Ræða formanns - Etadeild

Kæru Etasystur

Etadeildin er að hefja sitt ellefta starfsár. Þann 6. júní síðastliðinn fögnuðum við 10 ára afmæli deildarinnar. Starfið hefur verið líflegt á þessum 10 árum og ýmsar hefðir hafa skapast. Þannig eru fastir liðir eins og jólafundurinn dýrmætur hornsteinn í starfi deildarinnar. Einnig höfum við tekið á móti mörgum frambærilegum fyrirlesurum í gegnum árin og átt skemmtilegar og fróðlegar umræður á fundum okkar. Einstakir hópar í deildinni hafa kynnt starfsvettvang sinn á fundum - það hafa t.d. bæði tungumálakennarar og stjórnendur í Etadeild gert á eftirminnilegan hátt. Við höfum farið saman í gönguferðir um miðborgina og einnig höfum við heimsótt konur í öðrum deildum, eins og Þetadeild á Suðurnesjum og Deltadeild á Akranesi. Á þessum tíu árum hafa sex okkar gegnt formannsembætti. Þær eru: Guðrún Geirsdóttir, Oddný H. Björgvinsdóttir, Eyrún Ísfold Gísladóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir og loks sú sem hér talar. Á afmælisfundinum veittum við Guðrúnu Geirsdóttur formannsnæluna og þökkuðum henni örugga handleiðslu þegar stigin voru fyrstu skref nýrrar deildar.

Tíu ára afmæli eru tímamót. Við lítum til baka og finnum hvað það er sem skiptir máli í starfinu. Við höfum tækifæri til að skerpa það sem okkur þykir vænt um og breyta því sem við teljum að breyta þurfi. Fundur okkar í febrúar á þessu ári var einmitt helgaður stefnumótun, því að líta fram á veginn. Á fundinum kom fram skýr vilji Etakvenna um hvað bæri að leggja áherslu á í starfinu. Etakonur eru fagkonur í fræðslumálum og vilja að starf í deildinni taki mið af því. Þær vilja gera sig gildandi í opinberri umræði, vilja vera virkar í að miðla reynslu sinni, fagþekkingu og kynnum af nýjungum í menntamálum til lærðra og leikra. Auk þess vilja þær að deildin virki sem stuðningsnet fyrir þær sjálfar. Að þær geti innan deildarinnar sótt hver til annarrar hvatningu, stuðning og vináttu. Einnig vilja þær í gegnum deildarstarfið tengjast konum í öðrum deildum, bæði hér á landi og í útlöndum.
Við urðum ásáttar um að gildin okkar væru: frumkvæði, fagmennska og samkennd. Og við settum okkur fjögur heildarmarkmið til að beina sjónum að til næstu tveggja ára. Markmiðin eru:

* Að hafa forystu í faglegri umræðu
* Að efla innbyrðis tengsl okkar
* Að velja verkefni utan deildar til að vinna að
* Að auka samskipti við konur í öðrum deildum.

Í dag ætlum við að skýra þessi markmið enn frekar, með því að ákveða aðgerðir í anda þeirra.

Mig langar - í tilefni af þeirri umræðu sem fer af stað hér á eftir - að ræða stuttlega nokkur atriði sem ég tel skipta máli og snerta sjálfsmynd okkar. Snerta það hvernig við viljum starfa í deildinni og koma fram út á við sem fulltrúar í Etadeild Delta Kappa Gamma.

1) Gildismat og lífssýn
Á hverju hausti boðar forseti Landssambandsins formenn og ritara allra deilda á svokallaðan framkvæmdaráðsfund og svo var einnig nú í haust. Á þessum fundi var m.a. innlegg frá Sigrúnu Jóhannesdóttur í Deltadeild, en hún hefur sérhæft sig í stjórnunarráðgjöf. Sigrún byrjaði á að segja okkur hvernig starfið í Delta Kappa Gamma hefði alltaf haft sérstaka þýðingu fyrir hana og hún gæfi verkefnum í þágu samtakanna forgang fram yfir margt annað. Rökin sem hún tilgreindi fannst mér eftirtektarverð. „Samtökin skipta mig svo miklu máli“ sagði hún, „því í Delta Kappa Gamma er ég meðal kvenna sem deila sama gildismati og lífssýn og ég hef sjálf“. Þessi orð Sigrúnar eru eins og endurómur af samtölum sem ég hef átt við margar konur í Etadeild í gegnum árin. Þær finna að deildin er samfélag kvenna sem halda í heiðri ákveðin grundvallargildi. Þessi gildi eru: Viljinn til að miðla, kenna og fræða. Viljinn til að starfa af faglegri nákvæmni og yfirvegun. Viljinn til að vera sanngjarn og gera öllum jafnt undir höfði. Viljinn til að koma hverjum og einum til nokkurs þroska. Viljinn til að sýna kærleika í verki. Þetta eru þau gildi sem kennarastarfið byggir á. Lífssýn kennarans er sígild og í raun fátt sem tekur henni fram. Því kennarinn hugsar um velferð annarra og leggur sig allan fram til að stuðla að því að nemendum farnist sem best. Þetta gildismat er okkar stærsta auðlind, það er verðmæti sem aldrei þrýtur því það er innbyggt í lífsviðhorf okkar.

