1. fundur - 20 ára afmælisfundur

Afmælisfundur vegna tuttugu ára afmælis  Etadeildar

 miðvikudaginn 10. október 2017 í Bakkastofu á Eyrarbakka.

Lagt var af stað með hópferðabíl frá Perlunni kl. 17:00. Alls höfðu 19  konur staðfest  þátttöku en vegna veikinda vorum við 17 sem brunuðum á Eyrarbakka.

Þær sem mættu og tóku þátt í afmælisfundinum voru: Anna Magnea, Anna Sigríður, Auður T, Auður Elín, Bryndís G, Guðrún Hrefna, Hafdís, Ingibjörg Möller, Ingibjörg S, Jóhanna Thelma, Kristín Helga, Magnea, Ólöf Helga, Ragnhildur, Sigríður Heiða, Soffía, Stefanía.

Á Eyrarbakka tóku á móti okkur hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson og buðu okkur til stofu á heimili sínu  í Bakkastofu.

Þegar við höfðum aðeins litið í kringum okkur og hellt okkur góðar veigar eða vatn í glös settumst við niður í stofunum tveimur og Bryndís setti fundinn með því að kveikja á kertunum þremur. Bryndís nefndi nokkra þætti í upphafi fundar eins og einkunnarorð samtakanna næstu tvö árin og kynnt voru á framkvæmdarráðsfundi í byrjun september, en þau eru „að beina sjónum inn á við og láta verkin tala“. En það er einmitt það sem við í Etadeild höfum lagt áherslu á undanfarin ár. Þá minnti hún á samþykkt frá í vor um að Etakonur (ekki deild sem slík) styrktu  menntaverkefni í Kólumbíu, Semilleros artístico, sem Guðrún Hrefna þekkir til og hefur kynnt fyrir hópnum. Einnig liggur fyrir samþykkt um að Etadeild gefi til  Göngum saman,  kr. 20.000 til minningar um Sigríði Erlu Sigurbjörnsdóttur og Kristínu Steinarsdóttur, sem báðar voru félagskonur í Etadeild og létust úr krabbameini. Bryndís kom aðeins inn á þá hugmynd, sem rædd var á vorfundi, að við sem reyndir kennarar gætum t.d. stutt við unga kennara, sem eru að hefja starfsferil og verður skoðað hvernig koma mætti slíku í framkvæmd. Stefnt er að því að nóvemberfundur verði hjá fyrirtækinu CCP.

Að loknu þessu tók Ásta Kristrún við og sagði okkur frá gömlum munum sem eru í stofunum þeirra og tengjast sögu ættar hennar. Hún las einnig upp úr bók sem hún er að skrifa og þar segir hún sögu formæðra sinna sem voru sterkar konur. Sagan er ekki heimildarsaga heldur skáldsaga sem styðst við ævi formæðra hennar eða það sem er kallað sannsaga. Nafn bókarinnar er dulúðugt eða, Það sem dvelur í þögninni.

Að loknum lestri Ástu og umræðum um söguna sem hún er að segja frá í bókinni tók Valgeir við og söng tvö lög sem hann hefur samið síðan hann flutti á Eyrarbakka. Eins og lag og texti sem hann nefnir, Grasið er grænna og Húsið hefur sál.

Þessi stund okkar í Bakkastofu var einstaklega náin og skemmtileg og munum við minnast hennar lengi. Þegar þessu lauk gengu Ásta Kristrún og Valgeir með okkur í kirkjuna og þar söng Valgeir tvö lög fyrir okkur. Annars vegar nýtt lag og texta en síðan hið undurfagra lag og ljóð Vorið eða betur þekkt sem Sunnan yfir sæinn.

Þessum góða og ljúfa afmælisfundi Etadeildar lauk svo með því að við borðuðum í Rauðahúsinu á Eyrarbakka og áttum þar góða og skemmtilega samverustund áður en lagt var af stað með okkar góða bílstjóra á hópferðabílnum en þá var klukkan að verða 22:00. Í bæinn komum við svo um kl. 22:30.

Magnea Ingólfsdóttir ritari. 


Síðast uppfært 12. des 2017