Fundur í Zetadeild 15. október 2013

Fundur haldinn á Þorgrímsstöðum, Silfurbergi, 15. okt. 2013.

Mættar eru:
Anna Margrét, Björg, Guðrún Ármannsdóttir, Halldóra, Harpa, Hildur, Hrefna, Jórunn, Kristín, Sigríður Herdís, Steinunn og Guðrún Ásgeirsdóttir (nýr meðlimur).

Dagskrá:
Jón B. Stefánsson, eigandi jarðarinnar Þorgrímsstaðar, tók á móti okkur og sagði okkur frá staðnum en á bænum er hótel sem heitir Silfurberg og er það staðsett miðsvæðis á Austurlandi í botni Breiðdals við þjóðveg 1 í 53 km fjarlægð frá Egilsstöðum og 30 km frá Breiðdalsvík. Jón, ásamt konu sinni Guðrúnu Sveinsdóttur, hafa byggt upp hótelið á afar smekklegan hátt en fyrri eigendur höfðu haldið margvíslegum gömlum nytjahlutum til haga og varðveitt notað efni sem kynni að verða nýtilegt síðar. Þau Guðrún og Jón hafa verið samtaka um að nýta þetta gamla efni og þessa nytjahluti eins og kostur er í bland við nýja hönnun og listaverk, en sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Jón sýndi okkur hótelið og má með sanni segja að hér er um einstakan gististað að ræða og sem vert er að heimsækja.
Fundurinn var haldinn í matsal hótelsins en Jón þjónaði hópnum og bauð upp á dásamlega fiskisúpu með brauði og jarðaberjaköku á eftir.

Eftir matinn setti Steinunn fundinn.
Guðrún Ármannsdóttir var með orð til umhugsunar. Hún talaði um mikilvægi þess að hafa jákvæð gildi að leiðarljósi. Það er afar mikilvægt að uppfræða börnin um það jákvæða og að uppræta rotna eplið í eplakassanum. Það er gott að nýta sér „Uppeldi til ábyrgðar“ stefnuna og þá staðreynd að það sé í lagi að gera mistök. Jafnframt er mjög mikilvægt að geta samgleðst samferðafólki sínu, vera glaður því gleðin er drifkraftur.
Ný félagskona var vígð í hópinn, Guðrún Ásgeirsdóttir, kennari í Nesskóla.
Steinunn sagði frá DKG samtökunum og því sem er efst á baugi. Hún sagði frá því að Sigríður Herdís væri í menntanefnd samtakanna sem sér um að skipuleggja vorfund. Að lokum sagði hún frá facebook síðu samtakanna.

Fleira var ekki fært til bókar.

Hildur Magnúsdóttir


Síðast uppfært 03. okt 2016