Fréttir

Næsti fundur verður laugardaginn 21. mars

Gleðilegt nýtt ár. Eftir jólaannríki, taka þorrablótin við hvert af öðru hér á Austurlandi og fyrir þær konur sem standa í nefndarstörfum er það ærin vinna. Veður eru einnig oft válynd á þessum árstíma og því tóku Zetakonur þá ákvörðun snemma í haust að leggja ekki í fundi frá því í desember og fram í mars. Veður í janúar var þó alls ekki sem verst hér á Austurlandi þetta árið. En nú er sem sé blásið til leiks á ný. Við hefjum undirbúning bæði að okkar eigin fundum og svo landsþinginu sem haldið verður á Hallormsstað í maí. Að mörgu er að hyggja og nauðsynlegt að allar konur deildarinnar komi að undirbúningi þingsins. Stjórnarfundur er boðaður í Zetadeild föstudaginn 13. febrúar á Kaffihúsi Hebu. Deildarfundur verður haldinn laugardaginn 21. mars kl. 11.00 á Neskaupstað. Stefnan er sett á Jósafatssafnið. Sjáumst hressar, kær kveðja, Jarþrúður.    
Lesa meira

Inntökufundurinn 8. desember 2008

Í kvöld var haldinn jólafundur Zetadeildar á Kaffihúsinu hjá Marlín á Reyðarfirði. Sérstakur gestur fundarins var Ingibjörg Einarsdóttir sem aðstoðaði við inntöku þriggja nýrra félagskvenna í deildina. Anna Þóra Baldursdóttir sendi góðar kveðjur á fundinn en hún átti ekki heimangengt í dag. Margar félagskonur komust ekki á fundinn, vegna veðurs og veikinda. Á fundinum flutti Jórunn ritari deildarinnar orð til umhugsunar og fjallaði hún um jólahald á heimili sínu í æsku. Jarþrúður las jólasöguna Gjafir vitringanna í forföllum Helgu M. Steinsson sem ætlaði að kynna bókina um Önnu á Hesteyri í Mjóafirði en varð að játa sig veðurteppta í Neskaupstað og síðan sagði Ingibjörg Einarsdóttir frá landssamtökunum og ýmsu fleiru sem tengist starfi Delta Kappa Gamma. Ingibjörg afhenti deildinni fjóra litla gyllta kertastjaka til að nota við inntöku nýrra félaga að gjöf. Jarþrúður veitti þeim viðtöku og þakkaði Ingibjörgu. Eftir að hafa snætt ljúffengan mat hjá Marlín var farið á Stríðsárasafnið í Kampinum á Reyðarfirði. Það var gaman að skoða safnið sem er til húsa í bröggum í Kampinum á Reyðarfirði. (Sjá myndir frá fundinum í myndasafni). Við sem komum af Héraði vorum á fjórum bílum og fórum í samfloti heim í leiðindaveðri á Fagradal. Það er ekki einleikið hvað veður setur oft strik í reikninginn í deildarstarfinu í Zetadeild. En svona er Ísland í dag! Næsti fundur Zetadeildar verður í mars.
Lesa meira

Næsti fundur verður 8. desember

Næsti fundur í Zetadeild verður haldinn þann 8. desember kl. 18.00 - 20.00 á kaffihúsinu Hjá Marlín á Reyðarfirði. Við fáum væntanlega góða gesti á fundinn en fram mun fara inntaka nýrra félaga. Fjórar konur ætla að ganga til liðs við okkur. Efni fundarins að öðru leyti er hefðbundið, orð til umhugsunar sem Jórunn Sigurbjörnsdóttir flytur og aðalefni fundarins er bókaspjall sem Ólöf Magna Guðmundsdóttir stýrir. Boðið verður upp á fiskrétt, nýtt brauð og salat (1500 kr á mann). Verið nú duglegar að mæta kæru félagar og eiga saman skemmtilega samverustund.                                                         Jarþrúður Ólafsdóttir
Lesa meira

Sameiginlegur fundur Zetadeildar og Betadeildar 4. október í Mývatnssveit

Nú hefur verið ákveðin dagsetning fyrir sameiginlegan fund Zetadeildar og Betadeildar. Við munum hittast á Hótel Seli í Mývatnssveit 4. október kl. 12.00 þar sem við stefnum að því að eiga saman ánægjulega samverustund og kynnast hver annarri. Stefnt er að því  snæða saman léttan hádegisverð, fara í létta gönguferð og skoða saman fuglasafnið.  
Lesa meira

Fundur á Breiðdalsvík 22. september

Næsti fundur Zetadeildar verður haldinn á Kaffi Margrét á Breiðdalsvík mánudaginn 22. september kl. 18.00. Við munum snæða saman léttan málsverð á kaffihúsinu, heimsækja síðan Jarðfræðisetrið í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík en það er byggt á starfi George Walker sem rannsakaði og kortlagði austfirsk jarðlög á árunum 1954-1965. Einnig munum við skoða Grunnskólann á Breiðdalsvík. Anna Margrét Birgisdóttir flytur orð til umhugsunar.  
Lesa meira

Nú stillum við saman strengina á ný!

Kæru Zeta systur. Nú er kominn tími til að hefja störf að nýju eftir sumarleyfi. Fyrsti fundur Zeta deildar verður haldinn á Gistiheimilinu Egilsstöðum kl. 18.00 mánudaginn 1. september. Dagskrá fundar verður send félögum í tölvupósti. Stjórnin hefur fundað og skipt með sér störfum og er þannig skipuð í dag:  Jarþrúður Ólafsdóttir formaður, Helga Magnúsdóttir varaformaður, Jórunn Sigurbjörnsdóttir ritari, Björg Þorvaldsdóttir meðstjórnandi, Ólöf Magna Guðmundsdóttir gjaldkeri og Helga Guðmundsdóttir lögsögumaður. Kæru vinkonur, við hlökkum gífurlega mikið til að hitta ykkur allar hressar og kátar í næstu viku.                                        Kærar kveðjur,                                        Jarþrúður.  
Lesa meira

Vetrarstarfið

Nú þegar myrkrið víkur smám saman fyrir hækkandi sól hlýtur að vera tímabært að setja inn frétt um vetrarstarfið okkar í Zeta-deild!
Lesa meira

Frá afmælisþingi samtakanna í Reykholti

Eins og kunnugt er var haldið veglegt afmælisþing í Reykholti fyrstu helgina í maí í tilefni 30 ára afmælis Delta Kappa Gamma á Íslandi. Þingið sem um 85 konur sóttu, var einstaklega vel heppnað í alla staði, dagskrá bæði spennandi og skemmtileg og þingsetan verður því þátttakendum mikil hvatning í áframhaldandi starfi í deildunum.
Lesa meira

Heimasíða Zeta deildar

Nú skjótum við heimasíðu Zeta deildar í loftið og gerum hana að virkum miðli í félagsstarfi deildarinnar.  Eygló Björnsdóttir úr Beta deild verður seint fullþökkuð hennar vinna, bæði við gerð heimasíðu samtakanna og að gera okkur öllum kleift að eiga síður fyrir deildarstarfið, en ekki síst aðstoðina við að koma okkur af stað við að nota síður deildanna.
Lesa meira