2. fundur

2.fundur ETA-deild Delta Kappa Gamma, starfsárið 2014–2015 haldinn í Kennslumiðstöð Háskóla Íslands, Aragötu 9 þann 3. nóvember 2014, frá kl.18.00 – 20.30.
 
Fundur skipulagður af hóp 1 en í honum voru Guðrún G, Anna Magnea, Guðbjörg, Ingibjörg S, Ólöf Helga, Sif og Sophie.
 
Í boði var grænmetislasagna, salat og brauð frá Bergsson mathús.
 
Bryndís Guðmundsdóttir setti fundinn, Guðrún Geirsdóttir stýrði fundi og Anna Magnea Hreinsdóttir skrifaði fundargerð.  
 
Fundargerð síðasta fundar samþykkt en hún hafði verið send út eftir síðasta fund.
 
Gestur fundarins Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir var boðin velkominn og hélt hún erindi um heilbrigðiskerfið. Í fyrirlestrinum var Sigurbjörg að kynna doktorsritgerð sína en hún fjallar um aðdraganda að ákvörðun ríkisins um kaup á Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1998 og síðar sameiningu sjúkrahúsanna tveggja í Reykjavík árið 2000. Hún bar hana saman við sameiningu tveggja sjúkrahúsa í Lundúnum, St. Thomas´ og Guys Hospitals, árið 1995 en spurði einnig hvers vegna sameiningin hér hefði tekist 1998 en mistekist á árunum 1986-1987. Hún benti á að á þeim tíma sem leið milli tilraunanna hefði staða tveggja fjölmennustu og áhrifamestu starfsstétta heilbrigðiskerfisins breyst. Á sama tíma og hjúkrunarstéttin sameinaðist í eitt félag og varð öflug og virk í pólitískri umræðu kom upp sundurlyndi meðal lækna, ekki síst vegna deilna um tilvísanakerfið, átaka milli heimilislækna og annarra sérfræðinga og aukinnar sóknar þeirra síðarnefndu út í stofurekstur. Hún bætti því við að þegar sameiningin var í höfn hefðu margir litið á það sem sigur á læknum sem hefðu veitt harðasta mótspyrnu gegn sameiningunni. 
 
Sigurbjörg sagði að stefnan í heilbrigðismálum sé ekki mörkuð heldur "gerist" hún. Það er alltaf verið að taka skyndiákvarðanir og leysa vandamál og uppnám sem verður einhvers staðar í kerfinu. Þessar skyndiákvarðanir verða svo stefnumarkandi.  Ákvörðunin um sameiningu sjúkrahúsanna var ein þessara ákvarðana sem tekin var án umræðu. Hún telur að þetta sé mjög lamandi fyrir umræðu um heilbrigðismál, ekki síst vegna þess að í íslenskri heilbrigðisþjónustu eru að störfum ákaflega hæfir sérfræðingar með afar víðtæka menntun og reynslu. Hættan er auðvitað sú að fagfólk yfirgefi svona bát ef það fær ekki að vera með í ráðum.
Þess má geta að doktorsritgerð Sigurbjargar er komin út hjá Háskólaútgáfunni og nefnist Health Policy and Hospital Mergers. Hún fæst í Bóksölu stúdenta og öllum bókaverslunum. Formaður færði Sigurbjörgu rós með þökk fyrir áhugaverðan fyrirlestur.
 
Dr. Guðrún Geirsdóttir deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands var með orð til umhugsunar og kynnti starfsemi miðstöðvarinnar sem var formlega stofnuð þann 31. ágúst 2001 en hafði raunar starfað í um tvö ár. Kennslumiðstöð varð til í kjölfar umræðu og samvinnu áhugasamra starfsmanna Háskólans sem höfðu trú á að hægt væri að styðja betur við kennsluhætti í skólanum og koma þannig til móts við þarfir fleiri kennara og nemenda. 
 
Kennslumiðstöð hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum frá stofnun. Í upphafi var boðið upp á ýmis námskeið í notkun tölvuforrita fyrir kennara og starfsfólk en smám saman jókst  áhersla á kennslufræði háskólakennslu og hvernig nýta mætti upplýsingatækni til stuðnings við kennslu. Kennslumiðstöð hefur einbeitt sér að því að efla umræðu um nám og kennslu innan deilda og styðja þær í að standa sjálfar í forsvari fyrir kennsluþróun. Mikil áhersla hefur verið lögð á fjölbreytt námskeið fyrir kennara, m.a. um framkomu og ræðumennsku, fjölbreytta kennsluhætti og notkun upplýsingatækni í kennslu.
 
Fundi slitið kl.20.30.
AMH
 
 
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017