Skýrsla stjórnar 2006-2007.

Skýrsla frá Zetadeild á aðalfundi Delta Kappa Gamma í Reykholti 6. maí 2007.


Ég flyt ykkur skýrslu Zetadeildar fyrir starfsárið, 2006-2007. Zeta-deildin virðist hafa lagst í fullkominn dvala árið 2002 og deildin hafa sofið þungum Þyrnirósarsvefni í um 4 ár, eða þar til Ingibjörg Einarsdóttir og Stefanía Arnórsdóttir, sem ekki voru sáttar við stöðu mála og drifu starfsemina af stað á ný í maí 2006. Auk Ingibjargar og Stefaníu kom Sigrún Klara Hannesdóttir einnig að málum við endurreisn deildarinnar.

Allt finnst okkur þetta vera n.k. guðmæður okkar í Zetadeild. Áhugi þeirra og kraftur var svo smitandi að ekki var hægt annað en hrífast með, enda vakti málefnið, starfsemi Delta Kappa Gamma samtakanna í sjálfu sér áhuga flestra okkar sem þær höfðu samband við.


Á hátíðlegum fundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum gengu síðan 15 nýjar konur í deildina og kusu sér nýja stjórn, sem hefur reynt eftir mætti að halda starfseminni virkri í vetur. Í stjórn eru undirrituð sem hef gengt starfi formanns, Ólöf Ragnarsdóttir,
varaformaður, Halldóra Baldursdóttir, ritari og Halla Höskuldsdóttir, meðstjórnandi. Stjórnin fékk Ólöfu Guðmundsdóttur í lið með sér til að gegna starfi gjaldkera.

Það var mér ómetanlegt að fá tækifæri til að taka þátt í framkvæmdaráðsfundi í heimabæ mínum, Hafnarfirði, sl. haust, hitta fulltrúa annarra deilda og fá veganesti í starfið heima af fundinum bæði af framsögum og spjalli við fulltrúa á fundinum. Auk þess hefur Ingibjörg tekið hlutverk sitt sem guðmóður endurvakinnar deildar af alvöru og alúð og ævinlega verið tilbúin að leiðbeina og styðja þegar á hefur þurft að halda.


Stjórnin á sér góða breidd, við erum bæði af Héraði og Fjörðum og störfum á mismunandi sviðum fræðslumála. Það er mikilvægt ekki síst vegna þess að starfssvæðið og starfsemin er eðli síns vegna víðfeðm. Við höfum haldið 6 formlega stjórnarfundi á þessu starfsári, og spjallað mikið saman þess á milli.

Félagsfundirnir urðu 4 og voru 2 haldnir á Reyðarfirði sem liggur miðsvæðis fyrir stærstan hóp félagskvenna, 1 á Norðfirði
og ein á Eiðum í Eiðaþinghá á Héraði. Mæting var yfirleitt nokkuð góð, frá 9 - 14 konur mættu. 2 af fundunum lentu í Delta Kappa Gamma veðrinu víðfræga sem ég gerði að sérstöku umræðuefni í afmælisblossanum mínum í gær. Báða fundi héldum við þó, enda er það einlægur ásetningur stjórnar að láta aldrei fundi falla niður, en annan tókst að halda í 3. tilraun og hinn í 4. tilraun og það er e.t.v. svolítil staðfesting á tilefni þess að tala um Delta Kappa Gamma veður á Austurlandi!

Þetta eru þær aðstæður sem Zetadeildin býr við og það er viðfangsefni sem við hljótum að taka með þegar við tökum að okkur ábyrgðarstörf fyrir deildina, við þekkjum vetrarveður og samgöngur á svæðinu okkar, en á Austurlandi höfum við valið okkur búsetu og ætlum ekki að láta veður og færð á vetrum koma í veg fyrir að við getum tekið virkan þátt í lífi og starfi. Við horfum því jákvæðar til næsta starfsárs og teljum okkur reynslunni ríkari frá þessu fyrsta ári, vonumst til þess að það óöryggi sem við höfum óhjákvæmilega oft fundið fyrir á þessu starfsári, þar sem allir stjórnarmenn eru nýir félagsmenn í samtökunum, hverfi smám saman og við getum síðar verið nýjum stjórnarfulltrúum stuðningur í lifandi starfi öflugrar deildar á Austurlandi.


Helga Guðmundsdóttir


Síðast uppfært 22. maí 2018