Anna Kristjánsdóttir, stofnfélagi í Alfadeild, er látin

Anna Kristjánsdóttir, stofnfélagi í Alfadeild og fyrrverandi prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, lést þann 9. apríl s.l. Anna var fædd í Reykjavík 14. okt. 1941. Hún lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í stærðfræði og sagnfræði 1967 og cand. pæd. prófi í stærðfræði og uppeldisfræðum í Kaupmannahöfn 1972. Lokaverkefni Önnu var um áhrif tölvuvæðingar á stærðfræðinám 13 – 18 ára unglinga. Að námi loknu tók Anna við starfi kennsluráðgjafa og síðar námsstjórn í stærðfræði. Jafnframt kenndi hún í MH. Hún var ráðin lektor og síðar dósent við Kennaraháskóla Íslands. Hún var skipuð prófessor 1991 í stærðfræðimenntun fyrst allra kvenna á Norðurlöndum. Eftir Önnu liggja kennslubækur í stærðfræði. Hún var frumkvöðull og virkur félagi í DKG á Íslandi. Félagskonur í Delta Kappa Gamma minnast Önnu með þakklæti og virðingu og votta aðstandendum hennar dýpstu samúð.