6. fundur

6. fundur Eta-deildar – aðalfundur - 28. apríl 2015, haldinn á Grand Hótel.
 
Fundur hófst kl. 18:30 og var lokið um 20:30
 
1. Fundurinn hófst að venju með því að kveikt var á kertunum þremur, kerti trúmennsku, kerti vináttu og kerti hjálpsemi. Þar á eftir fylgdi nafnakall formanns – 18 Etakonur voru mættar á fundinn. Bryndís Guðmundsdóttir formaður var fundarstjóri og eftir nafnakall skilaði hún kveðjum frá félagskonum sem sumar hverjar voru staddar erlendis og nefndi í því samhengi hversu víðförular deildarkonur eru. Að því loknu kynnti hún aðalfyrirlesara fundarins Huldu Þórisdóttur doktor í félagslegri sálfræði og kennara við Háskóla Íslands.
 
2. Gengið var beint til dagskrár þar sem Hulda var tímabundin og vildi hefja sinn fyrirlestur strax. Fyrirlestur hennar var um umræðuhefðina í samfélaginu. Það sem einkennir íslensku samfélagsumræðuna er m.a. að málefni eru ekki krufin til mergjar. Það er algengt að fara strax ofan í skotgrafirnar áður en málefnin eru krufin. Umræðan sprettur upp af áhrifum af umhverfinu og velþekktar eru kerfisbundnar skekkjur sem verða ýktar í umræðunni. Einsleitni þjóðfélagsins hefur einnig sín áhrif á umræðuhefðina. Þá veldur smæð þjóðfélagsins því að fáar rannsóknir hafa verið gerðar og virðingarleysi í garð annarra kemur fram í umræðuhefðinni. Íslendingum er ekki tamt að hlusta á aðra eða hver á annan og því vilja koma upp skekkjur í þankagangi og ofmetnaður. Við teljum okkur mjög fær og höfum oftrú á okkur sjálfum. Okkur er í mun að koma okkar sjónarmiðum að og erum sneydd því að hlusta á viðmælendur okkar og ómeðvituð um okkar eigin þankaskekkjur. Okkur vantar þjálfun í röklegri umræðu og þjálfun í að tala gagnrýnið um hugmyndir okkar.Með því að virkja og þjálfa þessa þætti væri  möguleiki á að draga úr skekkjum í umræðunni.  Áhugaverðar umræður spunnust í framhaldi af fyrirlestri Huldu og ekki spurning að mikill áhugi er á málefnum sem þessum í hópi okkar Etasystra.
 
3. Orð til umhugsunar voru í höndum Magneu Ingólfsdóttur og lagði hún út af umræðu um verkföll en mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu vegna yfirvofandi verkfalla opinberra starfsmanna.
 
4. Í framhaldi af hugleiðingum Magneu var fram borinn matur og sátum við og röbbuðum saman meðan við borðuðum afar góðar kjúklingabringur með meðlæti og kaffi á eftir.
Þar sem ekki var stjórnarkjör var þetta einfaldur og rólegur fundur sem lauk kl. 20:30 með því að Bryndís kvaddi Etasystur og þakkaði veturinn þar sem umræðan og fyrirlestrar hafa verið með áherslu á þjóðmál á víðum grunni efnahags, félags-, stjórn- og menntamála  sem varpað gætu ljósi á málin, stuðlað að nýrri hugsun, jákvæðni og sátt.
 
Magnea Ingólfsdóttir ritari.
 
 
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017