2) Þjóðfélagslegt umhverfi
Í samfélagi okkar er gildismati kennarans ekki gert hátt undir höfði. Hetjur okkar í dag eru athafnaskáld, hagfræðingar og bankamenn. Athafnaskáldin eru að leggja undir sig heiminn og auka velsæld okkar allra með hraða ljóssins. Þeir eru virkir á fjölmörgum sviðum, í framleiðslu, fasteignaviðskiptum, smásöluverslun, flugrekstri, orkuvinnslu og fleiru. Hagfræðingar og bankamenn greina stöðu þjóðarbúsins og segja fyrir um þróun efnahagsmála. Þeir tala eins og spámenn og öll þjóðin leggur við hlustir. Enda eru þeir ósínkir á ráð til stjórnvalda og almennings um hvernig megi tryggja áframhaldandi hagvöxt og velsæld landsmanna. Orðræða efnahagslífsins er ríkjandi orðræða á Íslandi í dag. Tónninn er bjartsýnn og sjálfsöruggur. Allt samfélagið leggur við hlustir og les af áfergju fréttir af þeim sem eru að sigra heiminn.

3) Byggjum á styrk okkar
Stefna Etadeildar er að taka virkan þátt í opinberri umræðu. Etakonur vilja gera sig gildandi og segja skoðun sína um málefni sem skipta máli og þær hafa þekkingu á. Hver leggur við hlustir þegar við tölum? Hvaða tón veljum við þegar við tjáum okkur um menntamál? Ég held að við ættum að íhuga það. Í samfélagi þar sem allt er á uppleið hlustar enginn á raddir sem eru gagnrýnar, eða benda einvörðungu á það sem miður fer. Við þurfum að velja okkur tón sem fellur í kramið. Þá er von til að fólk leggi við hlustir. Þessi tónn getur verið með ýmsum hætti. Hann getur verið í takt við tíðarandann (sjálfum)glaður og lofandi. Ég held hins vegar að fyrst og fremst eigi hann að vera hlutlægur og benda áreynslulaust á staðreyndir. Þannig fannst mér t.d. viðtal við Auði Torfadóttur í Morgunblaðinu á laugardag afskaplega vel heppnað. Þar kom Auður fram sem fagmaður og benti ískalt á niðurstöður rannsókna sem sýna að íslensk börn séu ekki góð í ensku ritmáli. Þetta var nákvæmt og áreynslulaust, en hefur áreiðanlega fengið margt foreldrið (og vonandi aðra ábyrgðaraðila) til að hugsa. Ég hef einnig tekið sérstaklega eftir málflutningi femínistafélagsins nú allra síðustu ár. Þær hafa tamið sér að segja hlutina öfga- og áreynslulaust og svo virðist sem þær nái eyrum fólks.

En hvað höfum við efnislega fram að færa til samfélagsins? Í fyrra las ég bókina „Extraordinary Minds“ eftir Howard Gardner. Í þeirri bók kannar Gardner lífsferil nokkurra einstaklinga sem skilað hafa mannkyninu afbragðs æviverki. Það voru Mozart, Freud, Virgina Woolf og Gandhi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þau áttu þrennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi þá einbeittu þau sér að eigin styrk og nýttu það forskot sem hann veitti, voru ekki að eyða tíma í að sinna hlutum sem þau réðu illa við. Helguðu kröftum sínum því sem þau kunnu best. Í öðru lagi, þá vörðu þau miklum tíma í að íhuga atburði í eigin lífi og hvaða kostir stæðu þeim til boða í hverri stöðu. Og í þriðja lagi voru þau snillingar í að endurskoða og afstöðu sína og takast á við hlutina á jákvætt og skapandi. Þannig tókst þeim að nýta áhrif umhverfisins til frekari þroska og framgangs þeim verkefnum sem þau unnu að hverju sinni.

Ég held að þessar þrjár meginreglur geti verið okkur öllum góð fyrirmynd:
Að byggja á eigin styrk; að íhuga stöðugt atburði sem upp koma og valkosti sem bjóðast og að endurmeta afstöðu okkar jákvætt

Það er hægur vandi fyrir okkur Etakonur að byggja á eigin styrk innan deildarinnar. Þar er af nógu að taka.

Styrkur númer eitt er gildismat kennarans sem ég talaði um áðan og við getum verið afar stoltar af. Þetta gildismat á reyndar erfitt uppdráttar nú um stundir, en ég tel það mikilvægara í dag en nokkru sinni fyrr.

