HRÓS - Etadeild

Við í Etadeild erum stoltar af framlagi deildarkvenna til samfélagsins. Þegar tilefni er til óskum við konum í deildinni til hamingju með áfanga, eftirtektarvert frumkvæði eða árangur sem jafnvel hefur verið getið á opinberum vettvangi. Viðurkenning okkar er hin sígilda rauða rós. Þess vegna höfum við ákveðið að kalla hana „(H)RÓSIГ.


Eftirtaldar konur hafa fengið (H)RÓS á fundum í Etadeild:

Þórunn Blöndal (2016) varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Helsinki 26. september 2015. Ritgerðin ber heitið Where grammar meets interaction. Collaborative production of syntactic contructions in Icelandic conversation og fjallar um samskipti og samskiptaferli. 

Leiðbeinendur við doktorsritgerðina voru þau dr. Anne-Marie Londen, prófessor emerita og dr. Jan K. Lindström, prófessor við Department of Finnish, Finno-Ugrian and Scandinavian Studies, við Háskólann í Helsinki. Prófdómarar voru dr. Per Linell, prófessor emeritus við Háskólann í Linköbing, og dr. Jakob Steensig, dósent við háskólann í Árósum. Jakob var einnig andmælandi við vörnina. Dr. Laura Visapää, dósent, var prófdómari innan deildar.

Ritgerðin fjallar um tvö samvinnuferli í íslenskum samtölum og einkum setningar sem tveir mælendur mynda í sameiningu. Þetta gerist stundum á þann hátt að annar mælanda byrjar en hinn botnar segðina, þá er talað um segð seinni mælanda sem botn.  Í öðrum tilvikum lýkur fyrri  mælandi við sína segð en sá síðari hengir sitt framhald á orð hans þannig að saman mynda tvær segðir eina setningafræðilega heild. Í þeim tilvikum er talað um viðbætur.

Í ritgerðinni er sýnt fram á líkindi með þessum tveimur samtalsferlum en einnig dregið fram að hvaða leyti þau greina sig hvort frá öðru. Stundum virðast þessi samtalsferli einungis til að sýna samstöðu og áhuga í samtalinu en í öðrum tilvikum eru þau greinilega valin til að gera við það sem þegar hefur farið úrkskeiðis í samtalinu eða gæti valdið misskilningi þegar samtalinu vindur fram.  Í ritgerðinni er sýnt fram á að virkni þessar tveggja samtalsferla eru að einhverju leyti lík en aðrir þættir greina þau hvort frá öðru. Að auki eru þau ólík að formi. 

Þórunn Blöndal hefur lokið B.A. og M.Paed. prófi í málvísindum og íslenskukennslu frá Háskóla Íslands og M.Sc. prófi í hagnýttum málvísindum frá Edinborgarháskóla. Hún kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík til 1995 en 1998 til 2015 við Háskóla Íslands. 

Ritgerðin er gefin út í ritröð University of Helsinki, Faculty of Arts, Nordica Helsingiensia 42. Hún er líka gefin út á rafrænu formi (https://helda.helsinki.fi/handle/10138/156533?show=full). 

(2016) - Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent í talmeinafræði við Heilbrigðis- og Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Amalía Björnsdóttir, dósent í aðferðafræði við Menntavísindasvið og Ingibjörg Símonardóttir, sérkennari og talmeinafræðingur standa að langtímarannsókn, (titill: Góð málkunnátta barna undirstaða farsæls náms) sem birt var í hinu virta fræðitímariti American Journal of Speech and Language Pathology sem gefið er út af samtökum bandarískra talmeinafræðinga (ASHA). Niðurstöður langtímarannsóknar sýna ótvírætt mikilvægi góðrar málkunnáttu hjá börnum þegar þau hefja nám í grunnskóla.  

