Fundargerð 22. nóv. 2018.

Annar fundur í Z-deild DKG veturinn 2018 – 2019 var haldinn 22. nóvember 2018 í Tehúsinu Hostel Egilsstöðum. Fundurinn var í umsjá Hörpu Höskuldsdóttur og Guðmundu Völu Jónasdóttur, Hrefna Egilsdóttir vann einnig að undirbúningi fundarins en forfallaðist á fundinn vegna veikinda.

Mættar voru Ruth Magnúsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Brynja Garðarsdóttir, Björg Þorvaldsdóttir, Ólafía Stefánsdóttir, Unnur Óskarsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir, Petra Vignisdóttir, Harpa Höskuldsdóttir og Guðmunda Vala Jónasdóttir.

Við byrjuðum á heimsókn í Hús Handanna þar sem Lára Vilbergsdóttir tók á móti okkur og kynnti fyrir okkur starfsemina en Hús Handanna er sérverslun og gallerí þar sem megináhersla er á að kynna og efla hvers kyns framleiðslu, hönnun, handíðir og listsköpun á Austurlandi. Þar er boðið upp á margvíslegar vörur og hönnun frá íslensku handverks- og listafólki. Að heimsókninni lokinni var haldið í Tehúsið þar sem hefðbundin fundarstörf tóku við.

Harpa setti fund og bauð konur velkomnar . Vala kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og las markmið félagsins.

Gestur fundarins var Anna María Arnfinnsdóttir námsráðgjafi við Egilsstaðaskóla, hún sagði okkur frá jákvæðri sálfræði og hvernig hún hefur nýst henni í starfi en Anna María lauk diplomanámi í jákvæðri sálfræði vorið 2018. Jákvæð sálfræði er fræðigrein sem fæst við vísindalega athugun á því hvað gerir lífið þess virði að lifa því. Hún snýst um hið heilbrigða, styrkleika fólks, lífsgildi þess og hamingju, en allt eru þetta þættir sem leggja grunn að vellíðan og heilsu fólks. Núvitund er leiðin að lífshamingjunni, við erum í daglegu amstri of mikið að multitaska, erum að gera eitthvað en hugurinn er annars staðar. Hún hvetur okkur til að skoða fræðsluefni hjá Núvitundarsetrinu á síðunni nuvitundarsetrid.is en þar sé margt að finna sem geti verið að nýtast okkur í lífi og starfi. Anna María talar um mikilvægi öndunar, við öndum inn og út allan daginn en erum sjaldnast að staldra við og íhuga hvernig við gerum það. Áhrif öndunar á slökun er mikil og talar Anna María um djúpöndun sem akkeri sálarinnar. Hún segir okkur frá nokkrum leiðum til að iðka núvitund; að gefa sér tíma til að þakka fyrir t.d. matinn sem við erum að borða, skrá í dagbók hvað við erum þakklát fyrir, hvernig við sýnum hjálpsemi og hvað við höfum afrekað. Anna María segir okkur frá að í Egilsstaðaskóla eru þau að þróa kennslustundir/tíma þar sem iðkuð er hugleiðsla og slökun, þessi nálgun byggir töluvert á aðferðafræði Hugarfrelsis en Anna María er einnig kennari hjá þeim. Að lokum talaði Anna María um mikilvægi þess að búa yfir þeim eiginleika að geta slakað, en slökun sé góð leið til að auka vellíða og lífsgæði einstaklinga.

Borin var fram dýrindis hariri súpa og brauð og í eftirrétt var hjónabandssæla og kaffi/te. Á meðan við borðuðum sagði Halldór Warren eigandi staðarins okkur frá sögu hússins sem áður var trésmíðaverkstæði Kaupfélags Héraðsbúa og hefur töluverða sögu að segja. Tehúsið hostel leggur áherslu á umhverfismál og sanngjörn viðskipti en gildi staðarsins eru gleði, sjálfbærni og heiðarleiki. Í veitingum er horft til hollustu og hráefnis úr heimabyggð.

Ruth var með orð til umhugsunar en hún sagði okkur frá bók sem hún hafði lesið og heitir Friðþæging eftir Ian McEwan en hún gengur út á að unglingur ásakar aðila og heldur því til streitu með afdrifaríkum afleiðingum því ásökunin var ekki réttmæt. Þessi saga fékk Ruth til að hugsa um mikilvægi þess að vera gagnrýnin, ígrundandi og hafa þann eiginleika að geta bakkað með eitthvað ef maður sér að maður hefur eitthvað villst af leið. Eins vitnaði hún til greinar eftir Gunnar Hersvein þar sem hann m.a. var að tala um andlega leti Íslendinga að það þætti ekki smart að vera of gagnrýninn og ekki ígrunda hluti of mikið sem væri okkur til vansa.

Harpa ræddi um fjármál Z-deildar sem mættu standa betur, tillaga um að hver félagsmaður greiði 2.000 króna eingreiðslu til deildarinnar, allir samþykkir því. Sedur verður út póstur með bankaupplýsingum þannig að félagsmenn geti lagt inn á reikning deildarinnar.

Vala lagði fram tillögu um gest á næsta fundi Þórhöllu Þráinsdóttur skólastjóra Fellaskóla í Fellabæ, samþykkt samhljóða.

Harpa slökkti á kertunum þremur og sleit fundi klukkan 19.

Guðmunda Vala Jónasdóttir ritaði fundargerð


Síðast uppfært 02. jún 2019