Fundargerð október 2021.

Fundur í Z-deild DKG - kynningarfundur

12. október 2021 kl 17:00. Haldinn á Cafe Sumarlínu Fáskrúðsfirði

Mættar voru: Sigríður Herdís Pálsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Helga Magnea Steinsson, Helga Guðmundsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir og Guðmunda Vala Jónasdóttir. Gestir voru; Marta Wium Hermannsdóttir leikskólafulltrúi Múlaþingi, Ásta Eggertsdóttir leikskólastjóri í Kærabæ Fáskrúðsfirði og Guðrún Sigurðardóttir leikskólastjóri Bjarkartúns Djúpavogi.

Fundurinn var í umsjón: Guðrúnar Ásgeirsdóttur, Helgu Guðmundsdóttur og Helgu Magneu Steinsson

Helga Guðmundsdóttir setur fund og býður konur velkomnar og þá sérstaklega gesti fundarins. Hún kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og las upp markmið DKG.

Guðrún Ásgeirsdóttir las upp fundargerð síðasta fundar.

Guðrún Ásgeirsdóttir var með orð til umhugsunar og ræddi um Menntafléttuna  sem samanstendur af námskeiðum sem byggja á hugmyndafræði leiðtoganáms og þróun lærdómssamfélaga. Þar er horft til rannsókna varðandi starfsþróun kennara og hvernig hún getur sem best stutt við kennara í starfi. Mörg námskeið eru í boði og sagði Guðrún frá námskeiði sem hún situr „Málið okkar allra – ný sýn í málfræðikennslu“ en hvert námskeið nær yfir allt skólaárið og er í 4 til 6 lotum. Þátttakendur verða leiðtogar í sínum skóla og vinna með viðfangsefni námskeiðanna í eigin skóla með samkennurum eða öðrum allt eftir umfangi verkefnis. Í gegnum námskeiðið fá leiðtogar stuðning í verkefninu og horft er til þess að hægt sé að flétta þá vinnu inn í dagleg störf leiðtogans og stuðla þannig að frekari þróun lærdómssamfélagsins í skólanum.  Nokkur umræða skapaðist þar sem m.a. var rætt um mikilvægi starfsþróunar og aðgengi landsbyggðarinnar að henni en menntafléttan fer fram með rafrænum hætti og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Fundarkonur kynna sig; farinn var hringur um fundarborðið þar sem konur kynntu sig og sögðu frá því sem þær starfa við eða hafa starfað við.

Helga Magnea Steinsson hélt afar greinargóða kynningu á DKG í máli og glærum.

Á eftir kynningunni borðuðum við saman en hver og ein pantaði sér af matseðli staðarins í upphafi fundar sem síðan var borið fram í lok fundarins. Að vanda sköpuðust skemmtilegar umræður yfir matnum eins og gjarnan gerist í góðra vina hópi.

Helga Guðmundsdóttir þakkaði konum fyrir góðan fund og lauk honum með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Fundargerð ritaði Guðmunda Vala Jónasdóttir

 

 


Síðast uppfært 16. okt 2021