4. fundur

4. fundur í ETA-deild starfsárið 2013 til 2014.

Fundurinn var haldinn laugardaginn 8. febrúar á Grand hóteli og hófst kl. 10:30. 

Auður Torfadóttir, formaður Eta-deildar, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Hún las síðan upp bréf frá Guðlaugu Sjöfn Jónsdóttur sem hefur sagt skilið við hópinn og ræddi í framhaldi af lestrinum ýmsar umræður sem hafa verið í gangi um tilgang starfs samtakann. Auður minnti einnig á viðburði sem framundan eru hjá DKG, svo sem vorþing á Ísafirði þann 10. maí n.k. og sumarþing í Minneapolis. Auður ræddi einnig reglur í tengslum við inntöku nýrra félagskvenna og kynnti í kjölfarið 4 konur sem deildarkonur hafa mælt með að verði boðið í deildina. Ákveðið var að senda þessum konum bréf og bjóða þeim á fund. Að þessu loknu tók Guðrún Geirsdóttir við stjórn fundarins.

Orð til umhugsunar flutti Ingibjörg Símonardóttir. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að frumkvæði nemenda fengi að njóta sín í skólastarfinu og las upp ljóð sem lýsir á mjög myndrænan hátt hvernig hægt er að kæfa frumkvæði hins frjóa barnsheila með of mikilli miðstýringu kennara. 
 
Gestur fundarins var Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.  Hún hélt erindi sem hún nefndi: Auðlindir íslenskrar ferðaþjónustu. Í erindi Ólafar kom fram að ferðaþjónustan á Íslandi nær yfir mjög vítt svið og erfitt er að tala um ferðamál sem eina afmarkaða grein. Hún greindi frá því að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög hér á landi á undanförnum árum og árið 2012 skilaði ferðaþjónustan meiri erlendum gjaldeyri en aðrar atvinnugreinar. Ólöf sagði að helstu stefnumál innan ferðamála væru að auka arðsemi greinarinnar, skapa fjölbreytt störf á ársgrundvelli, byggja upp áfangastaði vítt og breytt um landið og lengja ferðamannatímabilið. Ólöf benti á að skortur er á rannsóknum á sviði ferðaþjónustu hér á landi, framtíðarsýn vantar, svo og stefnumótun. Hún sagði að fagmennska og metnaður yrðu að vera í fyrirrúmi og menntun og þjálfun starfsmanna mikilvæg. Ólöf kynnti einnig fyrir okkur Vakann, sem er gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar. 

Að loknu erindi Ólafar gafst tími fyrir umræður og fyrirspurnir. Var henni þakkað fyrir einstaklega áhugavert erindi með rauðri rós að hætti samtakanna.  

Fundinn skipulögðu: Guðrún Geirsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir, Ósa Knútsdóttir og Stefanía Valdís Stefánsdóttir. 

16 konur voru á fundinum:
Anna Sigríður, Anna Magnea, Auður, Bryndís, Brynhildur, Eyrún, Guðrún Geirs, Ingibjörg Símonar, Jóhanna Einars, Kristín Guðmunds, Kristín Ólafs, Ósa, Soffía, Stefanía og Þórunn Blöndal. Gestur: Ólöf Ýrr Atladóttir.

Fundi var slitið kl. 13.00.

Fundargerð ritaði: Ósa Knútsdóttir.


Síðast uppfært 01. jan 1970