Afrekskonur

Þann 3. september verður afrekasýning kvenna á Íslandi opnuð í Ráðhúsinu í Reykjavík, en hún mun standa yfir allan mánuðinn. Þar er ætlunin vað gera afrekum kvenna, stórum og smáum, persónulegum og pólitískum, opinberum og óopinberum skil með fjölbreytilegum hætti. Ekki er miðað við hefðbundna skilgreiningu á afrekum, heldur er stefnt að því að draga líka fram það sem ekki hefur verið verðlaunað eða opinberað fram til þessa.
Nú er verið að safna efni á sýninguna og ef þið, stofnanir, vinnustaðir, fjölskylda eða vinahópurinn, lumar á einhverju sem gæti átt erindi á sýninguna yrðu skipuleggjendur þakklátir fyrir ábendingu. Sérstakur áhugi er fyrir öllu sem tengist kvennabaráttunni, og eru hvers kyns munir sem tengdir eru kvennasamtökum, stofnun þeirra og starfsemi sérstaklega vel þegnir. Eins má fara inn á http://www. afrekskonur.is og deila þar sögum af konum sem þið teljið eiga erindi til almennings. Markmiðið er að sýningin verði lifandi, með uppákomum og viðburðum af fjölbreyttum toga. Á sama tíma og efnissöfnunin fer fram er verið vað skipuleggja málþing, fundi, aðgerðir og listrænar uppákomur með feminiskum blæ. 

Ef þið ágætu DKG konur hafið hugmyndir um hvernig við getum komið að þátttöku í þessum viðburði þá hafið endilega samband við Kristínu Jónsdóttur kristin.jons47@gmail.com sem hefur tekið að sér fyrir hönd stjórnar að vera tengiliður okkar í þessu verkefni.