Góð ráð fyrir jólin - Etadeild

Nokkrar hugmyndir að jólamatnum.
  • Reynið að komast af með sem minnsta fyrirhöfn.
  • Kaupið ykkur frá erfiðinu, kaupið lifrakæfuna hrærið hana upp með svolítlum rjóma og bætið kryddi í ef ykkur finnst þurfa t.d. allrahanda (mér finnst það best), kóriander, basilíkum, engifer, negull eru krydd sem maður sér í lifrakæfu uppskriftum ekki þó öll saman en prófið ykkur áfram með bragðið og steikið mikið af beikoni og sveppum og setjið ofan á hana.
  • Rauðrófurnar eruð þið enga stund að sjóða, flysja, skera í þunnar sneiðar og sýra (það þarf mikinn sykur í löginn og borðedik, sjóðið upp á þeim í leginum og smakkið til). Rauðkálið getið þið búið til fyrirfram og fryst í smáskömmtum.
  • Kaupið góðu síldina í Kolaportinu og brytjið niður í löginn ykkar (gef uppskrift) rúgbrauðið úr Hveragerði/ Selfossi er frábært með.
Sjálf bý ég alltaf til sviðasultu en það er puð og manni þarf að þykja sviðasulta mjög góð til að leggja það á sig á Þorláksmessu- en það er enginn vandi. Takið bara bestu bitana af kjammanum setjið í jólakökuform, setjið ca. 1 bolla af volgu soðinu af sviðunum í skál og súputening út í , síðan 1-2 blöð af matarlími sem búið er að lina í köldu vatni út í , hrærið saman og hellið yfir sviðin í forminu (ekki svo mikið að fljóti yfir) og kælið strax. Sömuleiðis gref ég laxinn og það er fljótlegt þar sem flökin beinhreinsuð er hægt að kaupa í næstu fiskbúð (sjálfsagt að gefa þeim uppskriftina sem vilja). Þar með er ég komin með danskt íslenskt jólahlaðborð þegar hangikjöt og laufabrauð hafa bæst við og ég á mat til að setja á borð í hvelli ef mig langar að kalla í einhverja eða ef óvænta gesti ber að garði.
Búið til ís og desert- tertur og frystið, gott að eiga frönsku súkkulaðitertuna í frosti líka og bera hana fram með mikla af góðum ávöxtum og þeyttum rjóma . Við það minnkar álagið hátíðisdagana sjálfa, eigið ennfremur smjörbollu í ísskápnum til að þykkja með sósurnar. Gott er að eiga brauðtertu í ísskápnum , t.d. rúllutertu með rækjusalati úr gurmeborðinu í Hagkaup, eða brytjið reyktan lax og rækjur og hræið saman við sýrðan rjóma sem fyllingu. Þá þurfið þið ekki mikið að baka til jólanna. Allir eiga sínar uppáhalds uppskriftir af hamborgarhryggnum, rjúpunum og kalkúninum Ef ykkur vantar uppskriftir af þessum mat skal ég miðla þeim. Látið mig bara vita svs@khi.is
 
 Njótið jólanna, og gerið ykkur ekki svo þreyttar að þau fari fram hjá ykkur. Kaupið ekki svo mikinn jólamat að þið séuð að borða hann fram í miðjan janúar. Það sama gildir um kökur og konfekt. Hátíðarmat á að borða á hátíðum en ekki hversdags. Það heldur enginn eðlilegri þyngd með slíkum neysluvenjum.
Ég sendi ykkur öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.


Stefanía Valdís
 
 

Síðast uppfært 29. sep 2016