3. fundur

Fundur var haldinn í Etadeild þriðjudaginn 8. mars 2016 í Háskólanum í Reykjavík.

Mættar voru: Bryndís, Kristín Ágústa, Stefanía, Ingibjörg S., Ragnhildur, Ragnheiður, Ingibjörg M., Auður, Brynhildur, Þórunn, Sophie, Jóhanna, Björg, Eyrún, Sigríður Heiða, Kristín Helga og Magnea. Gestur og fyrirlesari: Ásdís Ólsen.

Undirbúningshóp skipuðu: Kristín Ágústa, Ingibjörg S., Ragnhildur, Ragnheiður, Auður, Sif og Tanya. Ragnhildur hafði safnað myndum og upplýsingum um hópinn og deildi á skjá.

Dagskrá:

1. Bryndís formaður setti fund og skipaði Ingibjörgu S. fundarstjóra og Auði fundarritara.

2, Orð til umhugsunar flutti Kristín Ágústa. Hún tengdi orð sín nýlegri lífsreynslu þegar hún ætlaði að láta samviskusemina og skylduræknina ráða för í stað þess að setja heilsuna í forgang. Sem betur fer tók samstarfsfólk af henni völdin og kom henni undir læknis hendur. Eftir þetta er henni betur ljóst hvað það er mikilvægt að ná jafnvægi milli vinnu og sjálfsræktar og að láta ekki samviskusemina ganga út yfir allt.

3. Orð Kristínar rímuðu vel við það sem Ásdís Ólsen hafði að segja. Áður en hún hóf mál sitt, kynnti Ingibjörg störf hennar á sviði núvitundar (e. mindfulness) og hugarþjálfunar. Ásdís greindi frá eigin reynslu í námi og starfi og hvernig hún fann sína fjöl eftir að hafa farið í sjálfsskoðun eftir nokkuð erfiða reynslu. Það var námskeið í núvitund sem opnaði augu hennar fyrir því hvað væri að og hvernig hægt væri að ná tökum á lífinu. Það voru atriði eins og að átta sig á hvernig hugurinn vinnur, hvernig hægt er að ná stjórn á því hvernig maður bregst við aðstæðum og hvernig maður getur tengst sjálfum sér betur. Þetta snýst m.a. um sjálfsvitund, sjálfsábyrgð, sjálfsrækt og að ná valdi yfir hugsunum sínum og tilfinningum. Ásdís leiddi okkur síðan í gegnum nokkrar æfingar máli sínu til stuðnings. Nokkrar umræður spunnust um núvitund og reynslu fundarkvenna af æfingunum. Ásdís gaf okkur upp vefslóð þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar: mindful.is

4. Bryndís kvaddi sér hljóðs og kallaði til sín Þórunni sem s.l. haust lauk doktorsprófi í málvísindum frá háskólanum í Helsinki. Þórunn fékk hamingjuóskir og (H)rós. Heiti ritgerðarinnar er: Where grammar meets interaction og hlekkurinn er: https//helda.helsinki.fi/handle/10138/156533?show=full
Bryndís gat þess einnig að tvær Etakonur, Ingibjörg S. og Jóhanna, ásamt Amalíu Björnsdóttur hefðu nýlega fengið birta grein í virtu erlendu fagtímariti. Bryndís minnti á að gleyma ekki að koma afrekum Etasystra á framfæri.
Bryndís minnti á vorþingið 30. apríl og hvatti konur til að mæta og taka með sér gesti.

5, Ingibjörg sleit fundi og konur stefndu á Nauthól þar sem ljúffeng súpa var á borðum og tækifæri gafst til að ræða málin vítt og breitt.

Auður Torfadóttir ritaði fundargerð. Síðast uppfært 01. jan 1970