Björg Eiríksdóttir í Mýdeild opnar sýningu

Eitt af verkum Bjargar
Eitt af verkum Bjargar
Þann 14. janúar síðastliðinn opnaði Björg Eiríksdóttir félagi í Mýdeild sýningu á verkum sínum á Bókasafni Háskólans á Akureyri. Verkin á sýningunni eru unnin í tengslum við meistaraprófsrannsókn Bjargar þar sem hún mótar námsefni í teikningu með aðferðum starfenda- og listrannsókna. Námsefnið ber titilinn Ég sé með teikningu. Á sýningunni verða teikningar; tvívíðar, þrívíðar, á hreyfingu, í lit og hljóði og er titill sýningarinnar Ég sé mig sjáandi en þar er vísað í orð Maurice Merleau-Pontys heimspekings og fyrirbærafræðings. Þetta er áttunda einkasýning Bjargar og hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga.
Við óskum Björgu til hamingju með sýninguna og hvetjum þær félagskonur sem tækifæri hafa til að sjá sýninguna en hún verður opin til 19. febrúar.
Opnunartími bókasafnsins er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 8:00 – 16:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 8:00 – 18:00. Lokað um helgar.