Fréttabréf Etadeildar haust 2013

Nú er vetrarstarfið senn að hefjast og fyrsti fundurinn okkar verður miðvikudaginn 9. október kl. 17:30. Það er Salvör Nordal sem flytur okkur erindi um stjórnaskrármálið og afdrif þess. Fundardagar vetrarins og fundartímar (með fyrirvara) verða sem hér segir: 1. fundur miðvikudaginn 9. okt. kl. 17:30 2. fundur mánudaginn 4. nóv. kl. 18:00 3. fundur, jólafundur, þriðjudaginn 3. des. kl. 20:00 4. fundur laugardaginn 8. feb. kl. 10:30 5. fundur fimmtudaginn 13. mars kl. 18:00 6. fundur, aðalfundur, miðvikudaginn 23. apríl kl. 18:00 Fundarsókn gæti verið betri, en við erum ekki eina deildin sem það á við. Það er ljóst að deildarkonur hafa mörg járn í eldinum og í mörg horn að líta og svo getur ýmislegt óvænt komið upp á. En stjórnin er með tillögu um að hver og ein stefni að því að mæta á a.m.k. þrjá fundi af sex. Stjórnin hefur komið sér saman um að þema vetrarins taki mið af 7. grein markmiða DKG samtakanna sem hljóðar svo: Að fræða félagskonur um það sem er efst á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum og stuðla með því að vaxandi skilningi og virkri þátttöku þeirra í samfélagi þjóðanna. Við höfum verið iðnar við að ræða menntamálin og ekki búnar að segja skilið við þau, enda koma þau víða við sögu. En það er líka áhugavert að skoða önnur þjóðfélagsmál sem eru ofarlega á baugi og snerta alla. Hugmyndir sem hafa komið fram á stjórnarfundum eru t.d. sjálfsmynd þjóðar, sjálfsmynd fólks í menntageiranum, umhverfismál, sjálfbærni, fjölmenning, grunnstoðirnar í leik-, grunn- og framhaldsskólalögunum, Íslendingar í augum annarra, alþjóðamál og fleira mætti nefna. Áfram verður haldið með skiptingu í hópa utan um skipulagningu funda og verður skrá yfir hópa send út innan skamms. Við viljum stefna að því að hafa mismunandi fundarstaði, fundartíma og mismunandi tegundir af veitingum.

Fjármál. Félagsgjaldið okkar er nú kr. 9.500. Gjald til landssambandsins er kr. 9.000 og þar af fara ca. 5.000 kr. auk annarra gjalda til alþjóðasamtakanna. Gjaldið til landssambandsins rétt nær að dekka reksturinn og rætt hefur verið um að hækka það. Hins vegar virðist ekki mikil stemning fyrir því hjá almennum félögum og það væri gaman að heyra ykkar álit. Ýmsir hafa séð ofsjónum yfir því fé sem fer til alþjóðasamtakanna. Eftir að hafa skoðað þau mál, er undirrituð sannfærð um að þeim peningum er vel varið í margs konar styrki til verðugra verkefna víða um heim. Auk framlaga félagskvenna eru ótal digrir sjóðir sem úthlutað er úr í okkar nafni. Og þá er komið að atriði sem vert er að gefa gaum:

Styrkir. Félagskonum standa til boða ýmiss konar styrkir: Veglegir námsstyrkir til þeirra sem eru í MA- eða doktorsnámi. Síðan eru góðir styrkir til að sækja námskeið eða ráðstefnur á eigin fræðasviði. Þar fyrir utan eru styrkir til ýmiss konar verkefna á sviði menntamála. Staðreyndin er sú að íslenskar DKG konur hafa ekki mikið sótt í þessa styrki. Er ekki kominn tími til að athuga þetta? Allar upplýsingar er að finna á vef samtakanna (http://www.dkg.org), en auk þess á námsstyrkjanefnd landssambandsins að sjá um að vekja athygli á styrkjum. Á vefsíðu landssambandsins (dgk.muna.is) eru reglulegar tilkynningar um umsóknarfresti og þá er hlekkur á eyðublöð og upplýsingar.

Fjölgun deildarkvenna. Það er áhugi á að fjölga í deildinni og hér með eruð þið beðnar um tilnefningar. Í 1. grein C reglugerðar er ákveðið ferli sem ber að fara eftir: Deildarfundur skal ræða fjölgun félagskvenna og fyrir hvaða svið fræðslumála vanti einna helst fulltrúa, þannig að sem mest breidd sé í bakgrunni deildarkvenna. Félagskonur í deild gera tillögur til stjórnar um hvaða konum þær mæla með í deildina. Stjórnin tekur síðan endanlega ákvörðun um hverjar skulu bornar upp til samþykktar.  Greiða skal atkvæði um tillögurnar og ákveður hver deild  hvernig kosningu skal hagað.  Ef fleiri konur eru bornar upp til samþykktar á sama fundi, skal greiða atkvæði um hverja fyrir sig.  Við val félagskvenna og inntöku skal taka mið af handbók Delta Kappa Gamma, kaflanum um félaga og inntöku þeirra. Taka skal væntanlega félagskonu inn í deild eigi síðar en ári eftir að henni hefur verið boðin þátttaka í samtökunum. Hún telst ekki félagskona í deild fyrr en formleg inntaka hefur farið fram. Tilkynna skal nýja félaga til stjórnar landssambandsins, gjaldkera landssambandsins og félaga- og útbreiðslunefndar.

Frá landssambandinu. Á landssambandsþingi í vor tók við ný stjórn og forseti er Guðbjörg Sveinsdóttir Þetadeild á Suðurnesjum. Einnig hefur verið skipað í nefndir og af okkar hálfu er Ágústa í námsstyrkjanefnd og Auður lögsögumaður. Sex íslenskar konur eru í alþjóðanefndum. Faglega dagskráin á landssambandsþinginu, Á flekamótum, var sérlega vel heppnuð en þar var fjallað um þau ýmsu skil sem eru á ferlinum í gegnum menntakerfið og raunar út fyrir það. Vorþing 2014 verður haldið á Ísafirði 10. maí í tilefni af 10 ára afmæli Iota deildar og þar verður dagskráin Á flekamótum endurtekin og opin öllum.

Landssambandsþing 2015 verður í Reykjavík. Sextán konur sóttu Evrópuráðstefnuna í Amsterdam í ágúst. Þar var Sigrún Klara Hannesdóttir Alfadeild sæmd æðsta heiðursmerki Delta Kappa Gamma samtakanna. Það er gaman að geta þess að íslenska landssambandið er annað fjölmennasta af Evrópulöndunum.

Heimasíða landssambandsins (dkg.muna.is) kemur á framfæri tilkynningum og þar er einnig hægt að skoða hvað aðrar deildir eru að fást við. Lykilorð inn á lokaðar síður er lykill.

Facebook. Stofnuð hefur verið facebook síða og eru konur hvattar til að vera með þar.

Vefstjóri landssambandsins, Eygló Björnsdóttir (eyglob@unak.is) sér um að skrá konur inn á síðuna og einnig er hægt að hafa samband við stjórn Etadeildar.

Félagsgjöldin eru óbreytt, kr. 9.500 og eruð þið hvattar til að bregðast fljótt og vel við þegar Ólöf gjaldkeri leitar til ykkar. Það skiptir miklu máli að Ólöf geti gert upp við gjaldkera landssambandsins fyrir 1. nóvember.

Stjórn Etadeildar hlakkar til að hitta ykkur hressar og áhugasamar á fundum í vetur. Starfið stendur og fellur með ykkur.


Með kærri kveðju f.h. Etadeildar

Auður