Anna Magnea Hreinsdóttir(2009). Þriðjudaginn 15. desember 2009 varði Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi Garðabæjar doktorsritgerð sína: "Af því að við erum börn“: Lýðræðislegt umræðumat á menntun barna og þjónustu fjögurra íslenskra leikskóla / “Because we are children”: A deliberative democratic evaluation of education and services in four preschools in Iceland.

Í rannsókninni skoðaði Anna Magnea starf fjögurra leikskóla á Íslandi og lagði mat á það með aðferðum lýðræðislegs umræðumats. Menntun leikskólabarnanna og þjónusta við þau var metin af fulltrúum foreldra, starfsfólks og barna. Tilgangur rannsóknarinnar var að vekja umræður um stöðu barna í leikskólum og færa rök fyrir mikilvægi þess að leitað sé eftir sjónarmiðum barnanna sjálfra og hvernig þau geta haft áhrif á það starf sem fram fer í leikskólanum. Anna Magnea er fyrsti leikskólakennarinn sem lýkur doktorsgráðu frá íslenskum háskóla.

Sif Vígþórsdóttir(2009) fyrir Menntaverðlaunin og Frumkvæðisverðlaun Geðhjálpar.
Norðlingaskóli í Reykjavík hefur þann stutta tíma sem hann hefur starfað getið sér orð fyrir framsækni, nýsköpun og einkar heildstæða og skýra stefnumörkun og orðið fyrirmynd sem fólk víða að kemur til þess að skoða og læra af. Starf skólans er grundvallað á því lífsviðhorfi að hverjum einstaklingi skuli búin námsskilyrði svo hann megi á eigin forsendum þroskast og dafna sem sjálfstæður, sterkur og ekki síst lífsglaður einstaklingur. Skólastarfið er reist á grundvelli stefnu um einstaklingsmiðað nám. Starfið er byggt á því að komið sé til móts við þarfir allra nemenda og að þeim líði vel. Litið er ámargbreytileika nemendahópsins sem kost frekar en hindrun.

Geðhjálp veitti í tilefni af 30 ára afmæli sínu frumkvæðisverðlaun félagsins í fyrsta sinn. Verðlaunin eru veitt fyrir nýjungar í þjónustu við geðsjúka og úrræði sem eru til þess fallin að efla geðheilsu.  Norðlingaskóli í Reykjavík hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi forvarnarstarf með einstaklingsmiðuðu námi sem miðar að því að styðja nemendur í að finna og nýta styrkleika sína og hæfileika sem best.


Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir (2009) var í maí 2009 skipuð skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti til fimm ára. Guðrún Hrefna er með MA-próf í þýskum bókmenntum frá Kílarháskóla í Þýskalandi og MBA-próf frá Háskóla Íslands. Hún hefur kennt við Flensborgarskólann og Borgarholtsskóla, starfað í yfirstjórn menntamálaráðuneytisins að mótun menntastefnu, unnið sem ráðgjafi og rekið stuðningsskólann Talnatök.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er einn stærsti framhaldsskóli landsins. Þar eru fjórar stórar verknámsbrautir (húsasmíðabraut, rafiðnabraut, sjúkraliðabraut og snyrtibraut), bóknámsbrautir til stúdentsprófs og listnámsbrautir. Kvöldskóli FB er stór og vel sóttur. Í dagskólanum eru um 1400 nemendur og um 700 sækja nám í kvöldskólanum nýskipuð skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Bryndís Sigurjónsdóttir (2009) hefur starfað við skólastarf í 30 ár. Hún hefur verið almennur kennari, kennslustjóri, aðstoðarskólameistari og nú skólameistari í afleysingum. Bryndís er með BA próf í sögu og frönsku frá Háskóla Íslands, kennsluréttindi frá sama skóla og M.Ed frá Bandaríkjunum og MPA þ.e. stjórnun opinberra stofnana frá Háskóla Íslands.

