2. fundur

Fundur í Etadeild fimmtudaginn 28. janúar 2016
 
Ár 2016 fimmtudaginn 28. janúar kl. 18:00 var haldinn fundur í Eta-deild í húsnæði Íslenska Sjávarklasans að Grandagarði 16. Jóhanna Einarsdóttir tók að sér að stýra fundi. Hún bauð fundarkonur velkomnar og kynnti Hjört Emilsson, framkvæmdastjóra skipaverkfræðistofunnar Navis, sem gerði fundargestum grein fyrir starfsemi Íslenska Sjávarklasans og sýndi þeim athafnasvæði fyrirtækisins og ýmsar afurðir sem þar eru þróaðar s.s. plástrar úr roði, fæðubótaefni og snyrtivörur. 
 
Um 60 fyrirtæki og stofnanir í ýmis konar haftengdri starfsemi á Íslandi eiga formlega aðild að Íslenska sjávarklasanum. Klasinn tekur þátt í stofnun og rekstri nýsköpunarfyrirtækja gegnum virkt eignarhald og ráðgjöf af ýmsu tagi. Í húsnæði klasans eru 40 fyrirtæki í haftengdri starfsemi saman komin undir einu þaki. Þar er einnig frumkvöðlasetur með aðstöðu fyrir fjögur fyrirtæki. Klasinn stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi.  Fyrirtækið veitir margvíslega þjónustu til meðlima samstarfsvettvangsins sem og aðila utan formlega klasasamstarfsins.
 
Að kynningu lokinni hófust hin eiginlegu fundarstörf samkvæmt útsendri dagskrá.
 
1.  Bryndís formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu – trúmennsku – hjálpsemi. Fundarmenn kynntu sig. Auk félagskvenna sátu fundinn tveir gestir. 
 
2. Orð til umhugsunar flutti Guðbjörg Vilhjálmsdóttir. Hún fjallaði um það hvernig við tengjumst hafinu á einn eða annan hátt og hvernig hún sjálf tengist hafinu í gegnum það að ýmsir forfeður hennar voru sjómenn og útvegsbændur. Guðbjörg las upp úr endurminningum föður sins Vílhjálms Árnasonar þar sem hann lýsir upplifir sinni af fegurðinni í ljósbrigðum sjávarins þegar maurildi lýsa upp yfirborð sjávarins. Í lokin  skaut hún þeirri hugmynd að fundarmönnum hvort ekki væri við hæfi í þessum húsakynnum að koma með tillögu að nýsköpunarfyrirtæki sem gæti heitið Maurildaferðir ehf
 
3. Inntökuathöfn. Ragnhildur Konráðsdóttir var með formlegum hætti tekin inn í deildina. Bryndís formaður, Magnea og Kristín Helga stjórnuðu innvígslunni. Ragnhildur var boðin velkomin með lófataki. 
 
4. Önnur mál. Bryndís minnti konur á að fara á vefinn okkar og fylgjast með viðburðum, fjallaði um styrki og sagði að hægt væri að sækja um styrki þrisvar sinnum á ári. Hún sagði að vorþingið yrði 30 apríl hér á Reykjavíkusvæðinu og hvatti konur til að mæta á það.
 
Bryndís ræddi almennt um starfið í deildinni og áhyggjur stjórnar af minnkandi  mætingu á fundi. Hún velti upp hvernig við getum bætt starfið aukið þátttöku og hvort ætti að hafa annað form á fundum og setti fram nokkrar hugmyndir í því sambandi. Stjórnin hefur ákveðið að blása til sóknar og Bryndís varpaði því fram hvort ætti að hafa einn auka fund þar sem starf deildarinnar væri fundarefnið. Hún nefndi einnig þörf á aukinni nýliðun og mæltist til þess við fundarmenn að þær hvettu konur til að ganga í deildina okkar. Hún greindi frá því að kvarnast hefði úr hópnum okkar. Þær sem hætt hafa á síðasta ári og nú í haust eru: Gerður Guðmundsdóttir, Ósa Knútsdóttir, Guðrún Geirsdóttir og Margrét Friðriksdóttir.
Brynhildur sagðist eindregið styðja tillögu Bryndísar um að haldinn yrði vinnufundur um starf deildarinnar.
 
5. Jóhanna sleit fundi kl 19:20.   
 
Fundargerð ritaði Hafdís Sigurgeirsdóttir

Síðast uppfært 14. maí 2017