Aðalfundur 19. maí 2022

Fundargerð 19. maí 2022

Aðalfundur Z-deildar DKG

Haldinn 19. maí 2020 í Asparhúsinu á Vallanesi

Um skipulag fundar sáu þær: Unnur Óskarsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir og Guðmunda Vala Jónasdóttir.

Mættar: Guðrún Ásgeirsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Brynja Garðarsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Hrefna Egilsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, Ruth Magnúsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Guðmunda Vala Jónasdóttir og Unnur Óskarsdóttir. Gestur Marta Hermannsdóttir leikskólafulltrúi í Múlaþingi.

Guðmunda Vala Jónasdóttir setti fundinn og bauð fundargesti velkoma. Hún kynnti fundarstjóra; Guðrúnu Ásgeirsdóttur sem tók við stjórn fundarins.

Unnur Óskarsdóttir kveikti á kertum vináttu, hjálpsemi og trúmennsku.

Jórunn Sigurbjörnsdóttir las markmið DKG.

Guðmunda Vala Jónasdóttir las fundargerð síðasta fundar.

Unnur Óskarsdóttir var með orð til umhugsunar en þar fjallaði hún um FOMO (fear of missing out) eða ótti við að missa af. Hún talaði um að þetta væri eitthvað sem við hefðum eflaust allar upplifað en börn í dag eru að upplifa þennan ótta vegna þeirrar sítengingar sem þau hafa í gagnum snjalltækin langt umfram það sem við gerðum á okkar tíma, þau eru sífellt að sjá allt það frábæra og skemmtilega sem vinirnir eru að gera og upplifa að þau séu að missa af einhverju. Unnur sagði okkur einnig frá rannsókn sem gerð var innan viðskiptalífsins sem leiddi í ljós að fólk upplifði mesta vanlíðan ef því fannst það væri að missa af einhverju. Internetið, snjallvæðingin og allt það sem börn og ungmenni hafa aðgengi að í gegnum t.d. símana sína er margfalt meira í dag en áður var en töluverður munur er á milli stráka og stelpna og hvernig þau eru að nýta tölvur og snjalltækin sín, strákarnir eru meira í leikjum og samskiptum á meðan stelpurnar eru að skoða hvað vinkonurnar eru að gera, þetta er að valda því að börn og ungmenni og þá sérstaklega stelpur upplifa að þær séu útúr, að þær tilheyri ekki samfélaginu, sýna ákveðna félagsfælni og kvíða og þó þau séu ekki endilega að sækjast í að fara og taka þátt í því sem er að gerast þá upplifa þau þetta sterkt engu að síður. FOMO hefur mikið verið skoðað erlendis en ekki var mikið um þetta að finna hér á landi en Unnur telur mikilvægt að við séum vel að okkur varðandi þetta og aðstoðum börnin í þessum aðstæðum t.d. með því að leiðbeina þeim við að færa fókusinn þeirra m.a. með því að skoða gagnrýnið á netinu myndir sem eru birtar og kenna þeim að greina hvaða myndir hafa verið mikið unnar og eru langt frá raunveruleikanum. Hún sagði okkur frá sænskun sálfræðingi sem tók mynd af sér og potoshop-aði hana og setti síðan raunverulegu myndina með þannig að einstaklingar væru að sjá hvað væri raunverulegt. Eins talaði Unnur um að það sé mikilvægt að við ræðum við börnin um að þær myndir sem við erum að setja á netið eru alltaf flottar og skemmtilegar myndir sem sýna góðu stundinar, við erum ekki mikið að setja inn myndir frá erfiðu dögunum þegar allt er í drasli og ekkert gengur upp það eru bara valdar glansmyndirnar. Töluverðar umræður urðu þar sem m.a. kom fram að við fullorðna fólkið erum oft að skoða og ræða um hvernig aðrir eru að hafa það og fylgjum oft ákveðnum áhrifavöldum sem við erum gjarnan að bera okkur saman við og viljum stundum gleyma að það sem verið er að sýna eru yfirleitt glamúrmyndirnar úr lífi fólks sem eru ekki að segja allt og ekki til vitnis um hið raunverulega líf einstaklinga.

