4. fundur

Deildarfundur í Eta-deild 1. febrúar 2012
Fundarstaður: Hótel Reykjavík Natura, Víkingasalur. 
Fundartími: 6 – 8.30.

23 konur mættu á fundinn: Anna Magnea, Auður, Ágústa, Bryndís G., Bryndís S., Brynhildur, Elísabet, Eyrún, Guðrún G., Guðrún Hrefna, Hafdís, Ingibjörg, Jóhanna, Kirsten, Kristín Helga, Kristín Ó., Kristín St., Ólöf, Ósa, Ragnheiður, Sophie, Stefanía, Þórunn.

Gestafyrirlesari:  Ólafur Helgi Jóhannsson

1.  Auður formaður setti fundinn og tendraði kertin.
  
2.  Orð til umhugsunar flutti Ólöf Helga Þór. Hún tengdi umræðuefni sitt við aðalefni fundarins, nýjar námskrár í grunn- og framhaldsskólum. Sem ráðgjafi í framhaldsskóla hittir hún margt ungt atvinnulaust fólk og fólk sem hefur upplifað höfnun og missi af ýmsu tagi. Ólöf rifjaði upp erfiðar stundir í eigin lífi og kynni sín af bókinni Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor E. Frankl en sú bók hafði mikil áhrif á hana á námsárum hennar og í gegnum lífið hefur bókin veitt henni styrk þegar hún hefur þurft á því að halda. Hún talaði um gildi sem þyrfti að rækta, t.d. sköpun og þátttöku, ungmennin þyrftu líka að rækta með sér viðhorf til óhjákvæmilegra áfalla. Að lokum vitnaði Ólöf í orð Magnúsar Skúlasonar, geðlæknis, en hann sagði að þegar lagt væri upp í ferð þyrfti fyrst að fullvissa sig um hvar persónan er stödd þegar hún leggur af stað. Þessi orð má með góðu móti tengja öllu skólastarfi.

3.  Auður ræddi um reglugerðarbreytingar, næstu fundi og fyrirkomulag á þeim og minnti á alþjóðaþingið. Hún ræddi líka stjórnarskipti en skv. lögum á uppstillingarnefnd að tilnefna konur í stjórn. Á fundinum voru  Ósa og Eyrún tilnefndar í uppstillingarnefnd. 

4.  Ólafur H. Jóhannsson heimsótti fundinn í stað Sigurjóns Mýrdal sem komst ekki á fundinn. Ólafur hefur unnið að nýrri námskrá fyrir grunnskóla og séð um kynningu á henni og hann fór í gegnum helstu breytingar og nýmæli sem þar er að finna. Hann talaði um grunnstoðirnar sex sem ganga í gegnum allt nám frá leikskóla til framhaldsskóla – þær eru uppistöðurnar sem allt skólastarf á að byggjast á. Anna Magnea, ein af Eta-konum, hefur unnið að námskrá fyrir leikskóla og Ólafur kallaði hana til þegar kom að því að nefna helstu nýmæli í námskrá leikskólans. Góður rómur var gerður að erindi Ólafs og innskoti Önnu Magneu og umræður urðu allnokkrar.

5.  Matarhlé. Steiktur lax með grænmeti, kaffi og súkkulaði á kr. 3000

6.  Tveir fengu hrós og rós á fundinum: Elísabet fyrir að eiga þátt í bók um Rauðsokkahreyfinguna og Ólafur sem þakklætisvott fyrir sitt framlag til fundarins.

7.  Í lokin fengu þær Guðrún Hrefna og Ragnheiður orðið og ræddu um Vigdísarstofu sem áformað er að verði hluti af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þær ræddu um leiðir til að afla fjár til að þess að stofan komist á laggirnar og verði til sóma. Fundarkonur létu í ljós álit sitt á hugmyndinni og voru ekki á einu máli um aðferðir og leiðir en niðurstaðan varð sú að málið yrði unnið áfram og skoðað síðar.

8.  Fjölmennum og áhugaverðum fundi var slitið kl. rúmlega 8.



Síðast uppfært 01. jan 1970