Skýrsla frá 2016-2018.

Skýrsla stjórnar Zetadeildar DKG fyrir 2016 – 2018

Stjórnin var skipuð á aðalfundi Zetadeildar í maí á Hótel Héraði þar sem Eygló Björnsdóttir þáverandi forseti DKG kom á fundinn. Í stjórn voru skipaðar þær: Helga M. Steinsson formaður, Guðrún Ásgeirsdóttir varaformaður og Halldóra Baldursdóttir ritari. Formaður sótti framkvæmdaráðsfund til Reykjavíkur í byrjun september þar sem framkvæmdaáætlun vetrarins var samþykkt. Á framkvæmdaráðsfundinum hittast allir formenn deilda og stjórn samtakanna. Mjög skemmtilegir, gagnlegir og fróðlegir fundir.

2016
Fyrsti fundur vetrarins var haldinn í grunnskóla Eskifjarðar 27.9 Þar fór formaður yfir stofnun samtakanna, tilgang þeirra og helstu markmið. Benti formaður á mikilvægi þess að félagskonur tækju að sér bæði að vera í stjórn og taka að sér formennsku í þeim tilgangi að kynnast starfinu betur. Halldóra Baldursdóttir var með orð til umhugsunar og sagði frá skólasögu Eskifjarðar
í tilefni af 230 ára kaupstaðarafmæli Eskifjarðar sem haldið var upp á um haustið. Eftir fundinn var haldið á Hótel Eskifjörð og snædd kjúklingasúpa. Síðan var haldið heim í köldu og fallegu haustveðri með dansandi norðurljósum.

Annar fundur vetrarins var haldinn á Café Nilsen á Egilsstöðum 26.10. Fundurinn var í umsjón Helgu Guðmunds, Kristínar og Ruthar. Kristín Hlíðkvist flutti orð til umhugsunar og sagði frá aðdraganda að kvennafrídegi 1975. Hún sagði okkur frá þremur konum í Búðardal, sem tóku þá góðu ákvörðun að fara til Reykjavíkur og taka þátt í útifundi þar. Rætt var um mikilvægi samstöðu kvenna og að gera þurfi hana sýnilegri. Helga minnti okkur á landssambandsþingið á Akureyri í byrjun maí og kom fram að búið væri að bóka sumarbústað í Kjarnaskógi fyrir þær sem hefðu tök á að fara norður. Eftir fundinn var haldið í Sláturhúsið, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs þar sem Íris Sævarsdóttir tók á móti hópnum og sagði frá starfseminni og starfi sínu sem fræðslufulltrúi.

Þriðji fundurinn var haldinn 22.11 í Nesbæ Neskaupstað. Formaður setti fund og Hildur Vala kveikti á kertunum. Helga las upp markmið félagsins og minnti á Landssambandsþingið á Akureyri í maí. Síðan tóku þær Hildur Vala, og Steinunn við fundarstjórn. Hildur Vala var með orð til umhugsunar og ræddi um þau vandamál og áhyggjur sem við berum með okkur og hvað sé til ráða. Hún las vers úr Hávamálum sem fjalla um áhyggjur og sjálfsgagnrýni og hve fánýtt það sé að gera sér áhyggjur. Breytum því sem við getum og höfum ekki áhyggjur af hinu. Don´t worry, be happy. Halla Höskuldsdóttir leikskólastjóri sat fundinn með okkur og eftir að hafa snætt kjúklingasalat fórum við í heimsókn með Höllu á nýja leikskólann, Eyrarvelli sem tók til starfa í ágúst 2016.

2017
Fyrsti fundur ársins var haldinn 23.2 á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Gestur fundarins var Jón Ingi Sigurbjörnsson og sagði hann frá fornleifauppgreftri á fjallkonunni á Vestdalsheiði. Kynning hans var mjög áhugaverð og margar spurningar vöknuðu um umrædda fjallkonu eins og hver hún var, hvaðan hún kom og hvert hún var að fara.

