2. fundur

Jólafundur í Eta deild Delta Kappa Gamma þriðjudaginn 2. des. 2008

Fundarstaður jólafundar var að vanda í húsakynnum Menntavísindasviðs HÍ Skipholti hjá Stefaníu Stefánsdóttur. Brynhildur Ragnarsdóttir setti fund og kveikti á kertum. Orð til umhugsunar var í höndum Soffíu K. Hansen sem las fallegt jólaljóð: Jólin eftir Davíð Stefánsson.

Næst á dagskrá var inntaka nýs félaga Ólafar Helgu Þór, námsráðgjafa í F.B. Athöfnin fór fram á hefðbundinn hátt og var í höndum Brynhildar Ragnarsdóttur, formanns Eta deildar, Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur fráfarandi formanns og Stefaníu Stefánsdóttur. Rætt var um markmið samtakanna m.a. að auka veg mennta og menntamála. Að athöfninni lokinni var samsöngur. Sungu félagskonur Kvæði um fuglana eftir Davíð Stefánsson við lag eftir Atla Heimi Sveinsson. Að því loknu tók undirbúningshópurinn við stjórn fundarinn. Hópinn skipuðu: Auður Torfadóttir, Eyrún Gísladóttir, Margrét Friðriksdóttir, Soffía K. Hansen og Stefanía Stefánsdóttir. Fundarstjóri var Margrét Friðriksdóttir.

Um matseld sáu nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi.

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir kynnti gest fundarins sem var Tatyana K. Dimitrova, Leikskólastjóri á Bergi á Kjalarnesi. Tatyana er ættuð frá Búlgaríu. Tanja er menntuð fóstra, en hefur einnig B.A. og M.A. gráður í enskum, amerískum og ítölskum bókmenntum frá Háskóla Íslands til viðbótar við leikskólakennaragráðuna. Tanja hefur meðal annars þýtt bók Guðbergs Bergssonar, Svaninn yfir á búlgörsku. Tanja er þriggja barna móðir sem hefur búið hér á landi í 20 ár. Eitt af markmiðum Eta deildar er að fá nýbúa til samstarfs við deildina og til fá þeirra sýn á starfsvettvang þeirra.

Undir borðum las Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur úr bók sinni Orðspor. Að upplestri loknum voru góðar umræður.

Í lok fundar tók Eyrún Gísladóttir upp harmónikkuna og var jólalögum gerð góð skil.

Brynhildur Ragnarsdóttir sleit fundi með því að lesa lokaljóðið úr bókinni: Þegar Trölli stal jólunum, eftir dr. Seuss og óskaði fundarmönnum gleðilegra jóla.

Bryndís Sigurjónsdóttir ritaði

 


Síðast uppfært 24. mar 2011