1.fundur_2014

Fundur í Etadeild laugardaginn 4. október kl. 10:30, að Löngulínu 27, Garðabæ.

Dagskrá fundar: 
1. Kveikt á kertum
2. Orð til umhugsunar
3. Fréttir frá landssambandi
4. Vetrarstarfið

Að lokinni hressingargöngu um Sjálandshverfið í Garðabæ komu níu konur sér fyrir á heimili Önnu Sigríðar Pétursdóttur, nutu veitinga og samveru og gengu til dagskrár. 

Orð til umhugsunar hafði Bryndís G. og sagði frá nýafstaðinni göngu á slóðum pílagríma í Portúgal og á Spáni. Áskorun, leit, þakklæti, kærleikur, að hvíla í núinu, innri friður og sátt voru leiðarstef í þeirri umfjöllun.  Lokaorðin voru móður Teresu:
Lífið er tækifæri, gríptu það. 
Lífið er fegurð, dáðu hana.
Lífið er gjöf, njóttu hennar.
Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika.
Lífið er áskorun, taktu henni.
Lífið er skylda, gerðu hana.
Lífið er leikur, leiktu hann.
Lífið er dýrmætt, gættu þess.
Lífið er auðlegð, varðveittu hana.
Lífið er kærleikur, gef þig honum á vald.
Lífið er loforð, láttu það rætast. 
Lífið er sorg, sigraðu hana.
Lífið er söngur, syngdu hann ! (Móðir Teresa). 

Fréttir frá landssambandi. Á framkvæmdaráðsfundi 6. september s.l. var kallað eftir því að formenn deilda bæru upp við félagskonur ósk um framkvæmd landsfundar  9. og 10. maí.  Um er að ræða ytri framkvæmd fundar, menntanefnd DKG sér um inntak og allt sem lýtur að dagskrá. Fundarkonum leist vel á hugmynd stjórnar Etadeildar að leita samstarfs við aðra deild um framkvæmd og fólu stjórn að ganga þeirra erinda við Kappadeild. Greiðsla félagsgjalds þarf að berast til landssambands fyrir 1. nóvember og áríðandi að konur greiði um leið og beiðni þess efnis berst. Aðrar tilkynningar bíða næsta fundar.

Vetrarstarf Etadeildar. Umræður um áherslur og viðfangsefni á fundum, bar þar margt á góma. Fram kom m.a. að við mættum láta meira til okkar taka utan deildar, vera sýnilegri og var bent á að nýlegar rannsóknir sýndu að það að gefa af sér til samfélags í formi einhvers konar aðstoðar eða stuðnings hækkaði hamingjustuðulinn. 
Rætt var að stöðugt þyrfti að huga að innbyrðis kynnum og lagt til að konur kynntu sig t.d. með því að segja frá áhugaverðum viðfangsefnum eða einhverju markverðu sem þær hefðu lent í. 
Önnur leið til að efla kynnin væri að setjast t.d. aldrei hjá sömu konum á fundum. Ákveðið var að lengd funda yrði að jafnaði tveir og hálfur klukkutími. 
Fundir væru alla jafna þétt skipaðir dagskrá og lítið svigrúm fyrir óformlegri samræður og kynni í hópnum.   


Síðast uppfært 27. okt 2014