2. fundur

2. fundur í Eta deild  2. nóvember 2011.
 Heimsókn á fund í Delta deildar á Vesturlandi.

Fundarstaður: Landmælingar Íslands á Akranesi. Fundurinn hófst kl. 18:30 og lauk kl. 20:00. Þá var  haldið á veitingastaðin Galito og  snæddur þar ljúffengur matur og dregið í happdrætti. Þeim hluta lauk  kl. 21.20. Alls voru mættar 18 konur á fundinn. Því miður komust aðeins fimm Eta konur á staðinn, fleiri lögðu þó af stað en ofsarok olli því að strætisvagnaferðir voru felldar niður og þær sem ætluðu að nýta sér þá þjónustu þurftu að snúa heim. Eta konur sem mættu á fundinn voru þessar: Guðrún Geirsd., Hafdís, Magnea, Sophie og Þórunn.

Dagskrá Deltafundar var með hefðbundnum hætti (hér fylgir kafli úr fundargerð Halldóru Jónsdóttur):

1. Formaður Deltadeildar Elísabet Jóhannesdóttir setti  fundinn og bauð konur  velkomnar og þá sérstaklega Etakonur. Formaður flutti kveðjur frá fjarstöddum félögum og bað síðan Jensínu Valimarsdóttur  að tendra kertin. Að því loknu var fundargerð síðasta fundar lesin og samþykkt.  Þá bað formaður konur að kynna sig, rík ástæða til þess þar sem gestir væru á fundinum.

2.  Orð til umhugsunar flutti Arnbjörg Stefánsdóttir, skólastjóri Brekkubæjarskóla  og fjallaði erindi hennar um stöðu kvenna og stöðu nýbúa á Íslandi. Kveikjan að erindi Arnbjargar var m.a. að hún hafði nýverið  ásamt skólafólki á Akranesi  setið  fund um fjölmenningu með Önnu Kirovu, sérfræðingi á menntavísindasviði við háskólann í Alberta í Kanada.

3.  Þá sagði Jóhanna Karlsdóttir, lektor á Menntavísindasviði  H.Í  frá  3ja mánaða námsdvöl sinni í Vancouver í Kanada, The  University of British Columbia.  Áhugi Jóhönnu á lífi frumbyggja leiddi hana til Kanada. Frumbyggjar hafa alltaf verið henni hugleiknir og  rifjaði hún upp sögn  um grænlenska formóður sína.  Námsdvölin tengist rannsóknarverkefni Jóhönnu,  Skóli án aðgreiningar.  Um það verkefni má t.d. lesa í tímaritinu Uppeldi og menntun  2009, en þar er grein eftir  Jóhönnu og Hafdísi Guðjónsdóttur, Látum þúsund blóm blómstra . Sjálfbærni voru lokaorð Jóhönnu.

Um þessa dagskrá er það að segja að orð til umhugsunar voru einstaklega eftirminnileg og vel flutt og vöktu athygli á ólíkum siðum og venjum í upprunalöndum innflytjenda. Jóhanna Karlsdóttir sýndi athyglisverðar myndir og sagði frá námsdvölinni á líflegan hátt. Eta konur komust til síns heima þrátt fyrir ofsarok og voru þakklátar fyrir þetta góða boð og þessa ánægjulegu kvöldstund. 

Fundargerð ritaði Þórunn Blöndal


Síðast uppfært 01. jan 1970