Skýrsla stjórnar 2010-2012.

Skýrsla formanns 2010-2012 Delta Kappa Gamma -Zetadeild.


Í stjórn deildarinnar 2010 – 2012 voru skipaðar Hrefna Egilsdóttir formaður, Björg Þorvaldsdóttir varaformaður, Guðlaug Árnadóttir ritari og Anna Margrét Gjaldkeri.

Starf Zetadeildar hefur verið með hefðbundnum hætti. Á stjórnarfundi 15. September 2010 var ákveðið að aðalþema vetrarins yrði í samræmi við þema Landssambandsins 2010-2011 Fagvitund í fyrirrúmi og einnig að stuðla að því að fundir deildarinnar yrðu vettvangur deildarkvenna til að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Umsjón með fundum var með sama formi og áður, að félagskonur kæmu að skipulagningu funda í sinni heimabyggð.

Fyrsti fundur var í október í fyrrum sveitarskóla að Staðarborg í Breiðdalsvík. Anna Margrét Birgisdóttir hafði umsjón með fundinum og Hrefna Egilsdóttir formaður deildarinnar flutti erindi um fagvitund þar sem fagmennska og forysta kennara í skólastarfi var ígrunduð ásamt því að ávinningurinn af forystu kennara almennt var ræddur í stærra samhengi. Anna Margrét Birgisdóttir kynnti einnig sögu Staðarborgar. Húsið á sér langa og merka sögu en skólahald hófst í janúar 1958. Þá hafði verið ákveðið að byggja skólann upp í sveit frekar en niður við sjóinn enda var þorpið rétt að byggjast þar upp. Húsið hefur nú skipt um hlutverk og er í dag vinalegt hótel.

Annar fundur átti að verða í nóvember á Kaffi Sumarlínu á Fáskrúðsfirði. Líneik Sævarsdóttir, Hildur Magnúsdóttir og Jórunn K Sigurbjörnsdóttir voru umsjónarmenn og fengu séra Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur til að halda erindi um gildi sjálfsþekkingar. Því miður var fundurinn afboðaður vegna veðurs.

Þriðji fundur vetrarins var haldinn í desember á Hótel Hallormsstaður í Hallormsstaðaskógi. Helga Magnúsdóttir, Lára G. Oddsdóttir og Rut Magnúsdóttir voru umsjónarmenn fundarins. Helga sá um samsöng og las upp heilræði um hvernig eigin viðhorf geta breytt líðan okkar á annasömum tímum. Tveir frumkvöðlar á Hallormsstað, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Guðný Vésteinsdóttir voru gestir fundarins kynntu þróunarverkefni sitt Holt og hæðir. Fengu gestir að smakka á birkisafa sem er ein af afurðunum sem verið er að þróa og markaðssetja í verkefninu.

Fjórði fundur var haldinn í mars á Gistihúsinu Egilsstöðum. Anna María Arnfinnsdóttir og Kristín Hlíðkvist voru umsjónarmenn. Þrír gestir sóttu fundinn, Ingibjörg Jónasdóttir landssambandsformaður hvatti félagskonur til dáða, Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir deildarstjóri í Egilsstaðaskóla var með áhugaverðan fyrirlestur um verkefnið Heilsueflandi skóli. Verkefnið hófst 1997 og 2003 tók lýðheilsustöð við verkefnnu og starfsfólk í Egilsstaðaskóla er enn þátttakandi í því. Lára Vilbergsdóttir verkefnisstjóri var með fyrirlestur á þróunarverkefninu Þorpið sem er átaksverkefni í vöruhönnun og í þróun afurða úr heimabyggð.

Fimmti fundur var haldinn á Mjóeyri Eskifirði.Áður en formlegur fundur hófst var heimsótt steinasafn í heimahúsi á Eskifirði. Safnið er einkaframtak og er opnað eftir pöntun á veturna. Á fundinum var Elín Jónsdóttiir með orð til umhugsunar þar sem hún kynnti bækurnar Lífsgleði njóttu, Lífsreglurnar þrjár og Allra besta gjöfin. Í bókinni lífsreglurnar fjórar er farið í lífspeki Indjána, númer eitt Vertu flekklaus í orði, tvö ekki taka neitt persónulega og númer þrjú ekki draga rangar ályktanir og gerðu alltaf þitt besta. Jákvæð hugsun og umfram allt að lifa lífinu er viðfangsefni allra bókanna. Kristjana Guðmundsdóttir nýútskrifaður sérkennari á Eskifirði var gestur fundarins og hélt erindi um fagvitund og fagmennsku í kennslu. Kristjana hefur sótt framhaldsmenntun í sérkennslufræðum og kynnti hún framtíðarsýn sína í skólastarfi. Að það verði skóli margbreytileikans þar sem öll börn fái að njóta sín í námi óháð fötlun og eða stöðu sinni í samfélaginu.

Sjötti og síðasti fundur vetrarins er áætlaður í maí.


Fyrsti fundur deildarinnar starfsveturinn 2011-2012 var haldinn í október á Neskaupsstað á heimili Bjargar Þorvaldsdóttur, stjórnarkonu í deildinni. Olga Lísa Garðarsdóttir sagði frá starfsemi Verkmenntaskóla Austurlands og kom inn á flest það sem skiptir máli í rekstri og starfsemi á uppbyggingu metnaðarfulls skólastarfs. Orð dagsins hjá Björgu Þorvaldsdóttur fjölluðu um samstöðu og samhug milli manna þegar erfiðleikar verða og vísaði hún annars vegar í afleiðingar hryðjuverka Breiviks í Noregi í sumar og hinsvegar andlát ungs manns á Norðfirði og viðbrögð samfélagsins við því. Að lokum voru umræður um starf deildarinnar fram á vor.

Jólafundurinn var haldinn á Reyðarfirði heima hjá Hildi Magnúsardóttur, Helga Guðmundsdóttir las upp kynningu á samtökunum okkar sem við eigum á heimasíðu DKG, rifjaði upp tilurð samtakanna og markmiðið með starfseminni sem er að efla tengsl kvenna sem vinna að menntamálum og fræðslustörfum um víða veröld. Hún lagði ríka áherslu á að styrkur samtakanna liggi ekki síst í alþjóðatengingu þeirra, sem allar konur geti nýtt sér í einhverjum mæli.

Þriðji fundurinn varð páskafundur og var haldinn í veitingahúsinu Bókakaffi í Fellabæ. Þar hélt Björg Þorvaldsdóttir kynningu á Pals- lestrarkennsluaðferð sem hefur verið að riðja sér til rúms og vakið athygli meðal kennara. Kristín Hlíðkvist var með orð til umhugsunar um gildi þess að við gefum okkur tíma til að hlusta á hvert annað, að tala minna og hlusta meira. Þessi orð eru alltaf þörf.

Í lok fundarins óskaði formaður eftir framboði í stjórn Zeta- deildar fyrir tímabilið 2012-2014 og konum til aðstoðar við að stilla upp í stjórn. Jórunn Kristín Sigurbjörnsdóttir aðstoðaði að setja saman nýja stjórn með formanni. Félagskonur deildarinnar sem taka við eru Hildur Magnúsdóttir, Elín Jónsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir og Steinunn Lilja Aðalsteinsdóttir. Steinunn tók að sér að vera formaður.


6. maí 2012
Hrefna Egilsdóttir
Formaður Zeta-deildar


Síðast uppfært 22. maí 2018