3. Jólafundur 2017

Jólafundur í Etadeild þriðjudaginn 5. desember 2017

kl. 18:00-21:00 hjá Björgu Kristjánsdóttur í Bleikjukvísl 24

Jólafundur Etadeildar var haldinn á heimili Bjargar Kristjánsdóttur 5. desember 2017. Bryndís Guðmundsdóttir formaður setti fundinn og kveikti á kertunum þremur með einkunnarorðum samtakanna og bauð konur velkomnar. Dagskráin var einföld og aðalinnlegg var upplestur Kristínar Steinsdóttur úr nýrri bók hennar, Ekki vera sár. Kristín las nokkra þætti upp úr bókinni. Bókin  fjallar í stórum dráttum  um uppgjör konu á krossgötum sem komin er á eftirlaun og horfir fram á  nýtt æviskeið. Góður hljómur var gerður að upplestri Kristínar og sköpuðust umræður milli fundarkvenna og Kristínar.  Að upplestri loknum var Kristínu færð rauð rós með kærum þökkum fyrir skemmtilegan og gefandi upplestur. 

Í framhaldi af upplestri Kristínar  voru bornar fram veitingar, smáréttir frá Jómfrúnni. Á meðan veitinga var notið röbbuðu konur saman og myndaðist afar góð stemmning þannig að tíminn leið hratt og fyrr en varði var klukkan farin að nálgast 21:00 og sleit þá formaður fundi og færði húsráðanda rauða rós og þakkaði henni fyrir að taka á móti okkur á sínu fallega heimili. Í framhaldi af því fóru konur að kveðja og óska gleðilegrar hátíðar.

Sjaldan hefur verið eins góð þátttaka á fundi hjá Etadeild en 23 konur mættu á jólafundinn. Ljúfum og góðum  fundi lauk síðan alveg í kringum kl. 21:00. Fundi sem styrkti vináttubönd kvenna í Etadeild.

Magnea Ingólfsdóttir ritari

 

 

 


Síðast uppfært 19. mar 2018