Fréttabréf Etadeildar í nóvember 2016

Frá Etadeild.

Í Etadeild eru að jafnaði sex fundir á ári, skipulagðir af stjórn og hópum Etakvenna. Fundarstaðir eru vinnustaðir og veitingahús eftir aðstæðum hverju sinni. Leiðarljós okkar í ár eru að efla faglegan og félagslegan þroska með fræðslu um það sem er efst á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum. Við höfum m.a. horft til þess að fá til funda konur sem hafa farið ótroðnar slóðir, rutt brautina og náð árangri í lífi og starfi.
      
Undir áhrifum vorfundar þar sem Hulda Þórisdóttir doktor í félagslegri sálfræði og kennari við Háskóla Íslands tók fyrir umræðuhefðina í samfélaginu hófst vetrarstarf Etadeildar miðvikudaginn 30. október. Gestur fyrsta fundar var Jón Ólafsson prófessor í heimspeki og stjórnarmaður í Gagnsæi, samtökum fólks sem vill berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Jón fór m.a. yfir tilgang og markmið Gagnsæis og hvernig auka má gagnsæi og vitund fólks um spillingu og spillingarhvata. Innlegg hans var áhugavert og  kveikti líflegar umræður.  Orð til umhugsunar voru um reynsluheim menntaskólastúlku þar sem Stefanía Valdís dró fram myndir af heimavistarlífi í MA og því sem mótaði sjálfsmynd unglingsstúlkna fyrir hálfri öld. 

Nóvemberfundi var frestað þar sem hann var dagsettur mjög nærri afmælishátíð DKG og eru því áætlaðir fjórir fundir á vormisseri.  

Jólafundur verður með hefðbundnu sniði 1. desember þar njótum við samveru og fáum í heimsókn rithöfund, sem að þessu sinni verður Auður Jónsdóttir með sína nýjustu bók. 

Með góðum óskum um farsæld og frið,
Bryndís Guðmundsdóttir Etadeild

Síðast uppfært 29. sep 2016