4. fundur

Fundur haldinn í Etadeild fimmtudaginn 28. apríl 2016  
á kaffi Sólon kl. 18:00–20:00.
 
Mættar voru: Bryndís G., Bryndís S., Björg,  Ágústa Unnur, Ragnheiður, Stefanía, Auður, Ingibjörg M., Jóhanna, Sophie, Kristín, Guðbjörg, Anna Sigríður, Sigríður Heiða, Ingibjörg S., Magnea, Hafdís og Guðrún Hrefna.
 
Gestur og fyrirlesari: Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur og handhafi  Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis 2015.
 
Undirbúningshóp skipuðu: Anna Magnea, Auður Elín, Björg, Bryndís S., Brynhildur, Eyrún, Guðrún Hrefna, Ingibjörg M., Sigríður Heiða, Sophie og Þórunn.
 
Dagskrá:
1. Bryndís formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún skipaði Bryndísi Sigurjónsdóttur fundarstjóra og Ingibjörg Möller fundarritara.
 
2. Fyrirlestur kvöldsins: Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur. Gunnar fjallaði  um verðlaunabók sína Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914 - 1918.  Markmið höfundar var að skrifa aðgengilega bók sem höfðaði til  hins almenna lesandi og hvíldi á traustum, fræðilegum grunni.  Titill bókarinnar  er sóttur í  bréf sem Héðinn Valdimarsson ritaði til móður sinnar, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í júlílok  1914. Lýsir titillinn vel efni bókarinnar og  hvernig menn upplifðu það sem mikið menningarhrun og áfall þegar stríðið braust út. Hér á Íslandi hafði verið hagvöxtur, stöðugleiki og velmegun um 25 ára skeið og bjartsýni ríkti. Eftir langt tímabil góðæris og friðsamlegra samskipta í Evrópu kom styrjöldin fólki í opna skjöldu. Þessi mikla átakasaga er sögð út frá sjónarhóli Íslendinga  en ófriðurinn hafði víðtæk áhrif á lífskjör landsmanna. Má þar nefna kola- og matvælaskort að ógleymdum skipum sem var sökkt og mannslífum sem var fórnað. Efni sótti höfundur m.a. í  dagblöð, sendibréf og ýmsar fleiri heimildir.                                    
 
 Góður rómur var gerður að fyrirlestri Gunnars. Hann hreif áheyrendur með sér og veitti ágæta  innsýn í tilveru Íslendinga á ófriðartímum  fyrir heilli  öld. Að loknum fyrirspurnum og umræðum þakkaði fundarstjóri Gunnari fyrir góðan og áhugaverðan fyrirlestur.
 
3. Að máltíð lokinni var næsti dagskrárliður: Orð til umhugsunar. Sophie Kofoed  Hansen fjallaði um ömmuna og hlutverk hennar.  Starf ömmunnar er mikilvægt og henni hugleikið og hún talaði um það af hlýju og virðingu. Hún telur mikilvægt að gleði ríki í samskiptum kynslóðanna og að leggja beri áherslu á að öllum líði vel.  Hún vitnaði í Halldór Laxness sem bent hefur á þátt ömmunnar í varðveislu menningararfsins. Einnig gat hún um bókina Hugsað með Vilhjálmi en þar er grein sem nefnist Hugleiðing um gildi þagnarinnar ( Salvör Nordal). Þögnin er mikilvæg og tjáir virðingu enda er ekki alltaf við hæfi eða heppilegt að segja frá erfiðri reynslu og ræða einkamál sín opinberlega. 
„Það voru mistök að fórna skriftastóli, það hefði getað sparað sálfræðinga,“ sagði Sophie að lokum.
 
4. Leikur.  Ingibjörg M. útskýrði leik þar sem fundargestir  áttu að finna miða sem voru undir setum á stólum þeirra. Á miðunum voru spakmæli úr ýmsum áttum sem fundargestir lásu upp svo og nokkrir óhefðbundnir málshættir.
 
5. Fundarslit. Bryndís Sigurjónsdóttir þakkaði fundargestum komuna og sleit fundi.
 
Ingibjörg Möller ritaði fundargerð. 
 
 
 
 
 
 
  
 
  
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017