Bryndís starfar nú sem skólameistari við Borgarholtsskóla sem  er fjölbrautarskóli sem býður upp á bóknám til stúdentsprófs, verknám í málm- og bíliðngreinum,listnám, almennar brautir og starfsbraut. Nemendur þetta árið eru 1423 sem skiptist í dagskóla, síðdegisnám, dreifnám og kvöldsskóla.  Kennarar eru 107 og aðrir starfsmenn 30.

Jóhanna Einarsdóttir (2009) Föstudaginn 16. janúar 2009 varði Jóhanna Einarsdóttir, talmeinafræðingur, doktorsritgerð sína: The identification and measurement of stuttering in preschool children (Greining og mæling á stami leikskólabarna). Meginmarkmið verkefnisins var að rannsaka greiningu og mat á stami íslenskra barna á aldrinum þriggja til fimm ára. Verkefnið byggir á fjórum vísindagreinum. Rannsóknirnar leiddu í ljós að mikil þörf er á stöðluðu kerfi til að meta stam. Greinarnar hafa verið birtar eða samþykktar til birtingar í eftirtöldum tímaritum; American Journal of Speech and Language Pathology, Journal of Fluency Disorders, International Journal of Language and Communication Disorders og Journal of Speech, Language and Hearing Research.

Gerður Guðmundsdóttir (mars 2007)
 Gerður varð sextug þann 9. mars s.l. Hún var formaður Etadeildar 2004-2006, hefur kennt ensku í framhaldsskóla í fjölda ára, verið formaður Félags enskukennara og í framvarðasveit í kennslu erlendra tungumála hér á landi, hafði m.a. veg og vanda að skipulagi vettvangsnáms fyrir tungumálakennara þegar því var fyrst hleypt af stokkunum. Til hamingju Gerður!

Vilborg Jóhannsdóttir (febrúar 2007) Á alþjóðadegi fatlaðra, þann 3. desember s.l. var Kennaraháskóla Íslands afhentur Múrbrjóturinn, viðurkenning Landssamtakanna Þroskahjálp, fyrir að koma á fót starfstengdu diplómunámi handa fólki með þroskahömlun. Múrbrjóturinn er veittur þeim stofnunum sem hafa, að mati Þroskahjálpar, rutt fólki með fötlun nýjar brautir til jafnréttis á við aðra í samfélaginu. Vilborg Jóhannsdóttir lektor við KHÍ heldur utan um námið og á ásamt samstarfskonu sinni veg og vanda að undirbúningi þess. Til hamingju Vilborg!

Margrét Friðriksdóttir (des. 2007)  Í október s.l afhenti Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra Margréti Friðriksdóttur rektor MK verðlaunagrip í tilefni viðurkenningar jafnréttisráðs sem Menntaskólinn í Kópavogi hlaut fyrir skýra og virka jafnréttisstefnu gagnvart nemendum og starfsfólki. Skólinn hefur haft forystu um verkefni sem miða að því að jafna stöðu karla og kvenna. Til hamingju Margrét!

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir (okt. 2007). Á síðasta ári veittu bandarísku starfsþróunarsamtökin NCDA Guðbjörgu viðurkenningu fyrir framlag hennar til menntunar náms- og starfsráðgjafa og til stefnumótunar á sviði náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Verðlaun NCDA eru veitt árlega einstaklingi á alþjóðavettvangi sem unnið hefur að þróun og uppbyggingu á sviði starfs- og námsráðgjafar. Guðbjörg lauk jafnframt doktorsprófi í náms- og starfsráðgjöf við Háskólann í Herfortshire 2004 og er dósent í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Til hamingju Guðbjörg!

Auður Torfadóttir (sept.2007).  Auður varð sjötug 8. ágúst og lætur nú af störfum við Kennaraháskóla Íslands þar sem hún hefur átt farsælan starfsferil sem háskólakennari og fræðikona. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum gefur út ritið Teaching and Learning English in Iceland: In honour of Auður Torfadóttir og heldur málþing henni til heiðurs. Til hamingju Auður!


Síðast uppfært 29. sep 2016