6. fundur Eta-deildar DKG - Aðalfundur - 29. apríl 2014.

6. fundur Eta-deildar DKG – Aðalfundur – 29. apríl 2014. Haldinn í Hotel Natura.
 
Fundur hófst kl. 18.30 og var lokið um 20.30
 
1. Fundurinn hófst að venju með því að kveikt var á kertunum þremur.  Þar á eftir fylgdi nafnakall formanns – 13 Eta- konur voru mættar á fundinn. Auk þess mættu til leiks þrjár konur sem gengu til liðs við deildina á fundinum og einn gestur.  Guðbjörg Sveinsdóttir, forseti landsambands Delta Kappa Gamma, sat fundinn og ávarpaði Eta-konur. Kristín Á. Ólafsdóttir var skipaður fundarstjóri og stýrði hún fundi eftir það. 
 
2. Eftir að lesin hafði verið upp fundargerð síðasta fundar hófust hefðbundin aðalfundarstörf. Fyrst var flutt skýrsla formanns. 
 
3. SKÝRSLA FORMANNS: Auður formaður leit yfir farinn veg gerði grein fyrir því helsta sem á daga hefur drifið í vetur og undanfarin fjögur stjórnarár. Starfið hefur verið nokkuð öflugt þessi ár; einhverjar konur hafa þó yfirgefið Eta-deild en aðrar bæst í hópinn. 
 
Á fyrra tímabili fráfarandi stjórnar, 2010 til 2012 var ýmislegt að gerast sem snerti starfsvettvang DKG kvenna; nýjar námskrár fyrir öll skólastig voru að líta dagsins ljós með nýjum áherslum og nýjum tækifærum. Einkum vöktu athygli grunnþættirnir sex sem allar námskrár hverfðust um. Í upphafi ákvað stjórnin að gera námskrármálin að þema vetrarins 2011 til 2012 og hópar beðnir að hafa það í huga.  Þegar lagðar voru línur fyrir veturinn 2012 til 2013 var ákveðið hafa meira frelsi í efnisvali og gefa hópum frjálsar hendur um efnisval. Úr varð áhugaverð blanda þar sem víða var komið við. Það árið var líka gerð tilraun með breytilegan fundartíma; það mæltist vel fyrir. Þá var minna lagt upp úr veitingum en oft áður og minna kostað til. Auður rifjaði upp skemmtilega fundi, áhugaverð umræðuefni og góða gesti. 
 
Veturinn 2013 til 2014 ákvað stjórnin að taka samfélagsmál á dagskrá en samkvæmt markmiðum Delta Kappa Gamma er mælt með því að þau mál séu á dagskrá deildanna. Veturinn byrjaði með því að Salvör Nordal heimsótti okkur og sagði frá siðfræðikafla rannsóknarskýrslunnar og ýmsu áhugaverðu um stjórnarskrármálið auk þess sem hún svaraði spurningum sem brunnu á Eta-systrum. Þá var farið í heimsókn í Norðlingaskóla þar sem iðkaðir eru nýstárlegir kennsluhættir, t.d. vendikennsla (e. flipped classroom)  – en skólastjórinn er ein Eta-systra - og loks má nefna að Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, ræddi við okkur um auðlindir Íslands og álitamál í umhverfispólitík, en þau eru ærin. Loks ræddu tvær Eta-systur um rannsóknir sínar á málþroska og kynntu málþroskapróf. 
 
Tvö mál hafa gengið eins og leiðarhnoð í gegnum alla fundi, bæði stjórnarfundi og deildarfundi þessi ár, og formaður minntist á þau í skýrslu sinni. Það fyrra er að mörgum Eta-kvenna finnst vanta „sýnilegt“ eða „áþreifanlegt“ verkefni að vinna að – eitthvað sem konur sameinast um og leiðir til úrbóta eða gagns fyrir einhverja, hópa eða einstaklingar. Hitt efnið snertir samstarf við aðrar deildir – það hefur borið við að Eta-deild hafi haldið sameiginlega fundi með öðrum deildum en það mættu vera meiri samskipt á milli deilda. Þessi mál verða áreiðanlega á dagskrá nýrrar stjórnar.
 
Auður Torfadóttir lætur nú af störfum eftir fjögurra ára farsæla stjórn. Henni var þakkað með lófataki. 
SKÝRSLA GJALDKERA: Næst var lesin skýrsla gjaldkera en Ólöf Helga Þór hefur gegnt því starfi undanfarin fjögur ár. Hún fór yfir bókhaldið sem nú stendur þannig að einhverjir tugir þúsunda eru til í sjóði. Ólöf lagði til að félagsgjöld yrðu óbreytt. Undanfarið ár hafa ýmsar leiðir verið reyndar til fjáröflunar en varla hægt að segja að einhver þeirra hafi skilað miklu. 
 
STJÓRNARKJÖR: Þá var komið að því að kjósa nýja stjórn. Frá uppstillingarnefnd hafði komið tillögur og eftir að fundarstjóri hafði lýst eftir fleiri tillögum voru þær samþykktar einróma. Ný stjórn sem kjörin er til tveggja ára verður þannig skipuð: 
 
Formaður: Bryndís Guðmundsdóttir 
Aðrar í stjórn: Anna Sigríður Pétursdóttir, Kristín Helga Guðmundsdóttir, Magnea Ingólfsdóttir og Stefanía Stefánsdóttir. Fundarkonur fögnuðu nýrri stjórn með lófataki.
 
4. Næsti liður á dagskrá var inntaka nýrra félaga:Nýjar konur í okkar deild eru þessar: Björg
Kristjánsdóttir, Ingibjörg Möller og Sigríður Heiða Bragadóttir. Formaður tilkynnti að a.m.k. tvær konur verði teknar inn í haust. Nýjar Eta-systur voru boðnar velkomnar með rauðri rós að venju.
 
5. Næsti liður var ávarp Guðbjargar Sveinsdóttur, forseta landssambandsins. Hún ræddi um starf deildanna og hvatti konur óspart til dáða. Hún bað konur að íhuga það að sækja um sæti í alþjóðanefndum DKG, slíkt starf væri mjög gefandi. Hún  hvatt líka til að konur birtu greinar eða hugleiðingar á heimasíðu DKG. Hún talaði um að starfið þyrfti að vera fræðilegt og skemmtilegt í bland. Guðbjörg ræddi um Vorþing DKG 2014 en það verður haldið á Ísafirði og Landsambandsþing sem haldið verður í Reykjavík. Að lokum las hún ljóð um vorkomuna. 
 
6. Þá var komið að borðhaldi og nú var sparimatur á borðum, niðurgreiddur af sjóði félagsins: Lambasteik með öllu tilheyrandi og súkkulaðikaka og ís á eftir. 
 
7. Að loknu borðhaldi spjalli yfir kaffibolla sleit Auður formaður fundi og útdeildi afgangi af rósum. 
 
 
Fleira ekki gert. Mættar voru: Auður, Ólöf, Þórunn, Kristín Helga, Kristín Ágústa, Bryndís Guðmunds, Anna Magnea, Magnea, Anna Sigríður, Stefanía, Brynhildur, Guðrún Hrefna og Sif. Gestur fundarins var María Hildiþórsdóttir.
 
 
Fundargerð ritaði Þórunn Blöndal
 
 
 
 
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017