2. fundur

Annar fundur ETA deildar á starfsárinu 2010-2011 var haldinn 2. nóvember í Kornhlöðunni og hófst kl. 18:00.

Fundurinn var skipulagður af hópi 1 og í honum eru: Elísabet Gunnarsdóttir hópstjóri, Bryndís Sigurjónsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Jóhanna Einarsdóttir og Kirsten Friðriksdóttir.

Mættar voru:  Anna Magnea, Auður, Bryndís G., Bryndís S., Brynhildur, Elísabet, Eyrún, Gerður, Guðbjörg, Guðrún Hrefna, Jóhanna, Kirsten, Kristín Ó., Kristín S., Ólöf, Ósa, Sophie.

Formaður setti fund, kveikti á kertum og bauð fundarmenn og gest velkomin.

Orð til umhugsunar flutti Gerður og velti hún því fyrir sér hvað hefði áunnist í jafnréttismálum s.l. 35 ár, bæði með tilliti til launa og viðhorfa.

Næst á dagskrá var erindi sem gestur fundarins, Jón Torfi Jónasson, flutti og nefndi: Framtíðarsýn í menntamálum. Hann fjallaði m.a. um það að til að ná fram metnaðarfullri endurnýjun í menntun, þarf hugsjón, ásetning - og skilning á því um hvað hann snýst, aðstöðu, þekkingu og kraft, en jafnframt mátulega sjálfsgagnrýni og hæversku gagnvart hugmyndum sínum. Hann kom inn á ævimenntun og hvernig komið verði til móts við breytt samfélag. Hvers konar skólakerfi þarf til? Hvernig munu skólar breytast? Munu þeir breytast?
Hann ræddi hugmyndir Howards Gardners sem settar eru fram í bókinni 5 minds for the future. Gardner ræðir þar fimmþætta vitund sem hann telur mikilvæga til að lifa í fjölbreytilegu þjóðfélagi. Þeir fimm þættir vitundar (e. minds/mindsets) sem Gardner telur upp eru: the disciplined mind, the synthetic mind, the creating mind, the respectful mind, the ethical mind.

Eins og við var að búast spunnust líflegar umræður um erindi Jóns Torfa og rætt m.a. hvaða þættir væru mikilvægir í námi barna til að búa þau sem best undir framtíðina.

Að loknum kvöldverði var Jóni Torfa afhent rós og Bryndís Sigurjónsdóttir sem nýverið var skipuð skólameistari Borgarholtsskóla fékk einnig rós/hrós.

Fundi slitið kl. 20:30


Síðast uppfært 24. jan 2013