Fréttabréf Etadeildar 2013–2015

ETAdeild 2013–2015
 
Etadeild heldur að jafnaði sex fundi á ári, tvo fundi í umsjá stjórnarkvenna og fjóra fundi í umsjá hópa félagskvenna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel, aukið innbyrðis kynni og virkjað konur til þátttöku.
 
Veturinn  2013–2014 voru samfélagsmál í brennidepli. Við fengum Salvöru Nordal í heimsókn, sem sagði okkur frá siðfræðikafla Rannsóknarskýrslu Alþingis ásamt ýmsu áhugaverðu um stjórnarskrármálið. 
 
Í Norðlingaskóla, þar sem Etakonan Sif Vígþórsdóttir heldur á málum, sagði Ragnar Þór Pétursson kennari frá nýstárlegum kennsluháttum, sem þar eru iðkaðir m.a. vendikennslu (e. flipped classroom).  
Á jólafundi hefur skapast sú hefð að fá í heimsókn rithöfund með kynningu á eigin bók og að þessu sinni kom Þórunn Erlu- og Valdemarsdóttir og las úr bók sinni Stúlka með maga.   
Á fjórða fundi vetrarins ræddi Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri um auðlindir Íslands og álitamál í umhverfispólitík.  
 
Á fimmta fundi kynntu Etakonurnar Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingar, niðurstöður rannsóknar um forspárgildi hljóðkerfis- og hljóðvitundar og almenns málþroska um áhættu á lestrarörðugleikum síðar á ævinni. 
 
Á vorfundi voru hefðbundin aðalfundarstörf. Gestur var Guðbjörg Sveinsdóttir forseti landssambands DKG, sem ræddi m.a. um starf deilda og hvatti konur til dáða á vettvangi samtakanna s.s. að sækja um sæti í alþjóðanefndum, birta greinar eða hugleiðingar á heimasíðu DKG.  
 
Stjórnarskipti urðu á vorfundi og Auður Torfadóttir lauk fjögurra ára farsælli formennsku sinni. Núverandi stjórn skipa Bryndís Guðmundsdóttir formaður, Stefanía Valdís Stefánsdóttir varaformaður, Magnea Ingólfsdóttir ritari, Anna Sigríður Pétursdóttir gjaldkeri og Kristín Helga Guðmundsdóttir meðstjórnandi. 
 
Vetrarstarf 2014–2015 hófst í byrjun október með hressingargöngu við sjávarsíðu Sjálandhverfis. Meginefni fyrsta fundar voru áherslur vetrarstarfsins. Samhljómur var með fundarkonum og hugmyndum stjórnar um að beina sjónum að þjóðmálum á víðum grunni efnahagsmála, félagsmála, stjórnmála og menntamála og fá til okkar fyrirlesara sem varpað gætu ljósi á stöðuna í þjóðfélaginu, stuðlað að nýrri hugsun, jákvæðni og sátt. 
 
Annar fundur vetrarins var haldinn í nóvember í Kennslumiðstöð HÍ, þar sem Etakonan Guðrún Geirsdóttir stýrir málum. Hún kynnti fjölbreytta starfsemi  miðstöðvarinnar, sem varð til í kjölfar umræðu og samvinnu áhugasamra starfsmanna, sem höfðu trú á að hægt væri að styðja betur við kennsluhætti og koma til móts við þarfir kennara og nemenda.  Gestur fundarins var Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lektor og stjórnsýslufræðingur, sem fræddi okkur um heilbrigðiskerfið, aðdraganda sameiningar sjúkrahúsa, stefnu í heilbrigðismálum sem  einkennist fremur af lausn vandamála og skyndiákvörðunum en stefnumörkun.
 
Jólafundur, sameiginlegur með Kappadeild, var haldinn í Hannesarholti, þar sem Etakonan Ragnheiður Jónsdóttir er húsráðandi. Gestur fundarins var að þessu sinni rithöfundurinn Kristín Steinsdóttir sem sagði okkur frá tilurð og las úr nýrri bók sinni, Vonarlandinu.  
 
Fjórði fundur var haldinn í febrúar í húsakynnum FB þar sem okkar kona Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir heldur um stjórnvölinn. Gestur fundarins var Auður Styrkársdóttir forstöðukona Kvennasögusafns Íslands og var erindi hennar tengt 100 ára kosningarétti kvenna á Íslandi. Auður upplýsti okkur um Kvennasögusafnið, sem Anna Sigurðardóttir stofnaði árið 1975. Hún ræddi aðdraganda þess að konur fengu kosningarétt árið 1915 þ.e. 52% kvenna sem þá voru á kosningaaldri, þróun næstu árin á eftir og stöðu nágrannaþjóða í þessum efnum fyrir u.þ.b. einni öld. Einnig skýrði Auður frá atburðum í tilefni afmælisins.  
 
Fimmti fundur var haldinn í mars í Laugarnesskóla þar sem Etakonan Sigríður Heiða Bragadóttir  er skólastjóri. Hún sagði okkur frá starfsemi skólans og þeim fjölmörgu hefðum sem skapast hefðu í áranna rás einkum langri og merkilegri sönghefð. Að þessu sinni var  fundarefni Líf og leyndarmál formæðra okkar. Það hefur lítið farið fyrir ömmum í rituðum heimildum og þar með glatast mikil saga. Nú sögðu etakonur sögur af óblíðum örlögum, leyndarmálum tabúum, ömmum sem fóru troðnar og ótroðnar slóðir, ömmunni alltumvefjandi svo eitthvað sé nefnt. Mæltist það vel fyrir og urðu miklar og fjörugar umræður.  
 
Síðasti fundur vetrarins verður þriðjudaginn 28. apríl og þá mun Hulda Þórisdóttir doktor í félagslegri sálfræði og kennari við Háskóla Íslands verða gestur fundarins og fjalla um umræðuhefðina í samfélaginu. 
 
Á þessu tveggja ára tímabili hafa verið teknar inn fjórar konur, þær Björg Kristjánsdóttir náms- og starfsráðgjafi,  Ingibjörg Möller sérkennari og fv. aðstoðarskólastjóri, Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri og Auður Ögmundsdóttir kennari.  Við stefnum að enn frekari nýliðun í Etadeild, fræðandi og fjölbreyttum fundum sem efla persónulegan og faglegan þroska félagskvenna.   
 
Bryndís Guðmundsdóttir. 

Síðast uppfært 14. maí 2017