Annar fundur ársins var haldinn á Fáskrúðsfirði 27.3 Skemmtilegur og fjölbreyttur fundur í umsjón þeirra Bjargar og Jórunnar. Fundurinn hófst í Norðurljósahúsinuá Fáskrúðsfirði. Safnið var opnað vorið 2016 og hefur að geyma norðurljósamyndir eftir þær Jónínu G. Óskarsdóttur og Jóhönnu K. Hauksdóttur. Síðan var haldið á veitingastaðinn L‘Abri á Fosshóteli. Þar sagði Berglindi Ó. Agnarsdóttir sagnakona, fundarkonum ævintýri á skemmtilegan hátt. Auk Berglindar voru tveir aðrir gestir á fundinum, Þær Unnur Sveinsdóttir og Marta Wíum Hermannsdóttir, sem tilvonandi Zetakonur. Rætt var um Landssambandsþingið og farið yfir dagskrá þess.

Landssambandsþingið var haldið 5-7 maí á Akureyri og fóru sex konur úr Zetadeild á þingið. Þær voru Halldóra, Björg, Guðrún, Steinunn, Sigga Dís og Helga Magnea og gistu saman í bústaðnum í Kjarnaskógi. Þingið var fróðlegt og skemmtilegt og voru ferðalangarnir ánægðar með dvölina og sammála því að það skiptir máli að sækja viðburði á vegum DKG öðru hvoru til að tengjast tilgangi og markmiðum félagsskaparins.

Lokafundur Zetadeildar var svo haldinn 18.5 á Hótel Hildibrand þar sem Guðrún Jónsdóttir frá Austurbrú sagði okkur frá starfi sínu þar og starfsemi Austurbrúar almennt. Erindið var mjög fróðlegt. Auk Guðrúnar var nýi forsetinn okkar Jóna Benediktsdóttir í Iotadeild á Vestfjörðum með okkur á Skæp og sagði okkur aðeins frá sjálfri sér og fleiru. Lokafundinum lauk með yndislegum fiskrétti en sumar áttu í erfiðleikum með bein sem voru ekki á réttum stað.

Fyrsti fundur vetrarins var haldinn á bókasafninu á Reyðarfirði í lok september. Hér var um vinnufund að ræða þar sem framkvæmdaáætlun landssambandsstjórnar var höfð að leiðarljósi við áherslur vetrarstarfsins, en hún var samþykkt á framkvæmdaráðsfundi fyrr í mánuðinum. Ákveðið var að þema vetrarins yrði listir í leik og starfi og horft inn á við í starfið. Þar sem Zetadeildin er ekki fjölmenn var ákveðið að funda sem víðast, halda kynningarfund og fjölga konum. Kynningarfundur var svo haldinn í október á Seyðisfirði á Kaffi Láru, þar sem hver zetakona bauð annarri með sér. Mjög góð mæting var á fundinn og var farið yfir markmið og tilgang DKG fyrir gestunum. Að loknum fundi snæddi hópurinn kvöldverð og spjallaði saman.

Í nóvember var haldinn fundur í Neskaupstað og var hann tileinkaður stofnun Austmennt, menntabúða sem stofnaðar voru á kennaraþingi í Neskaupstað um haustið. En fyrirmynd menntabúðanna, Eymennt var einmitt kynnt á Landssambandsþingi DKG á Akureyri um vorið. Zetakonur mættu á stofnfundinn í Nesskóla og héldu svo fund á Hótel Hildibrand í lokin.

2018
Fyrsti fundur ársins var inntökufundur sem haldinn var 1.3 á Hótelinu á Eskifirði þar sem fimm nýjar konur voru teknar inn í Zetadeildina við hátíðlega athöfn, þær eru:Margrét Björk, Marta Wíum, Petra Jóhanna, Brynja og Guðmunda Vala. Allar þessar nýju konur voru á kynningarfundinum á Seyðisfirði og var þetta var mjög ánægjuleg stund í alla staði og þær boðnar innilega velkomnar í félagsskapinn!

