5. fundur
Zoom fundur í Eta-deild haldinn 20. apríl 2021 kl. 18:00
Hópur 1 og hópur 2 stóðu að fundinum.
15 voru mættar og 10 boðuðu forföll
- Björg Kristjánsdóttir formaður kveikti á kertum og setti fundinn. Hún greindi frá því að það verður Landssambandsþing 7. maí og áætlað er að fundurinn verði í Keflavík. Henni finnst líklegt að sá fundur verði fjarfundur.
- Orð til umhugsunar flutti Ólöf Helga Þór. Þar ræddi hún um þá málfarsbyltingu sem á sér stað og við höfum öll orðið vör við og birtist sem enskuslettur í daglegu máli. Í sinni skemmtilegu umfjöllun tók hún mörg lýsandi dæmi sem vörpuðu ljósi á hvað enskuslettur eru í raun algengar.
- Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur fjallaði um bókina Spænska veikin sem hann skrifaði og kom út fyrir síðustu jól.
Ástæðan fyrir því að Gunnar ákvað að skrifa þessa bók er að hann hefur verið að skrifa bækur um það tímabil sem spænska veikin herjaði, fyrri heimstyrjöldina og fullveldi Íslands 1918. Þannig að það lá nokkuð beint við að gera spænsku veikinni skil. Gunnar kvaðst hafa velt mikið fyrir sér hvernig hægt væri að gera þessa sögu aðgengilega fyrir almenning, þ.e. læsilega bók en ekki vísindalegt rit. Hann valdi þann kost að segja sögur fólks með því að fylgja einstaklingum og vekja þetta fólk þannig til lífsins. Viðtökur hafa verið góðar þannig að það virðist hafa verið þörf fyrir þessa bók. Þetta er fyrsta frásögnin í bók af spænsku veikinni sem verður að teljast mjög sérkennilegt því það er mikið til af heimildum um veikina. Svo virðist sem fólk hafi ekki haft áhuga á að fjalla um þetta mikla áfall sem veikin var. Spænska veikin kemur aftur á móti við sögu í ýmsum skáldsögum sem gerast á þessum tíma.
Spænska veikin er skæðasta farsótt mannkynssögunnar því engin farsótt hefur drepið svo marga á jafn skömmum tíma. Fyrst sjúklingurinn dó 1. nóvember 1918 og svo hrundi fólk niður næstu vikurnar. Reykjavík var bara eins og borg dauðans. Fórnarlömb veikinnar voru langflest á besta aldri eða í kringum þrítugt og þessu fylgdi náttúrulega að mörg hundruð börn misstu foreldri sitt. Einn kafli í bókinn heitir hetjur. Þar er fjallað um hóp fólks, aðallega konur sem lögðu fram ómælda vinnu við hjúkrun og fleira. Allar aðstæður voru mjög erfiðar. Sjúkrarúm voru fá og flestir dóu heima hjá sér. Þáttur fólks sem lagði sig fram sjálfviljugt er aðdáunarverður. Forsíðumynd bókarinnar vísar til þessa fólks.
Læknar voru ráðalausir gagnvart veikinni og töldu að hún myndi ganga yfir eins og aðrar pestir. Landlæknir fékk á sig mikla gagnrýni fyrir aðgerðarleysi en hann hélt því fram að þetta væri sama veikin og kom sumarið áður og ekkert væri hægt að gera. Fólk í fjarlægari landshlutum greyp aftur á móti til ráðstafana til að hindra samgang t.d. var alveg bannað að fara yfir Jökulsá á Sólheimasandi og yfir Holtavörðuheiði. Þannig tókst að verja stóran hluta landsins.
Við lok framsögu Gunnars spurðu Eta-systur hann um ýmsa þætti varðandi bókina og í framhaldi af því var fundi slitið.
Hafdís Sigurgeirsdóttir, fundarritari
Síðast uppfært 24. maí 2021