2. fundur

Fundurinn var haldinn 8. mars 2021, kl. 17:00 – 19:00, gegnum Zoom.  

Undirbúningshóp  skipuðu: Guðrún Hrefna, Brynhildur, Bryndís S., Hulda Karen, Magnea, Þórunn og Ásta.

24 konur tóku þátt í fundinum.

Guðrún Hrefna tengdi félaga við Zoom.

Brynhildur tók að sér fundarstjórn.

Dagskrá:

1. Björg formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

2. Magnea Ingólfsdóttir flutti Orð til umhugsunar. Hún ræddi um flóttafólk bæði fullorðið og börn, mismunandi aðstæður þeirra og mikilvægi þess að tekið sé á móti þeim miðað við þarfir þeirra. 

3. Þórunn kynnti fyrirlesara fundarins Dr. Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósent við Háskóla Íslands. Fyrirlestur Berglindar nefndist : Ástarkraftur, umhyggja og valdatengsl í markaðssamfélagi. Fyrirlesturinn var mjög fjölþættur og fróðlegur og hér koma nokkrir punktar úr honum. Berglind ræddi um ástarkraft og samstöðu ekki síst á tímum veirufaraldurs og sagði að árangur samfélaga byggi ekki síst á óeigingjarnri umhyggju- og tilfinningavinnu sem oft sé ósýnileg öðrum en þeim sem njóta góðs af. Samkvæmt Berglindi þróaði Anna Guðrún Jónasdóttir hugtakið ástarkraft (love power) sem tilfinningaauðmagn sem vð búum yfir og getur ástarkrafturinn orðið arðráni að bráð. Berglind talaði um að í kapitalisku samfélagi væri efnahagslegt varnarleysi ávísun á að hægt væri að þvinga fólk til að vinna fyrir ósanngjarnt fjárframlag sem hinn efnameiri gæti svo nýtt sér í eigin þágu. Samkvæmt Önnu Guðrúnu mætti heimfæra þetta á ójöfnuð í ástarsamböndum og í kynjuðu samfélagi væru konur oftar í undirskipaðri stöðu efnahgslega og táknrænt. (Berglind sendi okkur jafnframt link á texta eftir hana sem birtist í Kjarnanum 9. apríl 2020 (sjá í fundarboði) um þetta efni ef þið viljið kynna ykkur þetta nánar)  

Þá ræddi Berglind um skólasöguna og að tilurð skóla hafi byggst á aðgreiningu sem hafi byggst á stétt (hér skilgreindi hún stétt út frá menntunarstigi). Framan af öldinni var stöðug  tregða til stétta- og kynjunarblöndunar (sérstaklega á efri stigum skólastarfs). Þetta hafi breyst en spurning er hvort enn megi ekki finna aðgreiningu? Berglind sagði að „Á síðustu áratugum hefur skólinn orðið mikilvægur liður í félags- og menningarlegri aðgreiningu milli hópa samfara auknu aðgengi að framhaldsskóla, vaxandi samkeppni og stéttaskiptingu í samfélögum. Allir geti nú sótt framhaldsskóla en ekki hvaða framhldsskóla sem er“ (BRM og & UEG).

4. Að loknum fyrirlestri voru umræður og fyrirspurnir og jafnframt dreyptu fundarkonur á hinum ýmsum drykkjum.

5. Fundi slitið kl. 19:00


Síðast uppfært 29. mar 2021