Fundur haldinn á Seyðisfirði

Mánudagur 28. nóvember 2022.

Fundur Z-deildar sem vera átti síðastliðinn miðvikudag 23. nóvember, en fresta þurfti vegna veðurs og ófærðar yfir Fjarðarheiði þann dag. Er nú haldinn í Seyðisfjarðarskóla á kaffistofu starfsfólks kl. 17:00 – 19:00

Zeta konur fengu góða gesti á fundinn sem haldinn var á Seyðisfirði mánudaginn 28. nóvember. Það voru þeir Lasse Högenhof og Jónatan Spejlborg Juelsbo, ásamt 6 mánaða gamalli dóttur Jónatans. Þeir eru núverandi kennarar í LUNGA-skólanum sem er lýðskóli á Seyðisfirði. Þeir félagar hafa starfað við skólann frá stofnun hans árið 2014 þegar þeir ásamt vinkonu sinni Seyðfirðingnum Björt Sigfinnsdóttur og fleirum hófu umræðu um að LUNGA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi ætti erindi við fleiri. Upp úr því varð til listaskóli, þar sem ungt fólk á aldrinum 18 til 25 gat sótt tvisvar sinnum átta vikna annir í listaskóla. Þeir félagar hafa verið í stjórn skólans og stefnumótun frá upphafi og leitt starfið. Frá upphafi hafa verið frá 20 til 26 nemendur á hverri önn og ungmennin koma alls staðar að úr heiminum. 

Góð umræða skapaðist eftir fræðslu þeirra félaga um hvernig og hvað þarf að gera til að setja skóla sem þennan af stað og einnig reka hann. Þeir eru sammála um að það hefði ekki verið hægt nema með einstökum stuðningi heimafólks alla tíð. Það sem svo er gaman er að nú er skólinn að breyta aðeins um stefnu og bæta við. Það verður frá og með næsta hausti 2023 boðið upp á tvær brautir, áfram verður áhersla á list og svo bætist við land, þar sem fókusinn verður á náttúru, sjálfbærni, fjöllin, fjörðinn og nánasta umhverfi.

Að fundi loknum héldu félagskonur í Skaftfell og snæddu dásamlega súpu, nýbakað súrdeigsbrauð, himneskan hummus og hvítlauksflatböku.