Guðmunda Vala Jónasdóttir flutti skýrslu stjórnar. Í stjórn þetta tímabil sátu Guðmunda Vala Jónasdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir og  Margret Björk Björgvinsdóttir en s.l. haust kom Unnur Óskars inn í stjórnina því við töldum nauðsynlegt að fá eina inn í stað Margretar Bjarkar sem flutti af svæðinu, en þar sem við höfum ekki náð að halda fundina okkar í vetur samkvæmt skipulagi hefur það hvorki verið lagt fyrir fund né færa til bókar hjá deildinni. Stjórn hefur haldið fimm formlega fundi sem hafa verið færðir til bókar. Tímabilið hefur einkennst af heimsfaraldri covid með öllum þeim takmörkunum og samkomubönnum sem honum fylgdu auk þess sem faraldurinn herjaði seinna á okkur hér á Austurlandinu og var seinna ár tímabilsins okkur nokkuð strembið. Frá hausti 2020 með fundinum í dag hafa verið haldnir sjö fundir hjá deildinni og tveir af þeim í gegnum teams. Á fyrra árinu voru sex fundir áætlaðir og náðist að halda fjóra af þeim. Á seinna árinu voru fimm fundir áætlaðir og náðist að halda tvo af þeim. Stjórnin vonar að næsta starfsár verði með hefðbundnum hætti þ.e. með fundum í raunheimum og hvetur konur til að vera virkar að mæta og taka þátt í starfi deildarinnar auk þess að kynna starfsemina fyrir öðrum konum sem gætu komið sem gestir á fund til okkar og hugsanlega gengið í félagsskapinn. Formaður deildarinnar hefur setið einn fund hjá framkvæmdaráði DKG sem var rafrænn en gat því miður ekki mætt á vorráðstefnuna sem var haldinn 7. maí sl. Athygli er vakin á því að á dkg.is eru aðgengilegar upptökur af erindum frá vorráðstefnu 2022 auk aðalerindis vorráðstefnunnar 2020 og eru konur hvattar til að nýta sér þetta en einnig er töluvert af áhugaverðum upplýsingum fyrir félagskonur á þessari síðu, kynningar á styrkjum, fréttabréf, handbækur o.fl. Í haust var haldinn kynningarfundur þar sem þrír gestir mættu sem teknar verða inn í félagið á nýju starfsári. Það er afar mikilvægt fyrir deildina að við náum að fjölga aðeins í okkar röðum þyrftum að ná að vera 20+ en við erum 16 í dag. Stjórn þakkar samstarfið á þessu tímabili en Guðmunda Vala lætur af störfum sem formaður á þessum fundi.

Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, gjaldkeri Z-deildar, fór yfir fjárhag deildarinnar. Sextán konur greiddu félagsgjöld í fyrra auk þúsund króna fyrir deildina til að standa straum af kostnaði við kaup á rósum, kertum o.þ.h. Deildin á eftir á reikningi 37.355 kr og því ákveðið að ekki verði greitt viðbótargjald fyrir komandi félagsár. Ólafía hvetur konur til að greiða félagsgjöldin inn á reikning deildarinnar sem fyrst. Ólafía lætur af störfum sem gjaldkeri og við hennar starfi tekur Helga Guðmundsdóttir.

Uppstillinganefnd sem í sátu Sigríður Herdís Pálsdóttir og Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, kynntu tillögu að Unni Óskarsdóttur og Jórunni Sigurbjörnsdóttur í stjórn fyrir næsta tímabil, 2022-2024 en óskuðu eftir framboði í eitt laust sæti í stjórn og fór svo að Ólafía Þórunn gaf kost á sér. Ekki komu fleiri framboð fram og því tillaga uppstillingarnefndar samþykkt með lófaklappi.

Önnur mál

Sigríður Herdís hvatti konur til að vera virkar, hún sagði frá verkefnum sem hún hefur tekið þátt í og skipulagt hjá DKG svo sem vorfundum og landsþingum sem hún segir að hafi gefið sér mikið.

Guðmunda Vala þakkaði samstarfið á liðnu kjörtímabili og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar.

Guðmunda Vala slökkti á kertunum og sleit fundi kl 18:30

Fundargerð ritaði

Guðmunda Vala Jónasdóttir


Síðast uppfært 19. okt 2022