Frú Vigdís Finnbogadóttir níræð

Í dag, 15. apríl, fagnar frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands 90 ára afmæli sínu. Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980 og var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Kjör hennar markaði því söguleg tímamót bæði hérlendis og erlendis og hefur hún orðið kynslóðum íslenskra kvenna fyrirmynd og haft mótandi áhrif á sjálfsmynd þeirra í áratugi. Umhverfismál, náttúruvernd, menning og tungumál hafa verið henni hugleikin sem og málefni æskunnar. Vigdís hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hún lét af embætti 1996. Vigdís var gerð að heiðursfélaga Alfadeildar og þar með Delta Kappa Gamma, 8. maí 1981. Við óskum Vigdísi hjartanlega til hamingju með daginn!