Styrkur númer tvö er fagmennskan sem Etakonur búa yfir. Í deildinni eru ótrúlega flottar konur. Og við erum svo heppnar að í deildina hafa valist konur af nokkrum þeim sviðum sem eru einna fremst á sviði skólamála hér á landi. Við erum með marga tungumálakennara, en íslenskir tungumálakennarar eru mjög framsæknir og metnaðarfullir. Tungumálakennararnir sem við höfum í Etadeild hafa verið í forystusveit í sínum fagfélögum og tekið virkan þátt í þróun tungumálakennslu hér á landi. Við erum með marga sérkennara og einnig sérfræðinga í lestrarkennslu og talmeinarfræði. Þessar konur eru með langt sérnám að baki og eru í ábyrgðarstöðum í skólum eða reka eigin stofur eða fyrirtæki. Við erum með nokkra námsráðgjafa og kennsluráðgjafa. Einnig þær eru með mikla menntun umfram kennaranám og eiga langan feril að baki innan menntakerfisins. Við erum með stjórnendur í grunnskólum, framhaldsskólum og almenningsbókasafni. Við erum með háskólakennara innan okkar raða og við erum með fræðikonur sem sinna rannsóknum á ýmsum sviðum, eins og t.d. á sviði námsráðgjafar, námsskrárfræða, tungumálakennslu og lestrar. Ég fullyrði að það er mikill styrkur fólginn í því að hafa svona margar konur af hverju ofangreindra sviða í deildinni okkar. Þennan styrk eigum við að rækta og nota til uppbyggingar. Og það er sjálfsagt mál að taka við fleiri konum af þessum sviðum inn í deildina, ef tækifæri gefst. Við getum að sjálfsögðu tekið við konum af öðrum sviðum og í því felst einnig styrkur. Það er sá styrkur sem fæst með fjölbreytni í reynslu og ólíkum sjónarhornum. Gleymum ekki því að sérhver kona í deildinni okkar er auðlind, það finnum við best þegar við kynnumst hver annarri í samstarfi og samveru.

Fagmennska kennarans er einnig okkar styrkur. Þar á ég við þá fagmennsku að kunna að kenna vel og allt sem því fylgir: að meta aðstæður, að taka ákvörðun um aðferðir, að leggja inn, hvetja og endurtaka, að fylgjast með framförum, að íhuga hvernig til hefur tekist og hvernig megi gera betur næst. Þetta ferli sem við þekkjum allar ofur vel er nú orðið tískufyrirbrigði í stjórnunarheiminum. Nú eru dubbaðir upp alls kyns sérfræðingar og ráðgjafar til að kenna stjórnendum fyrirtækja að leggja rækt við lærdómsmenningu. Skrifaðir eru stórir doðrantar um þekkingarstjórnun og mannauðsfræði. Margt af því sem þar er sagt er bara nákvæmlega sama kennslufræðin og við höfum lært og unnið eftir í fjölda ára. Og munum gera áfram. Þekking á því hvernig nemandinn lærir, virðing fyrir því viðkvæma og heillandi ferli sem nám er, verður áfram viðfangsefni okkar kennaranna, sama hvaða stefnur og straumar ganga yfir í viðskiptalífinu.Við skulum vera stoltar af því. Hæfnin til að læra er það sem helst greinir mannin frá öðrum lífverum. Og við búum við þau forréttindi að eiga að ævistarfi að hlúa að þessum einstaka eiginleika mannskepnunnar.

Ég óska mér að við sýnum enn einn styrk í deildinni okkar. Og það er styrkur opinnar umræðu. Við vitum allar hvað skiptir máli þegar nám og kennsla er annars vegar. En okkur kann að greina á um aðferðir. Það er gott, því þá höfum við tilefni til að ræða og setja fram ólíkar skoðanir, tilefni til að miðla reynslu og innsýn sem við höfum öðlast af því að takast á við hlutina í gegnum árin. Tilefni til að vaxa enn frekar í gegnum opnskáa umræðu í öruggu og vinsamlegu umhverfi deildarinnar okkar. Ég óska þess að við getum nýtt deildina okkar til að kynna og ræða nýjar og ögrandi hugmyndir á sviði fræðslumála. Að deildin geti orðið vettvangur til að halda okkur síungum í faglegri nálgun, þó svo að árin færist yfir.

Kæru Etakonur.
Ég hef nú tæpt á nokkrum atriðum sem ég tel mikilvægt að við höfum í huga þegar við ákveðum hvað við ætlum að gera í deildinni okkar í vetur. Hvernig getum við nýtt styrk okkar þannig að kraftar hverrar og einnar aukist og árangur margfaldist? Hvað getum við með skynsamlegum hætti lagt af mörkum til annarra? Það munum við nú ræða í hópum. Ég bið ykkur að raða ykkur í hópana eftir því hvert markmiðanna fjögurra ykkur þykja áhugaverðust. Og svo óska ég okkur öllum árangursríks og ánægjulegs samstarfs.

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir formaður Eta deildar 


Síðast uppfært 14. maí 2017