4. fundur


Fundur í Eta – deild Delta kappa Gamma haldinn á Grand hotel 3. febrúar 2011.

Megin þema fundarins:  að efla innbyrðis tengsl
Hópur 3 skipulagði fundinn, en í honum eru: Eyrún Ísfold Gísladóttir, Hafdís Sigurgeirsdóttir,
Kristín Á. Ólafsdóttir, Ósa Knútsdóttir og Sophie Kofoed-Hansen.

Mættar voru:Auður, Eyrún, Guðbjörg, Guðrún Hrefna, Hafdís, Jóhanna, Kristín Ó., Kristín St., Margrét, Ólöf, Sophie, Stefanía, Þórunn
Gestur: Lilja María Jónsdóttir

Auður Torfadóttir, formaður kveikti á kertum og setti fundinn.
Auður kynnti gest fundarins, Lilju M.Jónsdóttur lektor í kennslufræðum við Menntavísindasvið HÍ.
Auður greindi frá verkefninu Schools for Africa.  Hún velti því upp hvort fundarmenn væru því samþykkir að leggja málefninu lið með því að setja pening í bauk á þeim fundum sem við höldum framvegis. Það fékk jákvæðar undirtektir. Fleiri hugmyndir hafa komið fram hvernig megi leggja málefninu lið en þær eru í þróun.
Auður sagði frá bréfi sem deildinni barst frá Ingibjörgu Jónasdóttur,forseta. Þar minnti hún á næsta landssambandsþing sem haldið verður á Suðurnesjum 7. – 8. maí í vor. Yfirskrift þingsins er Fagvitund í fyrirrúmi. Sömuleiðis greindi Auður  frá að  frestur til að skila umsóknum um styrki úr námsstyrkjasjóði rennur út 1. mars.

Þá gaf Auður Stefaníu Stefánsdóttur orðið. Stefanía er í undirbúningsnefnd fyrir næsta fund okkar í Etadeild en yfirskrift þess fundar er samskipti innan deilda. Hún greindi frá því að fyrirhugað er að halda sameiginlegt skemmtikvöld  allra deilda 18. mars og búið er að fá sal í Nauthól. Mikill áhugi er á þessu hjá öðrum deildum og von er á góðri þátttöku allra deilda.

Að þessu loknu fól Auður Sophie Kofoed Hansen að taka við fundarstjórn.
Sophie fór yfir dagskrá fundarins, fól Hafdísi Sigurgeirsdóttur  að rita fundargerð og  kynnti Eyrúnu Ísfold  Gísladóttur sem flutti orð til umhugsunar. Eyrún deildi með okkur áhugaverðri reynslu úr starfinu.

Kristín Ólafsdóttir tók síðan við og stjórnaði leikjum sem miðuðu að því að efla innbyrðis tengsl fundarkvenna.
Þá var komið að kvöldverði. Að honum loknum tók Kristín okkur í leik sem endaði með því að okkur var skipt upp í hópa fyrir umræður kvöldsins. Umræðuefnin voru tvö og höfðu hóparnir 30 mín til að ræða annað hvort umræðuefnið eða bæði. Í lokin var gerð stutt grein fyrir umræðum í hverjum hópi fyrir sig. Umræður í hópunum þremur voru einstaklega frjóar og skemmtilegar. Allir hóparnir völdu að ræða um umræðuefni A:
Eftirfarandi samantekt var dreift til fundarmanna áður en umræður hófust.
Kveikjur að umræðuefni eru fengnar úr erindi Jóns Torfa Jónassonar á fundi Eta deildar 2. nóvember sl. Þar sem hann velti fyrir sér framtíðar sýn í menntamálum.
Hópurinn er beðinn að ræða út frá neðangreindum spurningum. Hann ákveður hvort hann vill einbeita sér að öðru hvoru umræðuefninu eða taka þau bæði fyrir.
Hóparnir hafa 30 mínútur. Einhver tekur að sér að punkta niður helstu niðurstöður/ áherslur og gera síðan grein fyrir þeim í heildarhópnum á eftir. Í kjölfarið reiknum við með fekari umræðu allra fundarkvenna. Beðið er um að minnispunktarnir verði afhentir ritara fundarins í fundarlok.

Umræðuefni A: 
“Hrunið”, trúnaðarbrestur og skortur á gagnrýnni hugsun eru áberandi efnisþættir í umræðu síðustu missera.
Er ástæða til að rýna í starfsemi grunn- og framhaldsskóla til að finna svör við því sem fór úrskeiðis?
Hverju ætti að breyta í inntaki og/eða vinnubrögðum  (ferli) í námi barna og unglinga til að sporna gegn því að svipað gerist aftur – til að byggja betra samfélag?
Hvað þarf menntunin að fela í sér svo að einstaklingar verði góðir í samskiptum og flytji góða strauma til samferðamanna?              
Eru eftirfarandi þættir mikilvægir í námi barna og unglinga: Lífsgleði; virðing fyrir sjálfum sér og öðrum; gagnrýnin hugsun; sjálfstraust; öryggi; þekking og færni á mörgum sviðum (samanber námsgreinar); félagsleg færni; að öllum líði vel í skólanum? Hvernig sinna skólar okkar þessum þáttum nú? Hvaða aðrir þættir  eru mikilvægir?
Gæti áhersla Gardners (sbr. Jón Torfa) á fimmþætta vitund (hugsun) verið leiðbeinandi í námi – og þá hvernig – en þar fjallar hann um (sjá einnig hugarkort)
   The disciplined mind
   The synthesizing mind
   The creating mind
   The respectful mind
   The ethical mind