Síðasti félagsfundur vetrarins var haldinn 4.4 í Steinasafni Petru á Stöðvarfirði. Þar tók á móti okkur Unnur Sveinsdóttir barnabarn Petru og sagði okkur frá ástríðu hennar og dugnaði við að koma upp safninu. Héldum við að lokinni þessari fróðlegu kynningu á Brekkuna þar sem við snæddum kjúklingasúpu á meðan við skipulögðum Vorþingið á Egilsstöðum í byrjun maí. Á meðan við vorum uppteknar við það ákvað Vetur konungur að herða á vindi og snjókomu. Dimm él og skafrenningur tók á móti okkur á heimleiðinni og þegar hópurinn nálgaðist Reyðarfjörð kom í ljós að búið var að loka Fagradal! Gistu þrjár Héraðsdætur þessa nótt í Fjarðabyggð og var þetta þeirra lengsti Zetafundur hingað til.

Vorþing haldið á Egilsstöðum 5.5. í umsjón Zetadeildar og menntamálanefndar DKG. Þemað var Sköpun, gróska og gleði. Á sjötta tug kvenna sótti þingið. Fljótsdalshérað bauð til móttöku í Safnahúsinu á Egilsstöðum og hátíðarkvöldverður var haldinn á Gistihúsinu á Egilsstöðum um kvöldið. Hægt er að sjá myndir, fréttir og dagskrá þingsins á heimasíðu DKG. 17.5 var haldinn aðalfundur Zetadeildar í Óbyggðasetrinu. Þar voru almenn aðalfundarstörf og ný stjórn tók við völdum. Ruth kveikti á kertunum og Petra Jóhanna var með orð til umhugsunar. Að fundi loknum snæddu zetakonur gúllassúpu og fengu sér rabarbaraeftirrétt um leið og þær létu sig dreyma um sumar og sól .

Ef fundahaldið er dregið saman kemur í ljós að það voru haldnir 11 félagsfundir, 1 aðalfundur, 1 framkvæmdaráðsfundur, 1 vorþing og 1 Landsambandsþing. Stjórnarfundir voru nokkrir bæði í með tölvupósti, skype og snertifundum.

Það sem helst mætti ítreka til nýrrar stjórnar er að halda áfram að safna myndum af hverri félagskonu til að setja inn á vef DKG og halda vel utanum þær konur sem hafa verið á hliðarlínunni á leið inn í félagsskapinn. Gott væri að hafa nafnalista yfir þessar konur og skipa kannski tveggja þriggja manna nefnd sem hefur það hlutverk að safna konum í félagsskapinn. Gæta þarf þess að Zetadeildin spanni öll skólastig og konur sem starfa sem víðast í atvinnulífinu. Þá eru það einnig góð tilmæli frá fráfarandi stjórn að varaformaður hverrar stjórnar verði næsti formaður hennar. Komin með reynslu og þekkingu á grunninnviðum deildarinnar. Það fyrirkomulag þekkist víða í deildum félagsins. Varðandi fjárhaginn væri sniðugt að leggja inn á reikning félagsins 1000-1500 kr t.d. á vorin til að rétta fjárhaginn af en tengja þá upphæð ekki við árgjaldið sem greitt er á haustin en á næsta ári verður breyting á því þar sem árgjaldið verður innheimt í júní ár hvert.

Fyrir hönd fráfarandi stjórnar þakka ég kærlega fyrir gott og gefandi starf undanfarin tvö ár, markmiðið okkar var að horfa inn á við um leið og við huguðum að list í leik og starfi. Hægt er að segja að allt sé list í sem víðasta skilningi, mér dettur í hug ,,Fjallkonan“ okkar á Vestdalsheiðinni sem bar allar þessar perlur upp í fjall og lét þar lífið...hún hlýtur að hafa verið listræn.
Ég vil að lokum þakka uppstillingarnefndinni þeim Jórunni, Björgu og Hrefnu fyrir þeirra vinnu og óska nýrri stjórn og okkur öllum gleðilegs sumar og farsæls starfs innan Zetadeildar í framtíðinni!

Takk fyrir!

Helga Magnea Steinsson

 


Síðast uppfært 22. maí 2018