.

Margret Björk las fundargerð síðasta fundar og Guðrún bauð upp á umræður um fundargerðina. Helga Steinsson lýsti ánægju sinni með að það stæði til að setja upp verklagsreglur fyrir Z-deil en vildi minna á að gott væri líka að eiga verklagsreglur fyrir gjaldkerann.

Guðrún greindi frá því að Guðmunda Vala Jónasdóttir hefði tekið sæti Mörtu Hermannsdóttur í stjórninni, en hún hafði áður óskað eftir því að ganga út úr félagsskapnum af persónulegum ástæðum.

Guðrún sagði frá vorfundi DKG sem haldin var í Reykjavík 4. maí, umræða um ráðstefnuna í sumar tóku mikið pláss á fundinum. Helstu skilaboð af fundinum til okkar eru að nú ætti að fara að rukka félagsgjöld í júní og munum við því fá í heimabankann okkar 10.000.- rukkun núna í júní.

Rætt var um nælur fyrrverandi formanna DKG og núverandi formanna, en í dag eru þeir með eins nælu. Til er næla fyrir formann og svo aðrar nælur fyrir fyrrverandi formenn. Rætt um að bara formaður hverju sinni ætti að vera með formannsnæluna sem gengi þá á milli og félagið ætti. Að formannsetu lokinni ætti fráfarandi formaður að kaupa sér nælu fyrrverandi formanns.

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir tók á vorfundinum í Reykjavík 4. maí, við sem forseti landssambandsins af Jónu Benediktsdóttur. Guðrún sagði frá því að óskað hefur verið eftir því að hver og ein deild myndi útvega happdrættisvinning fyrir ráðstefnuna í sumar, helst eitthvað handgert. Steinunn bauðst til að útvega eitthvað frá Z-deild og þakkaði Guðrún henni fyrir það.

Guðrún minnti á Alþjóðaráðstefnu DKG sem haldin verður í Reykjavík 25.-27. júlí 2019. Hvatti hún konur úr Z-deild að taka þátt um benti á að ráðstefna sem þessi geti fallið undir sí- og endurmenntun og því hægt að fá styrk úr sjóðum t.d. hjá KÍ. Dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíður DKG https://www.dkg.is/is/evropuradstefnan-2019

Helga Steinsson sagði frá setu sinni í Evrópuráði DKG, það standi t.d. til boða að fara í skiptivinnu á milli landa. Hjá DKG eru í boði ýmsir styrkir sem við ættum að vera duglegar að nýta okkur, t.d. námsstyrkir.

Margret Björk Björgvinsdóttir var með orð til umhugsunar. Hún sagði frá grein sem hún hafði lesið eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur, Ákall og Áskoranir, vegsemd og virðing í skólastarfi en greinin birtist á Netlu veftímariti MVHÍ 31. desember 2015. Í greininni fjallar Sigrún um þá þrjá þætti sem eru henni hugleiknir þegar hún lítur til kennarar og fagleg hlutverk þeirra í samtíð og framtíð. En þeir þættir eru að efla borgaravitund ungs fólks á öllum skólastigum, mikilvægi þess að hlú að starfsþroska kennara og að efla sjálfsvirðingu þeirra. Fór Margret Björk lauslega yfir einn þessara þátta eða sem snýr að mikilvægi þess að efla borgaravitnund ungs fólks. Margret Björk mælti með lestur þessara greinar sem henni þótti áhugaverð.

Guðrún bauð upp á umræður um málefni greinarinnar og tóku fundamenn til máls og ræddu innihald hennar. Ræddu t.d. hvort og hvernig skólar væru að vinna að því að efla borgaravitund ungs fólks. 

Inntaka nýrra félaga, Ólafía Þ. Stefánsdóttir og Unnur Óskarsdóttir voru teknar formlega inn í Z-deildina. Guðrún ásamt Margreti Björk og Helgu Steinsson sáu um athöfnina sem var framkvæmd samkvæmt hefð, formföst og hátíðleg.

Margret Björk slökkti á kertunum þremur og  Guðrún sleit fundi kl. 19:00.

Að fundi loknum fóru þær Ólafía og Unnur með fundarmenn í skoðunarferð um Seyðisfjarðaskóla. Síðan var gengið út á Sólveigartorg þar sem Unnur leiddi hópin í stutta yoga-hugleiðslu að því búnu var gengið niður á Norð-Austur þar sem fundamenn borðuðu saman fiskisúpu og fengu kaffi og köku í eftirrétt.

Margret Björk Björgvinsdóttir.


Síðast uppfært 02. jún 2019