Umræðuefni B:
Jón Torfi fjallaði um ævimenntun og taldi mikinn mun á hástemdri orðræðu um hana annars vegar og raunverulegum möguleikum á ævimenntun hins vegar.
Í umræðu um ævimenntun er ástæða til þess að horfa til eftirfarandi þátta í samtíma okkar:
Ör starfsþróun- Mikil tilfærsla í starfi – Ungt fólk í dag skiptir ört um starfsvettvang – reiknar ekki með því að vera í sama starfinu til æviloka.
 Hvers konar skólakerfi gæti haldið utan um allar þessar breytingar?
 Hvernig munu skólar breytast? Munu þeir breytast?
 Munu fyrirtæki og stofnanir e.t.v. sjá um að mennta starfsfólk sitt í framtíðinni?
Munu koma upp fagskólar t.d. verslunarskólar og sérstakir iðn- og handverksskólar (eins og hér áður fyrr áður en allir þurftu að verða stúdentar)?
Global menntun – mun vægi fjarnáms (jafnvel milli landa) aukast?
Í sambandi v. hugmyndir um inntak framtíðarmenntunar þá mætti skoða punkta Gardners (sjá hér að ofan við umræðuefni A) og velta fyrir sér hvers vegna hann telur þessi ákveðnu atriði svona mikilvæg- hvort þau séu kannski forsenda fyrir því að lifa í svona fjölbreytilegu þjóðfélagi sem nú og gerir okkur auðveldara með þessi sífelldu umskipti.
  
Hér fer á eftir samantekt í stikkorðastíl á þeim punktum sem hóparnir skiluðu til ritara.
Í einum hópnum hófst umræðan út frá Barnasáttmála Sameinu þjóðanna sem lagði áherslu á réttindi barna og skyldur. Fram kom að skortur væri á ábyrgð gagnvart ýmiss konar skyldum en fremur væri vísað til réttinda. Rætt hvað þarf menntun að fela í sér svo að einstaklingar þrói með sér frumkvæði – verði frumkvöðlar þá þarf aga – rökhugsun. Þjálfa þarf samskipti.  Rætt um umgengni - tengd menningu – formlegheit – tengslaleysi og að stundum vantaði yfirfærslu. Rammi í leik- og grunnskóla mikilvægur. Umræðan barst að kvennabaráttu og hvaða áhrif hún hefði haft á samfélagið. Spurt var “fórum við of langt”? Samfélag er að vera þátttakandi, samábyrgð, félagsfærni.
Í öðrum hóp var byrjað á að ræða hvað einkenndi okkur sem þjóð t.d erfitt með að fylgja reglum, skortur á sjálfsgagnrýni og samræður einkenndust af því að vera með eða móti. Það vantar að fólk skiptist á skoðunum og rökræði, ungmenni ekki þjálfuð í slíkum samskiptum, þjálfun hefur meira verið í morfís-keppnis stíl. Vantar gagnrýna hugsun. Við fullorðna fólkið ekki nógu dugleg að vera ákveðnar fyrirmyndir. Grundvallaratriði fyrir undirbúning lífsins er að þjálfa upp góða samskiptahæfni, gagnrýna hugsun og færni í að leysa vandamál. Rætt um að kennarar í grunn- og framhaldsskólum þyrftu að fá þjálfun/endurmenntun  í hvernig samskiptahæfni og að leysa mál á farsælan hátt er best þjálfuð hjá ungmennum. Í lokin var rætt um að það þyrfti að halda meira á lofti gildunum sem komu fram á þjóðfundinum.
Hvernig byrjaði þetta? Meira talað um réttindi en skyldur. Viðhorf frá ´68 – eyða þessu eða þetta verður að engu. Í framhaldi af því.  Menning að eiga peninga. Andlit hinna nýríku. Ekki virðing fyrir grunninum sem eldri kynslóðir byggðu á. Vantar aga á heimilin. Fullorðnir brýna ekki nægilega fyrir börnum að sýna hvert öðru virðingu.  Leiðir: Setja mörk -  agi – virðing – rökhugsun – siðgæðismennt. Lífsleikni – samvinna - samskipti –viðhorf. Byrja á heimilum – leikskóli – grunnskóli. Grunnskólinn þarf að taka meira á uppeldi.

Auður þakkaði fyrir góða umræðu og skemmtilegan fund.
   Fleira ekki gert. Fundi slitið.
   Hafdís Sigurgeirsdóttir


Síðast uppfært 24. mar 2011