Frásögn af skemmtikvöldi í Nauthól

Föstudaginn 18. mars 2011 efndu Eta-systur til hátíðar og sendu boð um þátttöku til allra Delta Kappa Gamma deilda á höfuðborgarsvæðinu. Eta-systur hafa unnið markvisst að því að efla innbyrðis kynni kvenna í deildinni og nú þótti komið að því að efla tengsl við aðrar deildir.  Fjórar Eta-systur báru hitann og þungann af undirbúningi fyrir kvöldið, þær Stefanía Valdís Stefánsdóttir,  Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Magnea Ingólfsdóttir og Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir. Veislan var haldin í Nauthól þar sem DKG-systur blönduðu geði og glöddust saman.

Dagskráin var að einhverju leyti hefðbundin, formaður Eta-deildar, Auður Torfadóttir, setti samkomuna á hefðbundinn hátt með því að tendra ljós vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún setti Kristínu Á. Ólafsdóttur í hlutverk veislustjóra og stýrði Kristín söng inn á milli atriða af miklum myndugleik.  Dagskráin var stutt. Fyrst flutti Þórunn Blöndal Orð til umhugsunar og lagði út af lýsingu á Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki og hversu samlíðan með öðru fólki er mikilvægur þáttur mennskunnar. Þá var komið að fyrirlesara kvöldsins, Jóhönnu Kristjónsdóttur sem sagði frá kynnum sínum af fólki og mannlífi í Miðausturlöndum, ekki síst kjörum kvenna og möguleikum til menntunar. Frásögn Jóhönnu var fróðleg og skemmtileg og var gerður góður rómur að máli hennar. Þar með var formlegri dagskrá lokið. Tvíréttuð máltíð var á matseðlinum; maturinn þótti góður og vel fram borinn og öll þjónusta til fyrirmyndar. Veitingasalur Nauthóls hélt líka vel utan um þær rúmlega 40 konur sem mættu á samkomuna.

Áður en dagskrá hófst var boðið upp á fordrykk og sú stund var notuð til að ganga á milli, kynna sig og heilsa upp á DKG systur. Kynnin voru enn frekar efld að dagskrá lokinni í stórsnjöllum leik sem þær Eta-systur Guðbjörg Vilhjálmsdóttir og Ólöf Helga Þór stýrðu og fólst í því að konur veldu sér eftirlætis tónlistarstefnu, hittu aðrar konur sem hefðu sama tónlistarsmekk og flyttu síðan lag í anda stefnunnar með frumortum texta sem innihéldi orðin Delta Kappa Gamma. Margir hópar fóru á kostum og sungu dýrt kveðna texta með miklum tilþrifum. Þessi leikur mæltist ákaflega vel fyrir.

Í lok kvölds þakkaði forseti landsambands DKG, Ingibjörg Jónasdóttir, fyrir framtakið og taldi slíka samkomu góða viðbót við annað starf sem unnið er á vegum deilda. Ánægja með kvöldið virtist almenn og margar félagskonur létu í ljós þá skoðun að samkoma eins og þessi ætti að vera árviss atburður héðan í frá. Skoðið myndirnar.

Þórunn Blöndal, ritari Eta-deildar

Síðast uppfært 01. jan 1970